Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 16:29:19 (6544)

2002-03-22 16:29:19# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[16:29]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að reyna að hafa hér við höndina þau gögn sem ég tel mig þurfa að styðjast við í ræðu minni.

[16:30]

Virðulegi forseti. Á skammri stund skipast veður í lofti. Við höfum nú í þessum sal hlýtt á yfirlýsingu hæstv. iðn.- og viðskrh. um breytingar á áætlunum Noral-verkefnisins. Það fylgir að vísu sögunni og segir í yfirlýsingunni sem hæstv. iðnrh. las að Noral-verkefnið gangi nú í aðalatriðum vel. Mér finnst það hálfkaldhæðnislegt að því skuli vera lýst yfir að það gangi vel að framfylgja Noral-yfirlýsingunni á sama tíma og ljóst er að leita verður nýrra leiða til að lokka hingað erlenda álframleiðendur.

Það var ljóst í máli hæstv. ráðherra að hún vill fjölga gulrótunum á spýtunni svo að auðveldara verði að lokka hingað til lands fyrirtæki og framleiðendur sem geta framleitt alúminíum með orku unninni úr vatnsföllunum okkar. Og hvað sagði hæstv. ráðherra? Hún sagði: ,,Við höfum umhverfismatið.`` Já, herra forseti. Við höfum umhverfismat knúið fram af pólitískri valdbeitingu og það umhverfismat sætir nú meðferð dómstóla. Það er nú sú gulrót, herra forseti.

Gulrót númer tvö er að við höfum áætlun um álver sem Norsk Hydro og Reyðarál voru sammála um á sínum tíma að leggja til grundvallar áætlunum sínum. En hver veit hvort sú stærð eða sú gerð hentar mögulegum nýjum erlendum álframleiðendum?

Og hver veit, herra forseti, nema umhverfismat álversins geti líka orðið dómsmál því að ekki eru allir á eitt sáttir um ágæti niðurstöðu Skipulagsstofnunar í því umhverfismati og hafa menn bent á að þar sé um að ræða ákveðna galla sem felist í því að ekki eigi að nýta bestu fáanlegu tækni við framleiðsluna eins og við þó teljum okkur vera skuldbundin til að gera samkvæmt alþjóðasamningum og tilskipunum frá Evrópusambandinu.

Herra forseti. Gulrót númer þrjú sem hæstv. ráðherra nefndi í máli sínu áðan var að hún sagði: ,,Við höfum Kyoto-bókunina.`` Já, mikið rétt. Við höfum heimild fyrir því að losa 1.600 þús. tonn koltvísýringsígilda án þess að fyrir komi greiðsla fyrir losunarkvóta. Við höfum sem sagt gífurlega meðgjöf fyrir erlenda álframleiðendur sem íslensk stjórnvöld ætla að láta ganga áfram án þess að þjóðin viti hvort það verður endurgjaldslaust. Sú gulrót hangir á spýtunni líka og nú viljum við líka, þ.e. hæstv. ráðherra, að Alþingi heimili að gefið verði út virkjunarleyfi, galopið virkjunarleyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun og mikla stækkum Kröfluvirkjuna. Ég segi ,,galopið leyfi``, herra forseti, því að það er ekki bundið neinum skilyrðum. Þetta frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar er ekki bundið því skilyrði að orkan sé nýtt á Austurlandi. Það kann allt eins að verða að orkan sem ráðherra verður heimilað að gefa út virkjunarleyfi á verði nýtt á suðvesturhorninu. Það eru sem sagt engin skilyrði í þeim efnum.

Þetta frv. er heldur ekki bundið neinum skilyrðum eða alla vega ekki ásættanlegum skilyrðum varðandi tíma því að gert er ráð fyrir að leyfi sem yrði gefið á grundvelli þessara laga, ef af verður, muni falla úr gildi tíu árum eftir gildistöku laganna ef leyfishafi hefur þá ekki hafið framkvæmdir og fimmtán árum eftir gildistöku laganna ef virkjunin er þá ekki komin í rekstur. Herra forseti. Þessar tímasetningar stangast í grundvallaratriðum á við það sem íslensk stjórnvöld leggja til að við innleiðum með nýjum raforkulögum. Í þeim lögum er gert ráð fyrir því að virkjunarleyfi af þessu tagi komi til með að falla úr gildi fimm árum eftir gildistöku og sömuleiðis tíu árum eftir gildistöku laganna ef virkjunin verður ekki komin í rekstur. Hér er því um galopið leyfi að ræða hvað varðar stað og stund. Og svo að lokum, herra forseti, er ekki orð í þessu frv., í hinum eiginlega texta sem yrði gerður að lögum verði þetta samþykkt, sem bindur framkvæmdina skilyrðum þeim sem umhvrh. setti í sínum úrskurði.

Þannig dingla nú, herra forseti, einar fjórar gulrætur, mislögulegar, á spýtunni sem hæstv. iðnrh. vill nota til að lokka hingað til lands erlenda álframleiðendur. Ég spyr, herra forseti, því að það kom ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra: Er algerlega sama hverjir framleiðendurnir eru? Á nú bara að gefa út ákall til allra þeirra sem eiga eitthvað undir sér í áliðnaði og eru dyrnar nú galopnar fyrir hverjum sem er? Það er ástæða til þess að leita svara við spurningu af þessu tagi, herra forseti, þegar málin hafa nú breyst til þess horfs sem hæstv. ráðherra lýsti yfir í máli sínu hér áðan.

Ég geri líka athugasemd við það, herra forseti, að okkur skuli gert að halda áfram umræðum um málið í ljósi þessarar nýju yfirlýsingar. Hv. þm. hafa verið að undirbúa ræður í ljósi annarra hluta en í raun koma í ljós í máli hæstv. ráðherrans þannig að ég tel okkur vera gert enn erfiðara fyrir að halda umræðunni áfram hér þar sem nýjar staðreyndir hafa nú komið inn í málið og við hv. þm. höfum ekki haft tækifæri til að leggja mat á eða skoða og haga þá orðum okkar út frá þessum nýju staðreyndum.

Mér hefur skilist að ekki eigi gera neinar breytingar á þessum fundi þannig að honum skal fram haldið og skal ég þá líka, herra forseti, halda áfram ræðu minni þó að hún sé örlítið kannski á skjön við þá yfirlýsingu sem hæstv. iðnrh. las hér áðan.

Herra forseti. Í 1. umr. um þetta mál var ýmsum spurningum hreyft og hæstv. ráðherra var spurður ýmissa spurninga sem enn er ósvarað. Svo ég hlaupi í stuttu máli yfir þær spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra í ræðu minni þann 14. febrúar sl., fyrir rúmum mánuði síðan, þá get ég af handahófi tínt út úr ræðu minni eftirfarandi spurningar.

Ég spurði um arðsemismál og sérstaklega spurði ég um álit Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem Skipulagsstofnun kallaði eftir þegar hún var með þetta mál allt til athugunar. Enn hefur ekki verið svarað spurningum sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands varpar fram í áliti sínu og ég sé ekki að í áliti meiri hluta iðnn. sé nein tilraun gerð til þess að svara spurningum sem þetta álit Hagfræðistofnunar vakti. Það sætir furðu því ég sá sjálf til þess að álitinu var dreift til allra nefndarmanna í iðnn. þannig að ég geri ráð fyrir að hún hafi haft málið í sínum gögnum og átt að hafa tækifæri til þess að kynna sér það.

Herra forseti. Ég spurði ráðherrann líka um meðgjöf hins opinbera með framkvæmdunum. Ég vildi fá umræðu við hæstv. ráðherra um þá meðgjöf sem hefur verið nefnd sem ríkið er að leggja til þessari virkjun og er í þremur liðum. Í fyrsta lagi ábyrgist ríkið lán sem tekin eru vegna virkjunarinnar. Þar af leiðandi eru vextir af lánunum mjög lágir og lægri en ef þetta væri eðlilegt fyrirtæki á frjálsum markaði. Í öðru lagi er hér um að ræða fyrirtæki, Landsvirkjun, sem ekki greiðir tekju- eða eignarskatt þannig að virkjunin verður tekju- og eignarskattsfrjáls. Þetta er meðgjöf númer tvö. Og í þriðja lagi er meðgjöfin sú að landið sem látið er í té undir þessa virkjun er ekki metið til nokkurs skapaðs hlutar í þessum áætlunum.

Herra forseti. Í fjórða lagi mætti nefna að ef svo færi að af þessari virkjun yrði, sem við vonum nú ekki, alla vega þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og reyndar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sem talaði á undan mér, þá er alveg ljóst að lónið kemur til með að fyllast og hæfni virkjunarinnar til þess að framleiða orku verður stórlega skert strax að loknum einhverjum áratugum, 50--80 árum. Því spyrjum við að sjálfsögðu, herra forseti, í þessu sambandi við meðgjöf hins opinbera með þessum framkvæmdum: Á ekki að setja neitt inn í kostnaðaráætlun þessara framkvæmda sem mundi lúta að því að mannvirkin yrðu tekin niður þegar virkjunin hættir að framleiða orku og þá að landinu verði komið að einhverju leyti í það horf sem áður var?

Þessi umræða hefur ekki farið fram við hæstv. ráðherra. Hún hefur ekki gefið kost á því þó svo að hún hafi verið spurð í umræðunum sem fram fóru hér um miðjan febrúar.

Þá má líka fjalla um spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra um auðlindapólitík. Ekki svaraði hæstv. ráðherra því hvers vegna við ættum að láta undir höfuð leggjast að fjalla hér um einhvers konar afgjald af þessari auðlind, sem er ósnortin náttúra, á sama tíma og stjórnvöld þykjast vera að leggja til eitthvert afgjald af auðlindinni sem við köllum fiskstofna. Ég spurði hæstv. ráðherra hvers vegna ekki væri samræmi í þessum hlutum og hvort ekki væri eðlilegt að krafa væri gerð um slíkt. En ekki kom orð um það, engin svör, herra forseti, enn sem komið er.

