Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:26:19 (6524)

2002-03-22 15:26:19# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að það var ákaflega hógvær maður sem ræddi um Búrfell núna og sögu þess, og ég hef kannski haft nokkurt erindi sem erfiði í fyrirlestri mínum í morgun í þeim efnum og læt lokið umfjöllun um það mál.

Varðandi arðsemina og mat stjórnar Landsvirkjunar á henni verða menn að hafa í huga að hér er um pólitískt verkefni að ræða. Í stjórn Landsvirkjunar sitja náttúrlega menn sem vel vita af því að ríkisstjórn landsins er að knýja þetta verkefni áfram þannig að reynt er til hins ýtrasta að setja það í það samhengi og leggja til grundvallar matinu þannig forsendur að þetta fái staðist.

Ég segi ekki að þessir menn séu óheiðarlegir eða séu að reyna að falsa tölur. En við vitum auðvitað að miklu máli skiptir hvernig hlutirnir eru lagðir upp. Aðferðir eins og t.d. að reikna ekki inn ríkisábyrgðina sem í reynd er á bak við Landsvirkjun --- hún er þá ókeypis eins og náttúran eystra --- breyta dæminu. Eru það forsendur sem við föllumst á? Það er ekki sjálfgefið. Aðferð eins og að velja sér hagstæða spá um þróun álverðs er alþekkt til þess að réttlæta tiltekna niðurstöðu í samningum.

Búrfellssamningarnir, upphafssamningarnir, jafnlélegir og þeir voru --- vita menn hver réttlætingin var fyrir því að sættast á svo lágt orkuverð þegar það varð heyrinkunnugt? Jú, þeir sögðu: Ja, okkur er sagt að rafmagnið verði svo ódýrt í framtíðinni vegna kjarnorkunnar að það sé réttlætanlegt að semja um svona lágt verð. Ergo: Forsendurnar sem menn gefa sér ráða alltaf svo miklu um útkomuna að það er í raun og veru mjög erfitt að greina þetta tvennt í sundur. Þess vegna er hvorki hægt að spyrja spurningar af því tagi sem hv. þm. gerði né svara henni í raun og veru nema þá í samhengi við allar forsendur málsins.