Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 19:09:54 (6474)

2002-03-21 19:09:54# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[19:09]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hef áður komið að var ég með fyrirvara á nál. frá meiri hluta sjútvn. vegna eldis nytjastofna sjávar. Það var m.a. vegna þess sem hér hefur verið rætt um, eftirlitsþáttinn, og eins í hvaða ráðuneyti málið eigi að vistast.

Athyglisvert er þegar skoðaðar eru umsagnir Hafrannsóknastofnunar, Veiðimálastofnunar, fisksjúkdómanefndar og veiðimálastjóra að þeir tala um að eðlilegt sé að eftirlit með þessu sé á einni hendi. Hins vegar kemur hvergi fram hvað þeir leggja til, og þá komum við að því sem skarast á milli mín og hv. þm. Guðjóns Arnar Kristjánssonar, að ég tel að þetta eigi að vistast í sjútvrn. vegna þess að ég tel engin rök að meginforsenda þess að þetta eigi að vera í landbrn. sé vegna þess að landbrn. hafi áður haft eftirlit með eldi vatnafiska. Mér finnst það ekki vera rök. Og það setur náttúrlega að manni hálfgerðan hroll þegar skoðuð er öll sú ferilsskrá sem þarf að fara í gegnum áður en endanlega er komið að fiskeldisstöðinni og síðan áfram þegar hún er komin í gang, hvort sem það er hafbeit eða vatnafiskeldi o.s.frv. Þetta er því ótrúlega flókið ferli sem þarna er, nánast tólf aðilar held ég hvorum megin sem þurfa að koma þarna að.

En ég tel, herra forseti, að kannski sé komin ástæða til að varpa fram þeirri spurningu hvort ekki sé orðið tímabært að sérstakt atvinnumálaráðuneyti taki til starfa til þess að taka við þessum málum ásamt fleirum. Við sjáum að ráðuneytin hafa verið í ákveðnu fari og ferli margra áratuga sem full ástæða er til að gera breytingar á.