Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:45:49 (6535)

2002-03-22 15:45:49# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Túlkun hv. formanns Vinstri grænna lýsir óskhyggju þeirra sem eru á móti þessu verkefni. Yfirlýsing hæstv. iðnrh. skýrir stöðuna. Í henni felst í fyrsta lagi að þeir aðilar sem koma að Noral-verkefninu eru sammála um að þar sé um arðbært verkefni að ræða. Í öðru lagi kemur fram að Norsk Hydro vill halda áfram viðræðum á grundvelli samningsdraga sem þegar liggja fyrir en telja sig þurfa lengri tíma til þess meðan þeir melta mikla fjárfestingu í Þýskalandi.

Í þriðja lagi felur yfirlýsingin í sér að íslensk stjórnvöld hafa greinilega beitt þrýstingi til þess að hleypa öðrum aðilum að þessu samningaborði og setja þar með enn frekari þrýsting á Norsk Hydro.

Herra forseti. Aukast nú enn líkur á að þetta þjóðþrifamál verði að raunveruleika. Þess vegna er mikilvægt að Alþingi ljúki heimavinnu sinni.