Sjálfstæði Palestínu

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:33:34 (6509)

2002-03-22 11:33:34# 127. lþ. 103.2 fundur 336. mál: #A sjálfstæði Palestínu# þál., SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:33]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Árum saman höfum við fylgst með deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna og séð í fréttum hvernig saklausir borgarar, jafnt börn sem aðrir, hafa orðið fórnarlömb grimmdarlegra átaka. Það minnir okkur á að deilur af þessu tagi verða ekki leystar með ofbeldi heldur hlýtur það að vera frumskylda deiluaðila að ræða saman og finna lausnir sem duga til að friður náist.

Ísland hefur frá upphafi stutt stofnun og tilverurétt Ísraelsríkis en styður einnig sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna. Sá stuðningur kemur gleggst fram á vettvangi Sameinuð þjóðanna þar sem fjöldi ályktana eru samþykktar um deilur Ísraels og Palestínumanna ár hvert. Íslensk stjórnvöld telja að leysa verði deilumál aðila á friðsamlegan hátt með samningum á grundvelli Óslóarsamkomulagsins. Brýnt er að á alþjóðlegum vettvangi verði auknum kröftum beitt í að leysa deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafsins en slík lausn þarf að fela í sér að Ísrael verði tryggt öryggi innan alþjóðlegra viðurkennda landamæra og stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu. Að þessu er unnið hörðum höndum undir forustu Bandaríkjamanna.

Fyrir mörgum árum átti ég þess kost að ferðast um Ísrael og hernumdu svæðin. Sú ógn og spenna sem þar ríkti þá er síst minni nú. Það hlýtur að vera óbærilegt fyrir íbúa þessa svæðis að búa við slíkt ástand, þar sem enginn veit hver verður næsta bráð árása á saklaust fólk. Þess vegna er brýnt að ráðast að rótum vandans og finna samkomulagsgrundvöll milli deiluaðila sem báðir geta sætt sig við. Það er einfaldlega forsenda þess að friður ríki, að bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn viðurkenni sjónarmið hver annars.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti 12. mars sl. ályktun þar sem í fyrsta sinn er talað um ísraelskt og palestínskt ríki í sömu andrá. Þessi ályktun gefur von um raunverulegan vilja til að miðla málum og átak til friðarsamkomulags milli Ísraels og PLO. Í ályktuninni er talað um svæði þar sem tvö ríki, Ísrael og Palestína, þrífist hlið við hlið innan öruggra og viðurkenndra landamæra. Orðalagið er sótt í ræðu Colins Powells, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Sáttafulltrúi Bandaríkjastjórnar, Anthony Zinni, hefur nú dvalið á svæðinu í rúma viku og freistað þess að miðla málum og koma deiuluaðilum að sáttaborði. Á ýmsu hefur gengið. Einkanlega sló í bakseglin í gær við sjálfsmorðsárásina í miðborg Jerúsalems. Í morgun bárust hins vegar þær fréttir að öryggisráð Ísraels hefði ákveðið að bregðast ekki við þeim. Fulltrúar Ísraelsstjórnar lýstu því yfir að ákveðið hefði verið að sýna stillingu og bregðast ekki við árásunum að svo stöddu. Sú stefna yrði hins vegar endurskoðuð ef tilefni væri til. Yasser Arafat, leiðtogi Palestínumanna, fordæmdi árásina í Jerúsalem og hét því að grípa til aðgerða gegn þeim sem að henni stóðu.

Þessi atburðarás sýnir í hnotskurn hversu eldfimt, viðkvæmt og alvarlegt ástandið er í þessum heimshluta. Þrátt fyrir samningaviðræður sem miklar vonir allra aðila eru bundnar við skirrast ákveðin öfl ekki við að fremja hryðjuverk eingöngu í þeim tilgangi að spilla fyrir friðarumræðum. Vonandi tekst það ætlunarverk ekki.

Það er afar mikilvægt að skapa skjól fyrir þessar mikilvægu friðartilraunir sem standa nú yfir til að vænta megi árangurs. Því hvílir mikil ábyrgð og skylda á deiluaðilum, að sjá til þess að það svigrúm og tími til viðræðna sem nauðsynlegur er fáist. Þá fyrst er árangurs að vænta, að menn stilli sig og setji sig í spor hver annars.