Endurskoðun EES-samningsins

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 10:43:13 (6494)

2002-03-22 10:43:13# 127. lþ. 103.94 fundur 424#B endurskoðun EES-samningsins# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[10:43]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Endurskoðun EES-samningsins hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Það er eðlilegt þar sem langt er liðið, tæp níu ár, síðan Alþingi Íslendinga samþykkti EES-samninginn árið 1993. Samningurinn er langmikilvægasti viðskiptasamningur okkar Íslendinga. Hann tryggir okkur aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og stendur enn fyllilega undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar á sínum tíma. Hann hefur gagnast okkur afar vel.

Fá lönd eru jafnháð utanríkisviðskiptum og Ísland. Innan ESB liggja þýðingarmestu viðskiptahagsmunir okkar. Hæstv. utanrrh. hefur beitt sér fyrir því innan EFTA að EES-samningurinn verði uppfærður. í fyrsta lagi hvað varðar efnislega aðlögun samningsins, í öðru lagi tryggari þátttöku í nefndum og í þriðja lagi aukin áhrif á störf stofnana ESB. Einnig er endurskoðun á bókun 9, sem liggur á tollfrjálsum viðskiptum með sjávarafurðir, verkefni sem nauðsynlegt er að skoða.

Þessar hugmyndir hafa hins vegar ekki fengið undirtektir af hálfu ESB. Stækkun ESB leiðir af sér stækkun Evrópska efnahagssvæðisins þar sem nýjum aðildarríkjum verður skylt að sækja um aðild að EES. Það kallar síðan á sérstakar viðræður og samninga við EFTA-ríkin eftir stækkunarferlið.

Herra forseti. Evrópumálin hafa verið töluvert í fréttum síðustu daga í kjölfar skoðanakönnunar um viðhorf þjóðarinnar til Evrópusambandsaðildar. Að gefnu tilefni er rétt að árétta að það er ekki stefna ríkisstjórnar Íslands að sækja um aðild að ESB. Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur á stefnuskrá sinni að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Þetta eru staðreyndir sem vert er að hafa í huga þegar þessi mikilvægu mál eru rædd.