Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 21:51:57 (6489)

2002-03-21 21:51:57# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[21:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ekki meira um trúarbrögð í bili. En mig langar til að spyrja hv. þm. annarrar spurningar: Hvernig getur hv. þm. réttlætt það fyrir þjóðinni að farið sé út í framkvæmd af þessu tagi sem nýtur gífurlegrar meðgjafar af opinberu fé, svo mikillar að hvert einasta starf sem yrði búið til í þessu verkefni kostaði samfélagið 400 millj. kr. á meðan normalársverk kostar um 10 millj. kr.? Ég get vitnað þessu máli mínu til stuðnings í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem rituð var á síðasta ári og vitnað er til í leiðara Morgunblaðsins. Ég er nú ekki með dagsetningu á þessu ljósriti, en í leiðara Morgunblaðsins er fjallað um þessi mál og þar segir, með leyfi forseta:

,,Síðan er vitnað til skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ þar sem kemur fram að fjárfesting á hvert starf við Reyðarál og Kárahnjúkavirkjun sé mun meiri en í atvinnuvegum almennt, eða um 400 milljónir króna á hvert ársverk í bæði virkjun og álveri, en samkvæmt Þjóðhagsstofnun sé fjárfesting á bak við hvert ársverk í þjóðarbúskapnum í heild um 10 milljónir króna.``

Í þessi ársverk er fyrirhugað að eyða fé úr lífeyrissjóðum Íslendinga. Hugmyndin er sú að ellilífeyririnn okkar renni í þetta. Hvernig getur hv. þm. réttlætt þennan gífurlega mun á venjulegu ársverki í þjóðarbúskapnum sem kostar 10 millj. kr. og 400 millj. kr. fjárfestingu sem yrði á bak við hvert ársverk sem verið er að búa til með þessu verkefni?