Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:50:02 (6539)

2002-03-22 15:50:02# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Vonandi mun tímaramminn breytast sem allra minnst. En ég vil einnig taka undir með nokkrum hv. þm., að frv. sem hér er til umræðu þarf að sjálfsögðu að fara til afgreiðslu sem allra fyrst.

Ég tek undir m.a. með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem sagði það í langri ræðu sinni áðan, að það væri öllum fyrir bestu að því máli lyki sem allra fyrst og fengi afgreiðslu sem allra fyrst. (SJS: Nei nei.) Því ef eitthvað er, herra forseti, mun það að sjálfsögðu bæta samningsstöðu okkar. Við verðum þá búin að stíga enn með eitt skrefið í átt að því að ljúka okkar heimavinnu. Þess vegna er mun betra fyrir okkur að gera það og við höfum þá styrkt okkur í þeim efnum.

Hins vegar, herra forseti, er ljóst að nú bíður mikil vinna hæstv. iðnrh. vegna þess að m.a. austur á landi þarf að vinna gegn þeim vonbrigðum sem yfirlýsingin sem hér var lesin augljóslega veldur þar. Það eru mínar helstu áhyggjur í málinu á þessari stundu.