Þá vildi ég fá hæstv. ráðherra til þess að ræða við mig um breytingar á raforkumarkaði. Ég varpaði fram spurningum á borð við þessa: Er verið að koma hér í framkvæmd þessari tröllauknu, óafturkræfu Kárahnjúkavirkjun áður en umhverfi á raforkumarkaði breytist svo mikið að hægt verði að virkja fyrir stóriðju meir? Ekki svaraði hæstv. ráðherra spurningum mínum sem lutu að þessu, ekki orði, þannig að þær standa enn þá og óma í loftinu. Þeim er ósvarað, herra forseti, og ég sé ekki að hæstv. ráðherra sitji hér á bekk eða sé að punkta hjá sér spurningar mínar til þess þá að reyna að safna þeim saman og svara þeim núna við 2. umr. málsins.

Þá spurði ég um rammaáætlun sem ég held að ég hafi kallað í ræðu minni ,,rammaáætlun hæstv. ráðherra`` því að við verðum að sjálfsögðu að fá svör hæstv. ráðherra varðandi þá lista sem Orkustofnun setur upp í fylgiskjali með frv. því að á þeim lista er alveg ljóst að ákveðin stóriðjuáform eru í pípunum sem Orkustofnun metur að þurfi á svo og svo mikilli orku að halda. Og ekki nóg með það heldur nefnir hún til ákveðna virkjunarkosti og Alþingi verður að sjálfsögðu að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvaða plön séu í gangi hjá stjórnvöldum sem eigi samhljóm í þeim listum sem Orkustofnun leggur fram í fylgiskjali með málinu. Þessu hefur ekki enn verið svarað og að sjálfsögðu svaraði hæstv. ráðherra heldur ekki því hvernig við ættum að meta unaðsstundir, öræfakyrrð eða fuglasöng í óbyggðum.

Herra forseti. Ég get fullvissað þingheim um að spurningum þeim sem ég lagði fram við 1. umr. málsins er enn ósvarað og er það nú til marks um hversu málefnaleg umræðan hefur verið. Ég lýsi eftir því, herra forseti, að hún verði málefnalegri í þetta sinn. Við skulum gefa hæstv. ráðherra og þá öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar tækifæri til að koma upp og eiga orðastað við þingmenn um þessar framkvæmdir, um þau vafamál sem hafa skotið upp kollinum og um þær spurningar sem lagðar hafa verið fram.

Herra forseti. Ég sem sæti á í umhvn. Alþingis stend að umsögn eða áliti sem birt hefur verið í nál. um frv. frá minni hluta iðnn. Það kemur nú sennilega fram í nál. meiri hlutans líka. Ég ætla að fá að vitna nú í upphafi ræðu minnar, herra forseti, til þessarar umsagnar minnar því að hún lýsir í grundvallaratriðum þeim sjónarmiðum sem ég hef hreyft í þessu máli.

Ég byrja þessa umsögn mína á tilvitnun í bók Böðvars Guðmundssonar, Lífsins tré, og hún er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Allt þetta ofbeldi manns á náttúru: Sjá ég er herra sköpunarverksins, vötnin skulu ekki ná að frjósa gegn vilja mínum, sjálfur skal ég ráða hvar skógar vaxa og akrar spretta, vilji dýrin fá hlutdeild í þeirri veröld sem ég ræð, þá skal það allt á mínum forsendum, standi fjöllin í vegi mínum ryð ég þeim burt, streymi fljótin móti þörf minni sný ég þeim aftur að uppsprettunum. Flestir kalla þetta framfarir. Ég kalla það ofbeldi, ofbeldi manns á náttúru. Það er náskylt ofbeldi manns á manni og situr til borðs með sorginni.``

[16:45]

Herra forseti. Þessi orð koma manni í hug og lýsa afar vel tilfinningum þeirra sem hafa talað gegn þessum framkvæmdum og talað fyrir því að náttúra landsins og víðernin séu nýtt með öðrum hætti en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar stefnir að.

Það er alveg ljóst að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð styður ekki stóriðjustefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur aðra sýn á framtíðarnýtingu þeirra náttúrauðlinda sem fólgnar eru í vatnsföllum hálendisins en þá sem fólgin er í orkufrekju stóriðjusinna. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram fjöldamörg þingmál sem lýsa þessari stefnu og nægir þar að nefna þingmál á borð við sjálfbæra atvinnustefnu þar sem taldar eru upp fjölmargar hugmyndir sem lúta að annars konar atvinnuuppbyggingu en þeirri sem byggir allt sitt og á allt sitt undir stóriðju eða stórframkvæmdum. Þar er talað fyrir stefnumótun sem miði að því að atvinnuvegir landsmanna lúti allir lögmálum sjálfbærrar þróunar og þeir miðist allir við hrein framleiðsluferli og sjálfbæra nýtingu auðlindanna. Um slíkt er ekki að ræða í þeim tillögum, herra forseti, sem við ræðum nú hér.

Tillaga Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um sjálfbæra atvinnustefnu byggir líka á því að nýjum atvinnugreinum á sviði þekkingar og tækni í umhverfismálum verði sköpuð hagstæð vaxtarskilyrði, atvinnulíf þannig eflt og fjölbreytni þess víða um land aukin. Þá hefur sú atvinnustefna sem við höfum talað fyrir líka að geyma ákvæði um beislun innlendra orkulinda en á allt öðrum nótum en hér er fjallað um því að við mælum fyrir því að orkulindir okkar og beislun þeirra hafi það að markmiði að vistvæn orka komi í stað innflutts jarðefnaeldsneytis samhliða því sem komið verði í veg fyrir orkusóun. Og, herra forseti, við teldum það mun göfugra markmið, og uppbyggilegra, jákvæðara og öflugra í alla staði ef ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og hæstv. iðnrh. væru að tala fyrir orkustefnu af því tagi. Það er alveg ljóst að slík orkustefna væri ekki síður atvinnuskapandi en þröngar hugmyndir núv. ríkisstjórnar um uppbyggingu stóriðju. Þær mundu gefa allt öðruvísi atvinnutækifæri, tækifæri þar sem unnið væri í sátt við náttúru landsins og þar sem gengið væri út frá sjálfbærri auðlindanýtingu.

Stefna sú sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur talað fyrir byggir á því að fylgt verði alþjóðlegum skuldbindingum um losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunarinnar. Og við mótmælum tilraunum ríkisstjórnarinnar til annars, t.d. í Marrakesh á síðasta hausti, þar sem ríkisstjórnin fékk heimild fyrir gífurlegum losunarheimildum til viðbótar við þær heimildir sem þegar hafði verið samið um fyrir Íslands hönd. Nú er það alveg ljóst, herra forseti, að ríkisstjórnin situr á þessum heimildum, og auðvitað telja álframleiðendur heimsins þetta vera gullkistu fyrir sig. Í vasa hverra geta þeir, álframleiðendur um allan heim, sótt ókeypis losunarkvóta nema í vasa íslensku ríkisstjórnarinnar? Og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð pípir á málflutning ríkisstjórnarinnar í þessum efnum sem heldur því fram að íslenska undanþáguákvæðið sem náðist við Kyoto-bókunina sé umhverfisvænt ákvæði. Það er það ekki, herra forseti. Hæstv. ráðherra lýsti þessu áðan sem gulrót á spýtunni sem á að dingla framan í erlenda álframleiðendur. Mér finnst þetta ekki til sóma, herra forseti.

Miklu nær væri að móta sjálfbæra orkustefnu, sjálfbæra umhverfisstefnu, ganga fram fyrir skjöldu í samfélagi þjóðanna og búa til vetnissamfélag. Ég ítreka, herra forseti, að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er ekki á móti virkjanaframkvæmdum. Ég ítreka það, segi enn og aftur það sem ég hef áður sagt í þessum stól, að virkjun fyrir vetnisframleiðslu lýtur öðrum lögmálum en virkjun fyrir stóriðju. Grundvallarmunurinn á þessu tvennu felst í því að stóriðjan krefst jafnrar raforkuframleiðslu allan ársins hring, stöðugt sama orkumagns. Þess vegna þarf, þegar virkjað er fyrir stóriðju, að gera það á þann hátt að setja upp gífurleg lón sem miðlað er úr inn í virkjunina yfir vetrartímann meðan rennsli í ánni er lítið, eðli málsins samkvæmt. En virki maður fyrir vetnisframleiðslu er ekki gerð sama krafa um stöðuga raforkuframleiðslu allan ársins hring. Það þýðir að virkjanir sem ætlaðar eru til að framleiða vetni geta verið rennslisvirkjanir þar sem ár eru virkjaðar í farvegi sínum. Eðli málsins samkvæmt eru virkjanir af því tagi mun umhverfisvænni og skaðminni fyrir umhverfið en þær virkjanir sem útheimta uppistöðulón.

Ég get nefnt sem dæmi virkjun af því tagi sem ég hef alltaf talað um sem fyrirmyndarvirkjun. Það er Mjólkárvirkjun á Vestfjörðum, herra forseti, þar sem fall vatnsins er virkjað í pípum niður fjallið og ef við einn góðan veðurdag þurfum ekki á orkunni úr Mjólkárvirkjun að halda eru pípurnar teknar niður og fossunum aftur hleypt í farveg sinn. Engin spjöll á náttúru landsins í kring verða sýnileg. Virkjanir af þessu tagi lúta allt öðrum lögmálum en Kárahnjúkavirkjun. Virkjanir af þessu tagi eru sjálfbærar virkjanir, virkjanir sem væru til sóma fyrir íslensk stjórnvöld og íslenska þjóð ef íslensk stjórnvöld væru nægilega áræðin til að ganga fram fyrir skjöldu í vetnissamfélaginu og segja: Við ætlum í alvöru að afskaffa jarðefnaeldsneyti og koma á vetnissamfélagi á Íslandi þar sem skipaflotinn okkar og bílaflotinn verða keyrðir á þeirri vistvænu orku sem vetnið getur gert okkur kleift.

En, herra forseti, það verður ekki bæði sleppt og haldið, kakan verður ekki bæði étin og geymd. Við getum ekki bæði virkjað allar þær ár sem hæstv. ríkisstjórn virðist ætla að gera fyrir væntanleg stóriðjuverkefni og tekið forustuna í vetnissamfélagi framtíðarinnar. Það gengur ekki upp. Það verður að vera annaðhvort eða, því að það þýðir ekki að stunda umhverfisvernd með hægri hendinni á meðan maður rífur hana niður með þeirri vinstri. En það er nákvæmlega það sem íslensk stjórnvöld virðast ætla að gera, þau hafa talað tveimur tungum í þessum efnum og látið okkur og umheiminn trúa því að þau vilji vetnisvæðingu. Hæstv. forsrh. hefur m.a.s. tekið við umhverfisverðlaunum á erlendri grund úr höndum Gorbatsjovs, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, fyrir það að Ísland ætli að stunda vistvæna orkuframleiðslu og ganga fram fyrir fylkingu þjóðanna með góðu fordæmi. Ekki var verið að veita hæstv. forsrh. þau verðlaun fyrir að setja upp virkjanir af þeirri tegund sem Kárahnjúkavirkjun er. Alls ekki, herra forseti.

