Endurskoðun EES-samningsins

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 10:52:20 (6498)

2002-03-22 10:52:20# 127. lþ. 103.94 fundur 424#B endurskoðun EES-samningsins# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[10:52]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Afar eðlilegt er að við ræðum viðskiptasambönd okkar við önnur ríki og hlýtur að vera í hæsta máta eðlilegt að þar sé stöðug vinna í gangi. Ég veit ekki betur en nú sé í gangi vinna við að afla betri og sterkari viðskiptasamninga við Kína. Við vorum að stofna sendiráð í Japan sem mörgum þótti ærið dýrt, en það er talið mikilvægt til þess að styrkja viðskiptahagsmuni og viðskiptatengsl við Japan. Ég minnist þess ekki að hæstv. utanrrh. hafi kveinkað sér undan þeirri vinnu heldur talið það skyldu sína. Þess vegna kemur það afar spánskt fyrir sjónir að heyra þennan vaska hæstv. ráðherra kveinka sér undan því að vinna að styrkingu viðskiptasamninga við Evrópulönd. Þetta er bara hlutverk hæstv. ráðherra.

En varðandi það hvort við eigum að ganga inn í Evrópusambandið, þá eru þau atriði öll í meginatriðum ljós. Evrópusambandið er á leið í að verða sambandsríki og viljum við gerast aðilar að ríkjasambandi Evrópu? Nei, það er a.m.k. ekki mitt mat. Þar á að fara að stofna erlenda evrópska stjórnmálaflokka. Viljum við leggja niður okkar flokka, Framsfl., Vinstri græna og Sjálfstfl. og stofna evrópska stjórnmálaflokka? Ég er ekki viss um að hæstv. utanrrh. geri sér grein fyrir því að fylgi hann eftir óbreyttri stefnu þá er hann að leggja niður sinn Framsfl. Ég held að bændur a.m.k. sem stóðu vörð um hugsjónir Framsfl. í árdaga og fram eftir öldinni, fram á þessa öld, muni ekki fylgja hæstv. utanrrh. þegar hann leggur niður Framsfl. og gengur í hinn evrópska framsóknarflokk.