Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 21:54:00 (6490)

2002-03-21 21:54:00# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[21:54]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg makalaus málflutningur alltaf, að réttlæta fyrir þjóðinni meðgjöf. Sko, það er þannig að að þessu verkefni koma fjárfestar. Það er verið að stofna fyrirtæki og þeir sem telja þetta verkefni arðsamt fjárfesta í því. Er þetta fé að kom úr ríkissjóði? Nei. (Gripið fram í: Jú.) Það eru fjárfestingaraðilar sem fara í þetta verkefni. Þeir telja þetta arðsamt (ÖJ: Í virkjunina?) og eru þess vegna að leggja í þetta fé. (KolH: Okkar sameiginlegu sjóðir.)

Hæstv. forseti. Hv. þm. var að tala um að í hvert starf væri eytt 400 millj. kr. Hver borgar það? Það eru þeir sem kaupa orkuna. Hv. þm. nefndi lífeyrissjóðina (Gripið fram í.) og spurði hvort réttlætanlegt væri að setja fé úr lífeyrissjóðunum í þetta verkefni. Lífeyrissjóðirnir fara ekkert að fjárfesta í þessu verkefni nema þeir telji það arðsamt. Fimm lífeyrissjóðir sem eru að gera það. Ég tel reyndar og margir sem eiga aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins telja það alveg fráleitt að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hafi ekki komið að því verkefni að kanna arðsemina.

Það er þannig að lífeyrissjóðirnir hafa 100 milljarða árlega til fjárfestinga en það er verið að tala um 10 milljarða frá lífeyrissjóðunum í þetta verkefni. Hvers lags málflutningur er þetta hérna eiginlega? Það er þannig að menn fjárfesta í þessu af því þeir telja sig hafa arð af því. (ÖJ: Þetta er niðurgreitt.)