Ég var að nefna í þessum orðum mínum tillögu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til þál. um sjálfbæra atvinnustefnu. Ég nefni fleiri þingmál sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram sem eru atvinnuskapandi og vistvæn og umhverfisvæn í senn. Þar get ég nefnt till. til þál. um stofnun Snæfellsþjóðgarðs. Sömuleiðis get ég nefnt tillögu sem reyndar var ekki flutt í nafni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs en Hjörleifur Guttormsson, núv. varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, flutti á 123. löggjafarþingi mjög öfluga þáltill. um þjóðgarða á miðhálendinu, mjög framsýna tillögu sem hefði sannarlega getað búið til annað atvinnuumhverfi en stóriðjuumhverfið sem hæstv. ríkisstjórn stefnir að hefði hún verið samþykkt. Síðan get ég nefnt tillögu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til þál. um sjálfbæra orkustefnu en hún er fólgin í þeim áherslum sem ég lýsti rétt áðan. Í síðasta lagi vil ég nefna þáltill. sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagði fram í upphafi þessa þings og er að finna á þskj. 5 frá þessu þingi, ef ég man rétt, en það er þáltill. um sérstakt átak til atvinnusköpunar á Austfjörðum. Eins og komið hefur fram í ræðum þeirra þingmanna sem talað hafa í nafni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hingað til er það vitað og alveg ljóst að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð talar fyrir --- og hefur ævinlega gert --- öflugri atvinnuuppbyggingu á Austfjörðum.

Í því þingmáli sem hv. þm. Þuríður Backman er 1. flm. að lagði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð það til að Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að gera á næstu árum átak til að efla byggð um land allt og stuðla að jákvæðri þróun atvinnulífs og mannlífs. Gert var ráð fyrir að átakið mundi hefjast árið 2002 á Austurlandi og því var gert að beinast að verkefnum á sviði þróunar-, byggða-, viðskipta- og menningarmála. Til þessa átaksverkefnis á Austurlandi gerði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð ráð fyrir að 400 millj. kr. yrðu veittar árlega í sex ár af fjárlögum íslenska ríkisins, Þróunarfélagi Austurlands yrði falin ábyrgð á ráðstöfun fjárins að því er Austurland varðar, árangur og framvinda verkefnisins yrðu metin áður en tímabilið yrði hálfnað og í ljósi þess yrði síðan öðrum landshlutabundnum átaksverkefnum hrundið af stað. Samkvæmt þessari tillögu, herra forseti, átti hvert átaksverkefni að standa í allt að sex ár og þau áttu hvert um sig að vera metin á sama hátt og það fyrsta. Við val verkefna var gert ráð fyrir að annars vegar yrði lögð áhersla á fjölbreytni í atvinnusköpun og hins vegar stuðning við hvers kyns nýsköpun og þróun.

Herra forseti. Af því að niðurlagsgrein þessarar þáltill. fjallar um fjölbreytni í atvinnusköpun get ég ekki látið hjá líða að nefna sérstaklega að atvinnuuppbyggingin sem tengist álveri því sem hæstv. iðnrh. talar nú fyrir og vill að verði reist á Austfjörðum býður ekki upp á fjölbreytta atvinnusköpun. Það er alkunna og ekki þarf að fara um það mörgum orðum að risastórt álver með u.þ.b. 600 störfum í litlu bæjarfélagi úti á landi mundi bjóða upp á einhæf atvinnutækifæri. Og sannleikurinn er sá að Íslendingar hafa látið vinna skýrslur og gögn sem renna stoðum undir þessa fullyrðingu mína. Ég er hér með skýrslu sem staðarvalsnefnd um iðnrekstur, sem starfaði undir iðnrn., vann fyrir þáv. ríkisstjórn í mars árið 1983. Þó að nokkur ár séu liðin síðan, herra forseti, er margt af því sem kemur fram í þessari skýrslu enn í fullu gildi. Vil ég þá sérstaklega nefna til kafla sem ber heitið ,,Einhæfir iðnaðarstaðir``. Í þeim kafla er rakið í nokkuð löngu máli hvernig vissir staðir, t.d. í Noregi, sem byggt hafa atvinnulíf sitt og tilveru í kringum eina stóra verksmiðju eiga á þessum tíma við margháttuð vandamál að etja í atvinnu- og félagsmálum, hvernig þessi vandamál megi rekja annars vegar til hins öra vaxtar samfélaganna í upphafi og hins vegar til þess hversu háðir þessir staðir verða síðan stóriðjunni.

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði áðan um Gävle í Svíþjóð þar sem er stóriðjuver sem framleiðendurnir og eigendurnir vilja fara að loka. Menn sem fylgjast með vita að íbúar í Gävle í Svíþjóð vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið núna eða hvað þeir eiga að gera ef framleiðendurnir loka verksmiðjunni og fara í burtu með allt sitt. Á hverju eiga íbúarnir þá að lifa? Hver er þá þeirra von?

Herra forseti. Einhæfir iðnaðarstaðir hafa aldrei verið eftirsóknarverðir staðir fyrir fólk til að búa á. Það byggir á því að samfélagið sem til staðar er þar sem settar eru niður risastórar verksmiðjur er lítið og innviðir þess veikir. Samfélag af því tagi á skilið öðruvísi atvinnuuppbyggingu en álver getur boðið upp á. Og, herra forseti, það er munur á því að setja álver niður í 700 manna byggðarlagi eða 1.000 manna byggðarlagi, jafnvel þó að það væri 3.000 manna byggðarlag, eða að setja álver niður þar sem tugþúsundir, hundruð þúsunda eða milljónir manna búa fyrir. Við getum ekki annað en horfst í augu við það að við erum að tala um ólíka hluti, annars vegar álverksmiðju í litlu samfélagi og hins vegar í stóru samfélagi.

Við reyndum aldeilis, herra forseti, í umræðunni um Fljótsdalsvirkjun á Alþingi á sínum tíma, haustið 1999, að stjórnvöld voru þá mun hlynntari lítilli álverksmiðju en Norsk Hydro var. Eða minnast menn þess hvernig hv. þm. Hjálmar Árnason, sem situr nú hér á bak við mig, talaði um 120 þús. tonna byrjunaráfanga í álverksmiðjunni á Reyðarfirði og þrýstinginn sem hv. þm. vildi beita til þess að slík eining fengi jákvætt mat á umhverfisáhrifum? Ég skildi hv. þm. mætavel í þeirri baráttu sinni og ég viðurkenni fúslega að 120 þús. tonna álverksmiðja á Reyðarfirði er allt annað mál en 420 þús. tonna álverksmiðja sem Reyðarál og Norsk Hydro gerðu síðan kröfu um og við stöndum nú frammi fyrir að samþykkja eða hafna.

[17:00]

Herra forseti. Sómi væri af því ef stjórnvöld vildu horfast í augu við að einhæfir iðnaðarstaðir eru ekki til fyrirmyndar. En það er einmitt slíkur staður sem stjórnvöld leggja til að Reyðarfjörður eða Fjarðabyggð verði. Reyðarfjörður og Fjarðabyggð eiga skilið aðrar hugmyndir, miklu nær þeim hugmyndum sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt til í þingmálum sínum og ég hef lýst í nokkrum orðum. Enn er hægt að vitna í þingmál Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til að útlista frekar þá atvinnustefnu sem við viljum standa fyrir sem hæstv. iðnrh. hefur útmálað sem handónýta. Hún segir ætíð að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafi ekkert til málanna að leggja og hafi ekkert annað í staðinn. (Iðnrh.: Er það eitthvað annað?)

Herra forseti. Eins og ég hef áður bent hæstv. ráðherra á eru langir listar í þingmálum Vinstri grænna sem segja í smáatriðum hvers konar atvinnustefnu Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill reka, m.a. í því þingmáli sem ég er hér að ræða um sem lagt var fram á þskj. 5 á þessu þingi, herra forseti, þar sem rakið er hvað fjölbreytt atvinnulíf telst út frá sjónarmiðum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Það má líka segja frá því, herra forseti, að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur á fundum sínum vítt og breitt um landið spjallað við fólk í byggðum landsins og lagt hugmyndirnar fyrir þá fundargesti. Þær hafa hvarvetna hlotið mikinn og góðan hljómgrunn og satt að segja er ósköp dapurlegt til þess að vita hvernig Framsfl. hefur tekist að búa til villandi mynd af hugmyndum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, m.a. að þær snúist um hundasúrur og njóla eins og hv. þm. Framsfl. er svo tamt að tala þegar atvinnustefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ber á góma.

En nú vil ég segja, herra forseti, að atvinnustefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er eitthvað sem við erum stolt af og við gætum staðið við bakið á þeim stjórnvöldum sem tækju slíka stefnu upp á sína arma. Hún byggir á því að tækni og þekkingargreinar verði í alvöru efldar en ekki af einhverri sýndarmennsku eins og hæstv. ríkisstjórn virðist ætla að gera með risastórum frumvörpum um breytingu á stuðningi við vísindastarfsemi og rannsóknir á þessu landi, þar sem ekki virðist eiga að bæta við fjármagni frekar en ég veit ekki hvað. Þar á að breyta strúktúr, yfirbyggingu, umfangi, og fjölga í einhverjum ráðum og nefndum en, herra forseti, enginn veit hvað út úr því kemur.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill í alvöru efla tækni- og þekkingargreinar með því að setja í þær fjármagn, ekki með því að einbeita sér stöðugt að einhverjum formsatriðum.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur líka talað fyrir iðnaði, frekari úrvinnsluiðnaði, fullvinnslu allrar framleiðsluvöru okkar á ýmsum sviðum, hvort sem það er á sviði fiskvinnslu eða jafnvel álframleiðslu. Herra forseti. Við höfum í því sambandi nefnt verksmiðjur á borð við þær sem Danir hafa verið duglegir við að koma sér upp. Þeir hafa komið sér upp einföldum verksmiðjum sem fullvinna vöru úr áli. Hvers vegna eru ekki verksmiðjur af því tagi á Íslandi? Hvers vegna eru stjórnvöld stöðugt að bjóða Ísland fram sem hráefnisframleiðanda eins og eitthvert þriðja heims ríki? Íslendingar eru ein ríkasta þjóð í heimi. Við eigum ekki að vera hráefnaframleiðandi fyrir aðrar þjóðir. Við eigum og höfum fulla möguleika á að fullvinna vörur sem framleiddar eru í þessu landi, hvort sem það er ál, fiskur, önnur matvara eða hvað annað. Stjórnvöld á Íslandi hafa ekki talað fyrir fullvinnslu framleiðsluvara. Það hefur Vinstri heyfingin -- grænt framboð hins vegar gert.

