Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:51:52 (6541)

2002-03-22 15:51:52# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Málið snýst ekki um stórar sakir en þingsköpin leyfa ekki annað form. Það sem ég vil leiðrétta hér er að ég hafi sagt í ræðu minni að ég vildi fá botn í og ljúka afgreiðslu þessa frv. Það sagði ég að sjálfsögðu aldrei heldur margendurtók ég að ekki ætti að eyða frekari tíma í að ræða um það. Okkur bauð í grun að í vændum væru hlutir af því tagi sem nú hafa verið skýrðir og þar af leiðandi hefur verið tímasóun frá upphafi að sarga á þessu frv.

Ég sagði hins vegar, og við það stend ég, og það hefur hv. þm. væntanlega heyrst eða misheyrst, að auðvitað væri það öllum fyrir bestu að botn kæmist í þetta mál, að því lyki á einhvern hátt. Þessi áralanga bið í óvissu og miklum og hörðum deilum hefur engum verið til góðs. Það er allt annar hlutur og snýr ekki að þessu frv.

Að öðru leyti, herra forseti, er svo sem engu okkar hlátur í hug, hvaða afstöðu sem við höfum haft til þessara mála. Við áttum okkur öll á að hér hafa miklir atburðir orðið. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. ráðherra um að gengið verði til viðræðna við Austfirðinga um að grípa nú til mótvægisaðgerða þar í fjórðungnum. Ég bið um að reynt verði að halda þannig á því máli að sem mest og best pólitísk samstaða geti orðið um þá hluti. Nóg er komið af deilum.