Sjálfstæði Palestínu

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:56:28 (6514)

2002-03-22 11:56:28# 127. lþ. 103.2 fundur 336. mál: #A sjálfstæði Palestínu# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:56]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það var aldrei neinn vafi í mínum huga og hefur ekki verið að Ísland gerði rétt þegar ákveðið var að styðja stofnun Ísraelsríkis. Þær hörmungar sem gyðingar gengu í gegnum í seinni heimsstyrjöldinni réttlættu þá ákvörðun.

Það er samt ekki auðvelt að sjá hvernig samlaga átti gyðinga þeim arabaþjóðflokkum sem voru fyrir í þessu landi. Ég held þó að skoðun flestra vestrænna ríkja hafi verið að treysta mætti Ísraelsmönnum til að leysa samskiptamálin. Fyrstu leiðtogar Ísraels, Ben Gurion og fleiri, virtust geta leyst þau mál af hendi. Eins og allir vita hefur það ekki tekist eins vel seinni árin. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn hefur verið mottóið síðustu mánuði og ár.

Það er erfitt fyrir okkur sem búum við öryggi hér uppi á Íslandi að setja okkur í spor þessa fólks. Enginn er óhultur í Ísrael lengur eða Palestínu, það sem átti að vera griðastaður fyrir gyðinga er að snúast upp í blóðvöll.

Það verður að segjast eins og er að Arafat, leiðtoga Palestínumanna, hefur tekist með klókindum að telja mörgum Vesturlandabúum trú um að átökin séu alfarið Sharon og Ísraelsmönnum að kenna. Fyrir vikið er stuðningur við Ísrael ekki eins víðtækur og hann var áður. Að mínu áliti er mjög nauðsynlegt að Ísraelsmenn breyti um taktík og sýni meiri vilja til sátta en þeir hafa gert. Öllum hlýtur að vera ljóst að mikil harðlínustefna í þessum málum gengur ekki.

Palestínumenn eru í rauninni litli bróðirinn í þessu tafli og aðstaða þeirra auðvitað allt önnur en Ísraelsmanna. Ég trúi því samt ekki að fólkið í Palestínu vilji ekki frið. Allir vilja öryggi fyrir börnin sín og fjölskyldur sínar. Ábyrgð Arafats er því mikil. Fullyrt er að hann hafi fullt vald á málefnum Palestínumanna og stjórni í raun þeim aðgerðum sem hryðjuverkamenn standa fyrir í Ísrael dag eftir dag.

Það er mjög alvarlegt að málin skuli vera komin í þennan farveg. Arafat fékk friðarverðlaun Nóbels ásamt Yitzhak Rabin árið 1994. Vilji Rabins til að ná friði var aldrei vefengdur. Vilji Arafats til að semja við Barak í Camp David var aftur á móti vefengdur.

Herra forseti. Báðir deiluaðilar í þessu viðkvæma máli verða að viðurkenna tilverurétt hvors annars og landamæri hvors annars. Jafnframt sýnist mér að fleiri þjóðir en Ísraelsmenn og Palestínumenn verði að koma að lausn þeirra viðkvæmu mála sem eru flóttamannamálið og landnemamálið. Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkjamenn, Evrópusambandið og Rússar verða að koma að í sameiginlegri lausn. Það verður að komast á friður í þessum heimshluta.

Miklar vonir eru bundnar við það að Anthony Zinni, samningamaður Bandaríkjanna, nái því sem til er ætlast, að koma á friði. Við bindum miklar vonir við það og ég vona svo sannarlega að friður sé í nánd í Austurlöndum nær.