Við höfum sömuleiðis talað fyrir uppbyggingu íslensks skipaiðnaðar og flutt þingmál í þeim efnum. En hvað gera íslensk stjórnvöld? Bjóða skipasmíðarnar okkar út í Kína til að fá sem lægst tilboð og íslenskur skipaiðnaður er nánast aflagður. Er þetta til sóma fyrir íslensk stjórnvöld? Vinstri hreyfingin -- grænt framboð segir nei.

Við tölum fyrir þjónustu og iðnaði sem er tengdur hefðbundnum greinum sjávarútvegsins. Við eigum t.d. snillinga á sviði framleiðslu og viðgerða og viðhalds á veiðarfærum. Hverjir eru flinkari eða vita meira um toghlera og veiðarfæri en Íslendingar? Þetta hefur sannast víða um heim, m.a. í forustu okkar í sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. Það eru störf af þessu tagi sem íslensk þjóð vill vinna, kann að vinna og á að fá tækifæri til að vinna.

Eða matvælastóriðjan. Hvers vegna má ekki framleiða matvæli hér á miklu hærri skala en gerist í dag? Auðvitað kostar það mikið markaðsátak í útlöndum, mikla vinnu og fé. En það er ekki eins og Kárahnjúkavirkjun eða álversdraumarnir fyrir austan eigi ekki að kosta opinbert fé, herra forseti. Hvað með lyf, heilsu- og snyrtivörur? Gott og vel. Við getum notað efnin í íslensku jurtunum í lyf, heilsu- og snyrtivörur. Hver hefur ekki heyrt tala um angelicu, efnið sem unnið er úr íslensku hvönninni og virðist öflugt náttúrulyf sem hægt er að nota til þess að bæta heilsu þjóðarinnar, ekki bara íslensku þjóðarinnar heldur koma á erlendan markað? Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi konur á Norðurlandi sem stunda nú framleiðslu á snyrtivörum undir vörumerki sem ég man ekki í augnablikinu hvert er en hefur verið komið á markað í útlöndum og gengur mjög vel.

Atvinnuskapandi tækifæri af þessu tagi, í lyfjaframleiðslu, heilsu- og snyrtivöruframleiðslu eru auðvitað til fyrirmyndar. Hvað með aðra heilbrigðisþjónustu eða líkamsrækt? Bláa lónið? Ég get nefnt, herra forseti, að í Stykkishólmi eru hugmyndir um að koma upp heilsutengdri ferðaþjónustu sem eru ofboðslega framsæknar. Þar þarf fólk sannarlega á að halda að fá öflugan stuðning stjórnvalda til þess að af geti orðið.

Hvað með þá staðreynd að ferðaþjónustan okkar er öflug og ferðamennskan hefur verið að aukast? Við fáum inn fleiri og fleiri ferðamenn á hverju einasta ári. Vöxturinn er gífurlegur og ekkert sem bendir til þess að hann hætti. Ferðamenn leita í auknum mæli til landa eins og Íslands til að heimsækja þar hreina og óspillta náttúru, þar sem öræfakyrrð og fuglasöngur eru til staðar, þar sem fólk getur farið út í víðáttuna og notið þess að vera til og skynja kraftaverk náttúrunnar. Það gera ferðamennirnir ekki innan um virkjanir og önnur mannvirki sem tengjast virkjununum.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð talaði síðast í gær, í umræðum um stefnu okkar í fiskeldinu, hvernig við vildum styðja við bakið á þeim sem stunda fiskeldi af ýmsu tagi, t.d. kræklingarækt eða lúðurækt þó svo að við tölum gegn þauleldi á laxfiskum, í svo gífurlegum mæli að líkja má við örgustu verksmiðjuframleiðslu landbúnaðarafurða. Og þó að við gerum kröfu um að eldi af þeirri stærðargráðu sem menn hafa fjallað um hér lúti mati á umhverfisáhrifum er Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hlynnt fiskeldi á Íslandi. Við erum hlynnt því að fara í þær tegundir sem aðrar þjóðir eru ekki komnar með eða farnar að framleiða í miklum mæli. Þá nefnum við sérstaklega kræklinginn og lúðuna til sögunnar.

Hvað með sportveiðmennskuna og það að efla í alvöru eða auka möguleika okkar á að vernda íslenska laxastofninn? Það vita það allir sem vilja vita hversu gífurlegar tekjur eru af sportveiðimennskunni á Íslandi. Við vitum það öll að þar er um að ræða gífurleg hlunnindi 1.800 bújarða á landinu. Vitum það líka að laxeldi undan ströndum landsins getur og mun að öllum líkindum stefna íslenska villta laxastofninum í enn meiri voða en orðið er. Við eigum að gera allt, herra forseti, sem í okkar valdi stendur til að varðveita, vernda og bjarga íslenska laxastofninum vegna þess að hann er okkur tekjulind eins og önnur auðæfi í náttúru Íslands. Við eigum ekki að sitja aðgerðalaus hjá og sjá hann verða að engu, sjá hlunnindi bújarða vítt og breitt um landið verða að engu. Nei, við eigum að taka saman höndum og efla þetta. Alla ferðaþjónustu sem hægt er að stunda allt árið eigum við auðvitað að efla, m.a. hvalaskoðun og hvers konar menningartengda ferðaþjónustu.

Síðan held ég að við getum líka nefnt það sem kallað er ,,eco-túrismi``, þ.e. græn ferðamennska. Það er ákveðin tegund ferðamennsku sem lýtur öðrum stöðlum en venjuleg ferðamennska. Af því að hv. þm. Pétur Blöndal hefur komið hér hvað eftir annað í ræðustól og hefur miklar áhyggjur af ágangi ferðamanna vítt og breitt um landið þá get ég huggað hann með því að það er til skilgreind ferðaþjónusta sem kallast ,,eco-túrismi``, vistvæn ferðaþjónusta eða græn ferðaþjónusta sem byggir á lögmálum sjálfbærrar þróunar. Til þess að fullnægja þeim kröfum þurfa þeir ferðaþjónustuaðilar sem vilja geta flokkast undir slíka þjónustu að geta uppfyllt ákveðna staðla.

Það er eftirsóknarvert fyrir Ísland að sækjast eftir því að uppfylla slíka staðla. Þannig geta Íslendingar skapað sér sérstöðu á sviði ferðaþjónustu, sérstöðu sem aðrar þjóðir í Vestur-Evrópu eiga mjög erfitt með að skapa sér af því að þar er ekki nægilega mikið eftir af ósnortinni náttúru. Það er jafnframt erfiðara fyrir önnur samfélög en okkar smáa samfélag að ná að uppfylla þá staðla sem settir eru í ,,eco-túrisma``.

Þá hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð ævinlega talað fyrir þeirri stóriðju sem fólgin er í ylræktinni okkar. Við höfum ævinlega talað fyrir því að garðyrkjubændur fái orkuna á sama verði og stóriðjan. Við höfum viljað taka undir kröfur garðyrkjubænda um að þeim verði gert kleift að rækta t.d. rósir til útflutnings. Það segjast þeir geta nokkuð auðveldlega ef þeir fái lækkað orkuverð til að geta selt afurðir sínar á samkeppnishæfu verði í útlöndum.

Ég þarf ekki að fara fleiri orðum vistvænan orkubúskap og tengdan iðnað, t.d. vetnisframleiðslu eða vindorku. Ég þarf svo sem ekki að segja neitt meira um umhverfistengdar greinar, þekkingu, tækni eða búnað á sviði umhverfisverndar sem að sjálfsögðu er allt afar atvinnuskapandi. Vonandi tekst okkur einhvern tíma að vísa því til föðurhúsanna, þ.e. í fangið á framsóknarmönnum, að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafi ekki hugmyndir í atvinnumálum. Það er argasta öfugmæli. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram öflugar hugmyndir í atvinnumálum og talað fyrir þeim kinnroðalaust hvar sem nokkur hefur viljað hlusta. Það er ekki okkur að kenna þó að framsóknarmenn vilji ekki taka bananana úr eyrunum.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, herra forseti, telur atvinnumálum Austfirðinga betur borgið á annan hátt en með því að setja niður 420 þús. tonna álverksmiðju í Reyðarfirði. Erfiðleikar í atvinnumálum heils landsfjórðungs verða ekki leystir með einni álverksmiðju. Þessa vísu höfum við nú kveðið ansi oft og þegar maður hittir fólk á öðrum stöðum á landinu, t.d. í Grundarfirði, og spyr: Hvað finnst ykkur um álverksmiðjuna á Reyðarfirði, hvað teljið þið að álverksmiðjan á Reyðarfirði muni færa ykkur? Þá fær maður setningar eins og þessa: Er ekki miklu nær að setja peningana í að ljúka við að útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegi 1? Ég er ekki að gera lítið úr neinum með því að vitna til svona setninga. En setningar á borð við þessar heyrir maður frá fólki á Vesturlandi eða Vestfjörðum sem jafnvel veit að álverksmiðja á Reyðarfirði getur haft neikvæð áhrif í þeirra byggðarlög.

Það er alkunna, herra forseti, að verksmiðja af þessu tagi dregur til sín, sogar til sín og eyðileggur fyrir jaðarbyggðunum. Við vitum enn ekki hversu langt áhrifin af verksmiðju af þessu tagi gætu náð. Sú atvinnumálastefna sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur boðað er valkostur, raunhæfur valkostur við stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar sem byggir á öðrum prinsippum, á öðrum lögmálum.

