Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:28:32 (6525)

2002-03-22 15:28:32# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þingmanni verður tíðrætt um Búrfell og fyrstu ár stóriðju er rétt að minna á að þegar gengið var til samninga vegna Búrfells gerðu menn mörg mistök. Um það efast enginn. En telur hv. þm. virkilega að Landsvirkjun og okkur hafi ekkert lærst á þeim árum sem liðin eru? Þar vorum við að stíga fyrstu skref okkar í átt til stóriðju, og auðvitað gerðum við ýmis mistök þar. Telur hv. þm. virkilega að við höfum ekkert lært af þeim?

Hann nefndi töluna 3 mill í upphafi. Hér er ekki verið að tala um neitt slíkt.

En ég ítreka spurningu mína vegna þess að Landsvirkjun er óheimilt samkvæmt lögum að varpa kostnaði vegna stóriðju yfir á almenning: Telur hv. þm. að stjórn Landsvirkjunar sé annaðhvort að hagræða forsendum eða gefa sér niðurstöðu til að ná sér í eitthvert dekurverkefni og þar með vísvitandi að brjóta lög? Er það virkilega skoðun hv. þingmanns?

Þá vil ég líka árétta síðari spurningu mína sem hv. þm. svaraði ekki en ég vona að hann geri í síðara andsvari sínu. Sérfræðingar okkar í Byggðastofnun hafa sagt einfaldlega að þetta sé sú aðgerð sem muni virka sem langsamlega skjótvirkasta aðgerðin til að byggja upp og styrkja byggð á Austfjörðum, og Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur margítrekað samþykkt þetta og skorað á stjórnvöld að stuðla að þessu. Telur hv. þm. að þessir aðilar, Byggðastofnun, sveitarfélög og íbúar almennt á Austfjörðum, hafi rangt fyrir sér um hin byggðalegu áhrif --- sem auðvitað eru líka mikil fyrir utan hin þjóðhagslegu áhrif --- af hugsanlegri virkjun við Kárahnjúka og álveri við Reyðarfjörð?