Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 21:19:26 (6480)

2002-03-21 21:19:26# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[21:19]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir gott að heyra að þingmaðurinn leiðréttir sig því ég skrifaði niður eftir henni að það væri ,,ekkert annað`` sem verið væri að gera á Austurlandi. Hv. þm. leyfði sér að nota þennan frasa sem maður fyrirgefur þeim einum sem ekki hafa komið til Austurlands og vita ekki hvers konar kraftur er þar í því fólki sem er að vinna að mörgum góðum framfaramálum, m.a. í ferðaþjónustu og þeim atriðum mörgum sem hér hafa komið upp. Að mörgum þeirra er eingöngu verið að vinna á Austurlandi en ekki í öðrum landshlutum og hefur sýnt sig að Austfirðingar hafa gengið skrefi framar en aðrir landsfjórðungar og sýnt þar mikinn þroska, t.d. í samningi sínum um menningarmál. Rétt er að geta þess að á dögunum var einmitt verið að úthluta í fyrsta skipti úr menningarsjóði Austurlands framlögum til menningarmála sem komu frá ríkinu og er sérstakur stuðningur við menningarmál á Austurlandi sem ekki er til annarra landsfjórðunga.

Mér finnst því alveg gjörsamlega fráleitt, og í rauninni lítilsvirðing við það fólk sem vinnur að mörgum góðum málum, þegar svona er talað, að ekkert sé verið að gera á Austurlandi. Það er lítilsvirðing bæði við fólkið sem vinnur þarna að þessum góðu málum og við þá viðleitni ríkisvaldsins að koma inn í þau góðu mál og styðja það frumkvæði sem fólkið hefur heima fyrir. Ég ætla að vona að þetta heyrist ekki aftur frá hv. þm.