[17:15]

En hvað er það sem menn sjá sem helstu kosti stóriðjunnar á Reyðarfirði, herra forseti? Það er tvennt. Hún skapar hagvöxt og hún skapar störf. En, herra forseti, það gerir öll atvinnustarfsemi. Öll atvinnustarfsemi skapar hagvöxt og býr til störf. Það er ekki nauðugur einn kostur að fara út í álframleiðslu, það er ekki þannig, herra forseti, því að við eigum svo mikið af öðrum mögleikum. Ef ríkið getur greitt með þeirri framkvæmd sem við erum að ræða um, af hverju getur ríkið þá ekki greitt með öðrum atvinnutækifærum sem eru búin til í landinu? Hvers vegna fær metnaðarfullt fyrirtæki á Ólafsfirði sem smíðar slökkvibíla og hefur gert samninga um sölu bílanna til Reykjavíkur og einnig út fyrir landsteinana, hvers vegna fær það ekki möguleika á að sækja um sambærilega meðgjöf með framleiðslu sinni og Reyðarál virðist eiga vísa hjá ríkisstjórninni? Eru störfin sem metnaðarfullir frumkvöðlar á Ólafsfirði búa til eitthvað ómerkilegri en störfin sem Reyðarál þykist geta búið til með tilstyrk ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðanna í landinu? Eða hvers vegna kaupir ríkissjóður þá vinnuna við mat á umhverfisáhrifum fyrir Reyðarál á sínum tíma?

Herra forseti. Slökkviliðsbílasmiðirnir á Ólafsfirði eiga að því er virðist ekki einu sinni rétt á að fá styrk úr Nýsköpunarsjóði, hefur í öllu falli gengið það afar illa.

Hvað varðar fullyrðingar mínar héðan úr þessum ræðustól um að ríkissjóður hafi greitt fyrir mat á umhverfisáhrifum Reyðaráls bendi ég mönnum á 45 millj. kr. heimild á fjáraukalögum til iðnrh. sem átti að nota til að greiða fyrir matið og kom fram í umræðum um fjáraukalögin fyrir jól á Alþingi.

Ísal þarf að greiða sjálft fyrir sitt umhverfismat og ég geri ráð fyrir að Norðurál greiði sjálft fyrir sitt. En Reyðarál nýtur ríkismeðgjafar. Eða hvernig réttlætir ríkisstjórnin það að tilkostnaðurinn við hvert starf í álverinu á Reyðarfirði skuli vera 400 millj. kr. þegar meðalkostnaður við nýtt starf á landinu er annars um 10 milljónir?

Nei, herra forseti, þetta ber allt að einum brunni. Að því er virðist er meðvitaður ásetningur ríkisstjórnarinnar að gera allt öðruvísi við Landsvirkjun og Reyðarál en til stendur að gera við aðra. Það er auðvitað ekki við það búandi, herra forseti, að fólki skuli mismunað svona á þennan hátt.

Varðandi vinnslu málsins, herra forseti, í nefndum Alþingis hef ég gert grein fyrir því í umsögn minni til iðnn. að áhugaleysi hafi ríkt hjá meiri hluta umhvn. og ég held því fram í umsögn minni að málið hafi ekki verið skoðað til hlítar af nefndinni. Málið var einungis á dagskrá tveggja funda nefndarinnar og eingöngu voru þrír aðilar, herra forseti, kallaðir fyrir nefndina. Það var ekki áhugi fyrir því hjá nefndinni að fara sameiginlega yfir umsagnir þær sem iðnn. bárust heldur var ákveðið í nefndinni að nefndarmönnum væri í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir kynntu sér umsagnirnar. Og, herra forseti, meiri hluti umhvn. taldi ekki ástæðu til að fara yfir skýrslu þá sem samin var í nafni umsjónarnefndar verkefnisstjórnar rammaáætlunar um mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð. Þá var ekki heldur áhugi fyrir því hjá meiri hluta nefndarinnar að kalla til fleiri sérfróða gesti um málefnið þó að í orði kveðnu hafi nefndarmönnum verið gefinn kostur á slíku.

Herra forseti. Það var mat mitt, og ég gagnrýndi það í nefndinni og lét bóka sérstök mótmæli, að umhvn. hafi ekki unnið málið sem skyldi því að svo viðamikið mál sem hér um ræðir á það skilið að umhvn. fjalli um það af alvöru og festu.

Ég nefndi hér til sögunnar, herra forseti, mat það sem gert var á gildi lands norðan Vatnajökuls sem var undir vernd umsjónarnefndar verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Ég hef lagt drög að því í öllu falli, ef ekki er þegar búið að dreifa því á borð þingmanna, hjá skjalaafgreiðslu að lögð verði fram fyrirspurn frá mér um hvernig hæstv. ráðherra hyggist kynna þetta mat sem búið er að liggja á borðum hæstv. ríkisstjórnar, hæstv. iðnrh. síðan í október sl.

Og hvernig er það komið til að þetta mat var gert? Jú, herra forseti, það var þannig að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og raunar náttúruverndarsamtök og umhverfisverndarsamtök, ef ég man rétt ein níu talsins, gerðu um það kröfu að samhliða mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar yrðu metin umhverfisáhrif þjóðgarðs á svæðinu þannig að við hefðum í matsferlinu til samanburðar þann kost að af Kárahnjúkavirkjun yrði ekki, heldur að stofnaður yrði þjóðgarður.

Ákveðin tregða var í málinu, herra forseti, en til að gera langa sögu stutta endaði það þannig að hæstv. umhvrh. mælti svo fyrir í ræðu á Kirkjubæjarklaustri á ráðstefnu sem Landvernd og fleiri aðilar, ef ég man rétt, gengust fyrir um Vatnajökulsþjóðgarð að hún skyldi beita sér fyrir því að mat af þessu tagi færi fram. Hún sneri sér síðan til hæstv. iðnrh., skrifaði bréf til hæstv. ráðherra og óskaði eftir því að rammaáætlun ríkisstjórnarinnar, þ.e. verkefnisstjórn rammaáætlunar, yrði falið það verkefni að láta framkvæma þetta mat.

Hæstv. iðnrh. varð við beiðni hæstv. umhvrh. og fór þess á leit við verkefnisstjórn rammaáætlunarinnar að matið yrði framkvæmt. Það var og gert. Það mat liggur nú fyrir og hefur legið á borði hæstv. ráðherra síðan 9. eða 10. okt. sl. Það er skömm að því, herra forseti, að meiri hluti umhvn. skyldi ekki hafa sýnt því áhuga að umhvn. færi yfir matið. Og það er ekki bara að hér liggi fyrir mat umsjónarnefndarinnar sem unnið var undir verndarvæng Náttúruverndar ríkisins og af starfsmanni Náttúruverndar ríkisins, heldur liggur líka fyrir í tengslum við matið skýrsla um efnahagslegt umfang þjóðgarðs norðan Vatnajökuls sem Þjóðhagsstofnun vann að beiðni umsjónarnefndarinnar í ágúst 2001.

Herra forseti. Á sínum tíma lagði ég spurningu fyrir hæstv. iðnrh. um það hvort svona mat færi fram, hvort af því yrði og með hvaða hætti því yrði þá beitt. Hæstv. iðnrh. svaraði mér á þá leið, og geta allir þingmenn kynnt sér það á þingskjali, að þetta yrði ekki eiginlegt umhverfismat, en hún mundi beita sér fyrir því að matið færi fram og það kæmi til með að liggja fyrir á sama tíma og menn væru að skoða skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar.

Herra forseti. Ekki þarf að segja í mörgum orðum að af því varð ekki. Það er öllum kunnugt, herra forseti, að matsferli Kárahnjúkavirkjunar er svo gott sem lokið nema þá hjá meðferð dómstóla. En enn hefur hæstv. iðnrh. ekki séð sóma sinn í því að kynna eða láta vita af því að þetta mat hafi farið fram og það liggi hjá henni, á borðum hennar óyfirfarið að því er virðist. Ekki einu sinni þeir aðilar sem fóru þess formlega á leit að slíkt mat yrði framkvæmt hafa fengið um það vitneskju. Aldrei hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð fengið svar við bréfi sínu til hæstv. umhvrh. þar sem þess var óskað formlega í bréfi að mat af þessu tagi yrði lagt fram og yrði til skoðunar samhliða umhverfismati Kárahnjúkavirkjunar.

Þetta er nú allur aðgangurinn, herra forseti, sem við höfum að stjórnsýslunni. Svona ,,praktíserar`` hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar opna stjórnsýslu, aðgang almennings og frjálsra félagasamtaka. Mér er ekki kunnugt um að hinum frjálsu félagasamtökum sem óskuðu eftir því að þetta mat færi fram hafi verið það formlega kynnt. Þess vegna tel ég fullt tilefni til, herra forseti, að hæstv. ráðherra svari okkur formlega á Alþingi hvað hún hyggist gera við þær skýrslur og hverju sæti að þær liggja á borðum hennar mánuðum saman án þess að hún láti svo mikið sem vita af þeim.

Herra forseti. Ég vil fá að vitna í ágrip sem er fremst í því mati sem ég hef verið að reifa, en þar segir varðandi tilgang skýrslunnar, með leyfi herra forseta:

,,Tilgangur þessarar skýrslu er að meta gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð sem yrði hluti fyrirhugaðs Vatnajökulsþjóðgarðs.

Hugsanlegt þjóðgarðsland hefur mikið útivistargildi. Ályktun þessi byggir á því að fjölbreytni og andstæður sem fyrir hendi eru á þessu svæði muni standa undir væntingum gesta um jákvæða og ánægjulega upplifun og er dregin eftir skoðun land- og náttúrufarslýsinga og enn fremur studd skoðunum gesta og ferðaskipuleggjenda.

Aðdráttarafl hugsanlegs þjóðgarðslands byggir á því að um mjög stórt, tiltölulega lítt snortið svæði er að ræða sem er stærra, fjölbreyttara og minna snortið af mannavöldum en fyrirfinnst annars staðar á landinu.

Verndargildi einstakra svæða, minja og lífkerfa innan hugsanlegs þjóðgarðslands er mikið. Ályktun þessi er studd af niðurstöðum þeirra vísindamanna sem um þetta svæði hafa fjallað undanfarin 30 ár. Fjögur viðmið vega mest: hátt verndargildi jarðmyndana, landslags, gróðurs og dýralífs.

