Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:19:45 (6521)

2002-03-22 15:19:45# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Í samanburði á því hvað störfin kostuðu var farið að draga upp að hægt væri að kaupa svo og svo marga frystitogara. Hv. þm. ætlaði að kaupa nokkra frystitogara á móti álversframkvæmdum.

Þá eru spurningarnar: Hver vill fjárfesta í framkvæmdinni, hver vill fjármagna hana? Hvaða arð mun hún bera og hvaða fisk eiga þeir frystitogarar að veiða? Við hljótum að gera þær kröfur að þingmaðurinn svari því. Og þessar spurningar endalaust: Hvað viljum við gera? Það er verið að stuðla að ýmiss konar frumkvöðlastarfi. Spurningin er: Af hverju hefur enginn viljað koma og fjárfesta í þessum Bang & Olufsen eða Lego á Austurlandi eða hverju sem nafn má gefa í því sambandi? Ég vænti þess að hv. þingmaður muni koma með einhver svör við þessu.

Til að bregðast síðan við þeim orðum sem hann hafði uppi um menntamál og menningarmál í ræðu sinni fyrr hafa Austfirðingar gengið á undan öðrum landsfjórðungum varðandi menningarmál og þangað er horft mjög í þeim efnum. Auk þess hafa menn verið þar mjög öflugir og áhugasamir í uppbyggingu á háskólamenntun, og er ekkert útlit fyrir annað en að hún muni eflast mjög mikið á næstunni. Þar er mikill áhugi fyrir hendi.