Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:21:37 (6522)

2002-03-22 15:21:37# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða þarf ekki að snúast um það sem við öll vitum og erum sammála um, að Austfirðingar eru duglegt og gott fólk og eru að berjast hetjulega í sínum málum, atvinnuuppbyggingu jafnt sem öðru --- enda hefur aldrei neinu öðru verið haldið fram --- og að sjálfsögðu styðjum við við allt gott framtak sem þar er.

Af því að hv. þm. nefndi skólamálin hafa einmitt verið fluttar hér tillögur, m.a. af hv. þm. Þuríði Backman, um að efla nám á háskólastigi á Austurlandi. Mig minnir að á undan henni hafi hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutt tillögur um hið sama. Sjálfsagt hafa allir þingmenn Austurlands verið saman í báti að róa fyrir því, ég efa það ekki, eins og t.d. þingmenn Norðurlands hafa staðið saman um Háskólann á Akureyri.

Það er voðalega snúið í svona umræðu, herra forseti, ef maður má ekki taka dæmi til að setja hluti í samhengi. Dæmið sem ég tók var af stofnkostnaði starfa í mismunandi atvinnuuppbyggingu. Þar með var ég farinn að gera út frystitogara og vantaði kvóta fyrir hann í munni hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur af því að ég leyfði mér að benda á að fjárfestingin á bak við hvert starf í álveri væri sambærileg við störf þriggja manna á nýjum frystitogara. Það mátti greinilega ekki því að þar með var ég farinn að gera út, kvótalaus maðurinn.

Herra forseti. Mér finnst eiginlega að skynseminnar vegna verði það að fá að lifa í þessari umræðu að það eru svo miklir möguleikar aðrir sem við erum að missa allt of mikið sjónar af þegar öll þessi óskapaorka fer í þetta mál ár eftir ár.

Ég hvet hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttir næst þegar hún fer í gegnum fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli að líta þar í rekka og reka augun í vörur frá Purity Herbs fyrirtækinu. Hvað er það? Það eru heilsu- og snyrtivörur sem eru til orðnar, og orðnar að verðmætri framleiðslu og útflutningsvöru fyrir hugvit kvenna norður í landi. Kraftaverkin eru úti um allt af því tagi sem sýna að það er fleira matur en feitt kjöt, það er fleira í lífinu en álver.