Skipulagi hugsanlegs þjóðgarðs er ætlað að stuðla að þrennu: að vernda og varðveita náttúru, styrkja atvinnulíf aðliggjandi sveita og skapa aðgengi að víðáttumiklu lítt snortnu útivistarlandi. Þjóðgarðsskipulag sem miðaði að langri dvöl gesta á svæðinu mundi örva atvinnulíf. Náttúrufegurð ein og sér nægir ekki sem aðdráttarafl. Náttúruvernd og skipulögð þjónusta er nauðsynleg forsenda árangurs. Jákvæð efnahagsleg áhrif þjóðgarða eru byggðastyrking.

Samkvæmt matsskýrslu Landsvirkjunar felst ávinningur af Kárahnjúkavirkjun í aukinni landsframleiðslu, auknum útflutningstekjum, auknum efnahagsumsvifum á Austurlandi og aukinni atvinnu í landinu. Um 20 störf skapast vegna virkjunarinnar sjálfrar auk aðkeyptrar verktakavinnu. Góður vegur opnast úr Fljótsdal að Kárahnjúkastíflu og brú á stíflunni opnar leið ofan byggðar milli Fljótsdals og Jökuldals.

Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd, útivist og ferðaþjónustu eru þau að rýra það verulega.``

Herra forseti. Ég endurtek að úr ágripinu sem ég er að lesa úr, ágripi mats á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð, er það staðfest að tilvist Kárahnjúkavirkjunar mundi rýra gildi þessa lands verulega. Ég segi þetta sérstaklega við hv. þm. Samfylkingarinnar sem hafa fallist á það að mæla með virkjunarþjóðgarði, þjóðgarði sem er málamyndaþjóðgarður og er bara friðþæging og ekkert annað og yrði aldrei sú lyftistöng sem þjóðgarður án virkjunar gæti orðið fyrir íslenska ferðaþjónustu, sem gæti orðið miklu, miklu meira stolt. Þess vegna lýsi ég enn í þessu innskoti mínu, herra forseti, vonbrigðum mínum með það Samfylkingin skyldi hafa ákveðið að meiri hluta til að styðja þetta mál ríkisstjórnarinnar.

En þá held ég áfram, herra forseti, að lesa niðurlag ágrips af umræddu mati, en þar segir áfram:

,,Stærsta ósnortna víðerni landsins yrði hlutað í sundur með mannvirkjum og því yrði hæpið að markaðssetja svæðið frá Kreppu austur á Hraun sem ósnortið víðerni. Ímynd hugsanlegs Snæfellsþjóðgarðs í sambúð við virkjun mundi mótast af því að hann væri rammaður inn á þrjá vegu af vega- og veitumannvirkjum.``

Herra forseti. Ég hef lokið lestri upp úr skýrslunni og nota þau orð sem hér eru eingöngu til þess að styrkja þann málflutning minn og annarra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að við teljum að landið norðan Vatnajökuls eigi að verða stór, ósnortinn þjóðgarður elds og ísa. Við erum ekki tilbúin í málamiðlun af því tagi sem Samfylkingin hefur talað fyrir. Enda höfum við, herra forseti, rannsóknir og viðhorfskannanir sem sýna okkur að ferðamenn vilja ekki þjóðgarð af því tagi. Þeir vilja ekki landslag af því tagi sem býður upp á virkjanamannvirki, stíflur, háspennulínur, skurði, veitumannvirki, göng, stöðvarhús. Það er ekki það sem erlendir ferðamenn eða innlendir ferðamenn eru að sækja upp á hálendi Íslands.

Fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðþjónustunnar hefur framkvæmt þrjár kannanir um ferðamennsku og ferðaþjónustu á því landsvæði sem hér um ræðir. Þeim viðhorfskönnunum eru gerð skil í þeirri skýrslu sem ég hef verið að vitna til og í þeim kafla er fjallað um niðurstöður þeirra viðhorfskannana. Ein þeirra sem er verið að fjalla um í byrjun kaflans leiðir í ljós að ferðamenn á hálendinu og skipuleggjendur hálendisferða hafi mjög svo ákveðnar skoðanir á þessum málum. Sagt er hér að um 1.100 manns hafi tekið þátt í almennri símakönnun sem hafi verið ætlað að meta svæðisbundinn og heildarfjölda ferðamanna og könnuð hafi verið viðhorf 34 forráðamanna ferðaskrifstofa og útivistarfélaga varðandi ferðaþjónustu norðan Vatnajökuls og virkjanaáforma við Kárahnjúka. Hér er getið um hvar er hægt að finna niðurstöður þeirrar könnunar.

[17:30]

Svo er getið hér um aðra könnun þar sem 1.800 manns tóku þátt í viðhorfskönnun sem fram fór á hálendinu með samanburðarkönnunum á láglendi og í henni kemur fram að um 90% ferðamanna koma upp á hálendið til að njóta náttúrunnar, um 85% til að njóta útsýnis, 86% til að stunda útiveru, um 66% koma til að njóta kyrrðar eða komast burt úr stressi og um 49% til að skoða ákveðna staði, vera með fjölskyldu eða skoða menningar- og söguminjar.

Herra forseti. Í niðurlagi þar sem fjallað er um þessa tilteknu könnun fyrirtækisins Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar kemur fram að einungis 13% þeirra ferðamanna sem lögðu leið sína upp á hálendið hafi þetta sumar verið að koma til að skoða mannvirki.

Herra forseti. Virkjanaþjóðgarður er ekki eitthvað sem kemur til með að laða ferðamenn, erlenda eða innlenda, upp á hálendið. (HBl: En það er samt eitthvað mannlegt við hann.) Hv. 1. þm. Norðurl. e. telur vera eitthvað mannlegt við hann og ég skal ekki neita því. Manngert umhverfi er að sjálfsögðu mannlegt og við höfum nóg af því. Við höfum það í öllum borgum og bæjum og við þurfum að vanda okkur við okkar manngerða umhverfi og við þurfum að sinna því af alúð og natni. En við skulum láta hálendið vera í friði fyrir mannvirkjum og mannvirkjagerð.

Herra forseti. Þegar spurt er um viðhorf ferðamanna til mannvirkja á hálendinu er niðurstaða meiri hluta svarenda í þeim könnunum sem ég hér er að vitna til sú, svo ég vitni beint í texta, með leyfi forseta, ,,að þjónusta á svæðunum eigi almennt að vera einföld í sniðum og ekki eigi að skipta á óuppbyggðum vegum fyrir slitlagða vegi nema að takmörkuðu leyti, né fjallaskálum og tjaldstæðum fyrir hótel og gistiheimili``. Þess vegna vara ég, herra forseti, við þeim hugmyndum, sem koma fram hjá ferðaþjónustuaðilum á Austurlandi sem hafa verið að koma að þessu núna, um það hvernig megi sameina ferðaþjónustuna og virkjanamannvirkin. Þeir hafa viljað byggja hálendismiðstöðvar úr vinnubúðunum sem reistar verða á vegum Landsvirkjunar.

Gott og vel. Ég mæli ekki gegn nýtni en við skulum aðeins skoða þær viðhorfskannanir sem segja okkur nákvæmlega hvað það er sem ferðamennirnir eru að sækjast eftir. Þeir vilja ekki stórar hálendismiðstöðvar þar sem hægt er að gista undir þaki með rennandi vatni og klósettum sem hægt er að sturta niður úr á hverju horni heldur vilja þeir tjaldstæði og fjallakofa. Það er ferðamennska af því tagi sem ferðamenn eru að sækja upp á hin ósnortnu víðerni. Hálendismiðstöðvarnar geta menn sótt til Noregs eða hvert sem er annað þar sem slíkt hefur verið framkvæmt.

Sú skoðun að virkjanamannvirki séu óæskileg á viðkomandi hálendissvæðum, m.a. norðan Vatnajökuls, var mjög almenn meðal þeirra sem tóku þátt í þessum skoðanakönnunum. Þannig töldu 88--94% þeirra sem afstöðu tóku að virkjanamannvirki ættu alls ekki heima á hálendinu. Og hvað ætla forráðamenn Landsvirkjunar og hæstv. iðnrh. lengi að jarma um að ferðamenn vilji skoða mannvirki? Við höfum kannanir sem hafa sýnt að þeir vilja það ekki. Og þessar kannanir sýna að með framkvæmdunum sem við erum að fjalla um hér erum við að eyðileggja möguleika okkar á því að fá ferðamenn af þessu tagi upp á hálendið. Vilja menn það eða vilja menn bara loka augunum fyrir þessu og ekki vega hagsmunina hverja á móti öðrum? Það er skammsýni, herra forseti. Það er skammsýni að vilja ekki skoða þessi mál til hlítar. Það er skammsýni að vilja ekki vega ólíka kosti og taka þá hagsmuni sem eru okkur dýrmætastir. Og ég fullyrði, herra forseti, að það eru okkur dýrmætari hagsmunir að halda hálendinu norðan Vatnajökuls ósköðuðu af virkjanamannvirkjum en að fara út í þá óráðsíu sem framkvæmdirnar fela í sér.

Já, herra forseti, ferðafólk og ferðaþjónustuaðilar á landinu öllu telja háspennulínur hafa neikvæð áhrif, að stóriðjuver hafi neikvæð áhrif, að miðlunarlón og stíflur hafi neikvæð áhrif og að virkjana- og línuvegir hafi jákvæð áhrif. Þetta sýnir okkur að fólk vill samgöngur inn á hálendið en það vill ekki uppbyggða vegi. Það vill láta sér nægja línuvegina sem við höfum haft. Það vill ekki uppbyggða, malbikaða vegi með ræsum úti um allar trissur. Það er önnur sýn sem ferðamenn hafa sem heimsækja hálendi Íslands og við hér í þessum sal, sem erum að véla með náttúru landsins, verðum að opna augu okkar fyrir því.

Herra forseti. Það er alkunna að unnið er að gerð náttúruverndaráætlunar en í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, er ákvæði sem gerir hæstv. umhvrh. skylt að leggja fyrir Alþingi náttúruverndaráætlun. Hæstv. umhvrh. hefur látið okkur vita af því að náttúruverndaráætlun verði lögð fyrir Alþingi á hausti komanda. Við höfum auðvitað fagnað því þó að við sem hér í þessum sal erum vitum að ekki hefur verið sett nægilegt fjármagn í þá náttúruverndaráætlun og við verðum auðvitað að bíða og sjá og athuga hvað Náttúruvernd ríkisins hefur getað gert úr því fjármagni sem henni hefur þó verið ætlað til þessa og Náttúrufræðistofnun Íslands sömuleiðis. Þessar stofnanir hafa mótað aðferðir sem ætlunin er að byggja á við gerð þessarar áætlunar og þetta er allt af hinu góða. Ég tel að þegar við höfum í hendi náttúruverndaráætlun getum við tekið næsta skref í ákvörðunum um nýtingu hálendisins norðan Vatnajökuls.

