Endurskoðun EES-samningsins

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 10:40:45 (6493)

2002-03-22 10:40:45# 127. lþ. 103.94 fundur 424#B endurskoðun EES-samningsins# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[10:40]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það eru nokkuð sérkennileg þróun í Evrópuumræðunni. Sjálfstfl. vill halda sig við EES-samninginn, þróa hann áfram en standa utan Evrópusambandsins. Frjálslyndi flokkurinn er á sömu skoðun og skírskotar til sjávarútvegshagsmuna Íslendinga. Samfylkingin er að gera upp hug sinn en formaður flokksins talar skýrri röddu og segir það skoðun sína að við eigum að ganga í Evrópusambandið, jafnvel taka upp evruna. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur tekið skýra efnislega afstöðu í þessu máli. Við segjum: Þegar kostir og gallar eru vegnir og metnir þjónar það ekki hagsmunum Íslendinga að ganga í Evrópusambandið.

En þá er komið að Framsfl. sem er þverklofinn í málinu. Annars vegar er það formaður flokksins og hæstv. viðskrh. sem upplýsti Alþingi um það í gær að hún fengi helst útrás í Evrópumálunum á heimasíðu sinni þar sem hún talar um hugsanlega nauðsyn þess að við göngum í Evrópusambandið, tökum jafnvel upp evruna. Hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson sagðist gefa lítið fyrir hvað menn skröfluðu á sínum heimasíðum. Hann er greinilega á öndverðum meiði í þessu efni.

Nú er ekkert við það að athuga að flokkar eigi í erfiðleikum með að gera upp hug sinn þó að vissulega séu takmörk fyrir því hvað menn gefi sér langan tíma. En vandinn er sá að formaður Framsfl. er jafnframt utanrrh. Íslendinga. Þess vegna er hans vandi jafnframt vandi íslensku þjóðarinnar. Þegar formaður Samfylkingarinnar talar um stefnuleysi innan EES þá spyr ég: Er það ekki stefnuleysi Framsfl. og stefnuleysi hæstv. utanrrh. sem er rótin að þeim vanda? Framsfl. verður að ganga heill til þessara verka. Við eigum að sýna samstöðu með þeim þjóðum sem við eigum aðild að EES-samningnum með. Við eigum ekki að veikja þá samstöðu eins og hæstv. utanrrh. og Framsfl. hafa gert.