Náttúruverndaráætlun á að líta dagsins ljós í haust. Því segi ég, herra forseti: Af hverju þetta óðagot núna? Af hverju að ýta svo á þessar framkvæmdahugmyndir að við verðum búin að eyðileggja fyrir okkur möguleikana sem náttúruverndaráætlunin --- sem enn hefur ekki litið dagsins ljós --- opnar? Enn segi ég, herra forseti: Við getum ekki bæði geymt kökuna og étið hana. Við getum ekki verið umhverfissinnuð með hægri hendinni og síðan misþyrmt umhverfinu með þeirri vinstri. Það er ekki hægt. Og náttúruverndaráætlun er í eðli sínu svipuð áætlun og rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það er alkunna að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur af alefli talað fyrir því að vinna við rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um vatnsafl og jarðvarma njóti forgangs og að frekari ákvarðanir um stórvirkjanir uppi á hálendinu verði ekki teknar fyrr en rammaáætlunin hefur verið unnin og endanleg niðurstaða hennar liggur fyrir. Það hefur líka komið fram í máli hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að við gefum ekkert fyrir tilraunamat það sem hæstv. iðnrh. er að láta fara fram núna og pressar mjög á verkefnisstjórn rammaáætlunarinnar með það að vera tilbúin með eitthvert bráðabirgða- eða tilraunamat á virkjanakostum á miðhálendinu. Það eru vinnubrögð sem við viljum ekki líða. Það eru hroðvirknisleg vinnubrögð. Við eigum að gefa okkur tíma til að gera þessar áætlanir eins vandaðar og efni standa til, eins vandaðar og viðamiklar og vísindamennirnir okkar og þeir einstaklingar sem eru að vinna að þessum áætlunum hafa mögulega burði til að gera þær. Þarna er ég að tala um rammaáætlunina og ég er að tala um náttúruverndaráætlunina. Þessar tvær áætlanir verða að fá frið og þær verða að líta dagsins ljós áður en við tökum þær gífurlega afdrifaríku ákvarðanir sem stjórnvöld eru að pressa okkur inn í núna.

Og ég segi, herra forseti, og það er kannski ekki hvað síst í ljósi yfirlýsingar hæstv. ráðherra áðan: Það liggur ekki lífið á. Það liggur ekki lífið á að gefa ráðherranum heimild til að hleypa Landsvirkjun upp á hálendið til að rassakastast þar og byrja spjöll sín áður en nokkur orkukaupandi er í hendi. Nú vitum við það, herra forseti, svo óyggjandi er að orkukaupandinn er ekki til staðar. Norsk Hydro grátbænir okkur um frest. Við viljum ekki gefa Norsk Hydro frest. Við viljum miklu frekar veifa einhverju gulrótarpriki framan í einhverja aðra fjárfesta sem mögulega vilja koma inn með eitthvað og eitthvað. Og guð má vita hvort þeir aðilar vilja reisa verksmiðjuna þar sem hæstv. iðnrh. vill reisa hana. Og guð má vita hvort þeir aðilar vilja hafa hana svona stóra eða svona í laginu eða með þessum hætti tæknilega búna eða ekki. Það veit guð einn, herra forseti.

Þess vegna fullyrði ég hér: Það er ósanngjarnt að pressa Alþingi Íslendinga inn í ákvörðun um þetta mál á þessu stigi, fullkomlega ótímabært og óásættanlegt.

Auðvitað hefði verið miklu meiri bragur á því ef stjórn Alþingis, hæstv. forseti, hefði tekið málið út af dagskrá að beiðni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og lofað okkur að anda rólega, helst með nefinu eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur beðið um að Íslendingar fái að gera í öðru tilliti og óskyldu. Það skiptir máli, herra forseti, að við fáum svigrúm, við fáum tóm, til að vega og meta hagsmuni okkar.

Þennan hluta ræðu minnar, herra forseti, hóf ég á því að gagnrýna störf nefndanna og gagnrýna það að umhvn. skyldi ekki hafa sýnt því áhuga að fjalla um þá skýrslu sem ég hef hér verið að vitna til. Ég fullyrði, herra forseti, að umhvn. veit ekkert um hvað þetta mál snýst, ekkert. Og ég þori að fullyrða líka að þó að þau í iðnn. hafi vitað af þessu plaggi hafi tími þeirra ekki verið nægur til að iðnn. gæti kynnt sér það. Þessu hefur ekki verið dreift meðal alþingismanna og meðan ástandið er svona, meðan alþingismenn hafa ekki fengið tök og tækifæri til að kynna sér þá hluti sem hér hafa komið fram, erum við ekki í stakk búin til að taka ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun, stækkun Kröflu eða byggingu álvers á Reyðarfirði. Það er svo einfalt, herra forseti.

Ef við snúum okkur þá að orkunni í fallvötnum landsins vita það allir sem vilja vita að þar er um takmarkaða auðlind að ræða. Við sem hér höfum talað fyrir annars konar atvinnustefnu, annars konar atvinnuuppbyggingu en þessar framkvæmdir fela í sér, höfum gagnrýnt þann málflutning ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna að einlægt skuli talað eins og orkan í fallvötnunum sé ótakmörkuð. Það er ekki svo, herra forseti, jafnvel þó að Orkustofnun mundi gjarnan vilja að svo væri. Orkugræðgi orkumálastjóra, Þorkels Helgasonar, lýsir sér ágætlega í grein sem hann birti í Morgunblaðinu fyrir fáeinum dögum, og kemur reyndar líka fram í greinargerð þeirri sem fylgir frv. sem hér um ræðir. Þar kemur fram ákveðin orkugræðgi sem mér finnst ekki til sóma fyrir íslenska stofnun eða íslenska embættismenn. Í greinargerðinni sem fylgir frv. kemur fram að lengi hafi verið talið að framleiða megi um 50 teravattstundir af raforku á Íslandi, 30 með vatnsafli og 20 með jarðgufu.

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að kröfur um varúð í umhverfismálum hafa stöðugt farið vaxandi á síðustu árum. Þær vaxa hröðum skrefum og þær hafa mikið breyst upp á síðkastið. Þess vegna fullyrði ég að það sem lengi hefur verið talið ásættanlegt að virkja megi af vatnsafli, að teknu tilliti til umhverfisþátta, sé minna í dag en það var fyrir tíu árum, jafnvel fyrir fimm árum. Þess vegna gagnrýni ég Orkustofnun fyrir að hanga eins og hundur á roði á þessum 50 teravattstundum. Það er ekkert fast í hendi með það, herra forseti, fyrr en við höfum séð niðurstöðu rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar um vatnsafl og jarðvarma. Þá gætum við kannski talað um hvað við ættum í alvöru eftir af ásættanlega virkjanlegu vatnsafli í landinu. Það hefur lengi verið talið, segir Orkustofnun, að það séu 30 teravattstundir. Ég fullyrði að svo sé ekki og ég hef fyrir því ýmis haldbær og gild rök.

Líka ber að minna á fullyrðingu Orkustofnunar í því plaggi sem fylgir frv. Það kemur algjörlega í ljós að hún byggir eingöngu á lauslegu mati stofnunarinnar en ekki á vísindalegri úttekt. Hin vísindalega úttekt fer nú fram á vettvangi verkefnisstjórnar rammaáætlunar og þeirri vinnu á að sjálfsögðu að gefa frið.

Þess vegna held ég því fram, herra forseti, að stefna stjórnvalda núna í stóriðjumálum hafi farið fram með þeim hætti að þjóðinni sé talin trú um að virkjanlegt vatnsafl á landinu sé meira en hægt verður að fallast á með nokkurri sanngirni út frá umhverfissjónarmiðum. Það kemur líka fram, herra forseti, í umsögn Orkustofnunar sem er að mörgu leyti mjög gagnrýnisvert plagg. Það er gagnrýnisvert, ég endurtek þau orð mín frá 1. umr. um þetta mál, að hæstv. iðnrh. skyldi ekki hafa séð sóma sinn í að láta fleiri plögg, annars konar plögg, fylgja þessu frv. sem hefði gefið okkur víðara sjónhorn á þessa hluti, ólíkari sjónarmið fleiri aðila. Í umsögninni segir Orkustofnun um raforkuþörf hins almenna markaðar að auk þeirra stóriðjuáforma sem nú virðast í pípunum eigi að setja í þessa tvo þætti, þ.e. stóriðjuáformin sem stjórnvöld virðast vera að pressa í gegn og stækkun almenna markaðarins, 22 teravattstundir, 22 af þeim 30 sem talið er að sé mögulega virkjanlegt vatnsafl í landinu.

[17:45]

Ég segi, herra forseti, að í ummælum Orkustofnunar kemur fram þvílík græðgi og þvílík frekja að enginn sómi er að. Stjórnvöld eiga að láta þær yfirlýsingar Orkustofnunar sér að kenningu verða og segja: Nei, hér er augljóslega ekki nægilega mikið vatnsafl til að fara út í allar þær stækkanir sem í pípunum eru. Við höfum ekki ráð á því að byggja 420 þús. tonna álver á Reyðarfirði, heimila stækkun Ísals í 460 þús. tonn, heimila stækkun á Norðuráli upp í 300 þús. tonn eða þaðan af meira. Og hvar stendur svo magnesíumverksmiðjan og hvar standa aðrar stóriðjuhugmyndir ríkisstjórnarinnar um orkufrekan iðnað?

Herra forseti. Við eigum ekki nægilegt vatnsafl í landinu til að standa undir stóriðjudraumum af þessum stærðargráðum, það er alveg ljóst. Það sýnir greinargerð Orkustofnunar sem fylgir frv.

Og það er nöturleg staðreynd, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli leggja fram frv. um þessa gífurlegu stækkun Kröfluvirkjunar og virkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun áður en rammaáætlunin hefur fengið að skila af sér verkefni sínu.

Ég vitna í umsögn minni til iðnn., herra forseti, til orða sem standa á heimasíðu rammaáætlunarinnar, en þar er vitnað í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun til aldamóta. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árið 2000. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður færðar að skipulagi. Í því sambandi verði sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana.``

Strax kom í ljós, herra forseti, að þetta verkefni var miklu umfangsmeira og tímafrekara en ríkisstjórnin hefði óskað sér. Í þeirri yfirlýsingu sem ég vitnaði til ætlaði ríkisstjórnin að láta verkefninu lokið á árinu 2000.

Ég held ég sé ekki að fara með fleipur, herra forseti, þegar ég segi að Norðmenn tóku a.m.k. 15 eða 16 ár í að búa til rammaáætlun sína og þeir skiluðu henni í áföngum. Þar voru vinnubrögð raunhæf og ríkisstjórn Íslands gat auðveldlega litið til Noregs eftir fyrirmynd með vinnubrögðin sem þar voru viðhöfð. Það eina sem við höfum heyrt frá ríkisstjórninni varðandi vinnubrögðin í Noregi er: Já, þeir voru nú svo illa settir þegar þeir loksins drusluðust til að gera sína rammaáætlun að þeir voru eiginlega búnir að virkja allt sitt mögulega virkjanlega vatnsafl þegar þeir ákváðu að gera rammáætlunina.

Ríkisstjórnin hefur stært sig af því að við séum að gera rammaáætlun á réttum tíma. En við erum ekki að gera hana á réttum hraða, herra forseti. Við erum að gera hana eins og rófuskertir refir og úr henni verður auðvitað ekkert annað en bastarður ef því verður haldið áfram.

Herra forseti. Haustið 1999 lá fyrir að líta þyrfti á rúmlega 60 mögulegar hugmyndir að vatnsaflsvirkjunum og um 30 hugmyndir að jarðvarmavirkjunum. Þetta eru 90 hugmyndir í heildina sem verkefnisstjórn rammaáætlunar var í upphafi ætlað að líta á. Áður en vinnan hófst gerði verkefnisstjórnin sér vonir um að af þeim hugmyndum yrði hægt að ljúka vinnu við u.þ.b. 25 hugmyndir sem kynntar yrðu haustið 2002. Þetta kom fram á fyrsta kynningarfundi verkefnisstjórnarinanr sem haldinn var í Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands haustið 1999, ef ég man rétt.

Þetta hefur auðvitað ekki gengið eftir, herra forseti, og nú er svo komið að hæstv. iðnrh. leggur hart að verkefnisstjórninni, eins og ég sagði áðan, um að skila einhvers konar tilraunamati. Hvað á þetta tilraunamat að fela í sér? Virkjanakostina á miðhálendinu.

Hvað gerir þetta nú, herra forseti, hvernig hæstv. iðnrh. pressar verkefnisstjórnina til að skila einhverju, bara einhverju? Þetta gerir ekkert annað en að rýra trúverðugleika verkefnisins, lætur fólkinu sem er að vinna þetta, sem eru margir okkar hæfustu vísindamanna, líða illa með vinnuna. Það er í tímapressu hvern einasta dag því að þetta er auðvitað vinna sem menn eru að vinna samhliða öðrum störfum. Það er ekki farsælt, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli koma svona fram og hæstv. ráðherra iðnaðarmála skuli koma svona fram við þetta hæfa fólk og sýnir í raun og veru ekkert annað en að hæstv. iðnrh. er sammála því og samþykk að þessu öfluga tæki, rammaáætlun, sé breytt í einhvers konar sýndarmennsku- eða málamyndaáætlun. Þetta er ekki boðlegt, herra forseti. Við eigum annað skilið, íslensk náttúra á annað skilið, þjóðin á annað skilið, Austfirðingar eiga annað skilið.

Herra forseti. Í umræðunni hefur verið getið um það að auðlindastefna sé ekki til staðar. Ég vil gera að umræðuefni í nokkrum orðum orð hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur sem talaði fyrir hönd Samfylkingarinnar í gær í umræðunum og gerði að umtalsefni auðlindapólitík. Það gerði hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir líka í fyrstu ræðu sinni um málið, ræðu sem haldin var 14. febrúar þegar 1. umr. um málið fór fram.

Í fyrri ræðu sinni gagnrýndi hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir stjórnvöld fyrir að koma fram með þetta mál, frv. til laga um virkjun Jökulsár á Dal, Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar, á þeim tíma þegar frv. til nýrra raforkulaga væri á leiðinni, væri nánast tilbúið og örfáir dagar í að það yrði lagt fram á Alþingi. Hv. þm. taldi að mun affarasælla hefði verið að afgreiða ný raforkulög fyrst áður en frv. sem hér um ræðir yrði afgreitt. Hún sagði í ræðu sinni þá, herra forseti, að þetta væru ekki boðleg vinnubrögð, að menn yrðu að gera hlutina í réttri röð. Síðar í ræðu sinni, herra forseti, kallaði hv. þm. Svanfríður Jónasdótttir á auðlindapólitíkina og vildi fá að vita samræmda stefnu ríkisstjórnarinnar í auðlindamálum áður en teknar væru ákvarðanir um það mál sem við erum að ræða hér.

En ég varð fyrir miklum vonbrigðum og lýsti því reyndar í andsvari við hv. þm. í gær hvernig mér fannst hún hafa bakkað út úr þeirri röksemdafærslu sem hún flutti við 1. umr. málsins. Ég verð að segja, herra forseti, að það veldur mér miklum vonbrigðum að meiri hluti Samfylkingarinnar skuli telja sig þurfa að styðja þetta stjórnarmál þegar mér hefði fundist það svo miklu eðlilegra af stórum stjórnarandstöðuflokki að hann sæti hjá, sérstaklega í ljósi orða hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur við 1. umr. þessa máls.

Í ræðu sinni í gær fjallaði hv. þm. um að Samfylkingin væri sátt við arðsemi verkefnisins út frá þeim veruleika sem við byggjum við núna. Mátti þá skilja af máli hv. þm. að úr því að ekki væri komið nýtt umhverfi í raforkuiðnaðinn, í raforkumálin, og úr því að við byggjum ekki við neina auðlindapólitík yrðum við víst bara að samþykkja þetta mál.

Herra forseti. Ég þarf kannski ekki að fara um það mörgum orðum, en mér hefði fundist meiri reisn yfir Samfylkingunni ef hún hefði getað sagt: Látum ríkisstjórnina þá halda áfram sínu striki, en við þurfum ekki að styðja hana. En það ætlar meiri hluti Samfylkingarinnar greinilega ekki að gera. Það eru einhverjar undantekningar í þingmannaliði flokksins, en mér sýnist obbinn af þingmönnunum ætla að styðja þetta. Ég endurtek hér vonbrigði mín með það álit þingmannanna.

Á hitt ber að líta að auðlindapólitík þarf auðvitað að vera mótuð. Í skýrslu auðlindanefndar sem gefin var út í september árið 2000 er gerð ítarleg grein fyrir þeirri skoðun nefndarinnar að móta beri stefnu varðandi auðlindarentu sem nýting vatnsafls í eigu þjóðarinnar skapar.

Ég vitna, herra forseti, í umsögn minni til iðnn. á bls. 55 og 56 í álitsgerð nefndarinnar en ég ætla að spara tímann og vera ekkert að vitna í þetta hér. Hv. þm. eiga allir þetta plagg og geta kynnt sér það sjálfir. En á bls. 55--61 í þeirri ágætu og gagnmerku bók er gerð grein fyrir því hvernig auðlindarentu yrði best háttað að mati nefndarinnar, auðlindarentu varðandi nýtingu vatnsafls, enda lítur nefndin svo á að orka fallvatnanna sé ein helsta auðlind þjóðarinnar.

Herra forseti. Ég gagnrýni það harðlega að þetta álit auðlindanefndar skuli ekki hafa verið tekið fyrir til sérstakrar umfjöllunar í tengslum við það frv. sem við nú ræðum. Með hvaða rökum leyfir ríkisstjórnin sér að sniðganga algerlega álit og hugmyndir auðlindanefndarinnar og leggja þetta mál fyrir eins og ríkisstjórnin hefur gert? Eigum við að búa við það, herra forseti, að stjórnskipuð, öflug nefnd skuli hafa ákveðnar skoðanir um auðlindapólitík og auðlindarentu af fallvötnunum en ekki einu sinni rætt í tengslum við umfjöllun málsins um Kárahnjúkavirkjun, ekki litið á það? Þetta eru vinnubrögð sem ég kalla slæleg, herra forseti. Það þýðir ekki að láta eins og þetta plagg sé ekki til. Það hafa allir þingmenn fengið og það vita allir þingmenn á Alþingi Íslendinga hvað í því stendur. Og það hefur aldrei neinn mótmælt því að sú skoðun auðlindanefndar sé þess virði að eftir henni sé mótuð stefna.

Hvað með tillöguna að stjórnarskrárákvæðinu sem er fólgin í tillögum auðlindanefndarinnar? Á ekkert að ræða hana hér á hv. Alþingi? Á ekki að nota tækifærið eftir að slík vinna hefur farið fram og móta auðlindastefnu? Eiga hv. alþm. ekki að fá tækifæri til að fjalla um auðlindastefnu, auðlindapólitík á þessu þingi, sama þingi og menn ætla að heimila hæstv. iðnrh. að leyfa stærstu og afdrifaríkustu herför gegn náttúru Íslands sem leyfð hefur verið? Herra forseti. Ég gagnrýni þau vinnubrögð harðlega. Þau eru engri ríkisstjórn til sóma, bara til skammar.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að ekki hefur verið lögð nein vinna í að meta verðgildi þess lands sem ljóst er að muni tapast og eyðileggjast við þær framkvæmdir sem við ætlum nú að heimila hæstv. iðnrh. að fara út í. Ég vitna aftur í plagg auðlindanefndar sem lýsir því á bls. 70 að til þess að ákvarða fjárhæð eða hlutfall auðlindaskatts sé nauðsynlegt að framkvæma yfirgripsmikið mat á þeim verðmætum sem um er að tefla, ekki síst umhverfisverðmætum, og eru nefndar í því sambandi tvær af aðferðum hagfræðinnar, herra forseti, sem hagfræðin hefur verið að þróa með ágætum árangri á seinni árum til að mæla slík verðmæti. Þær aðferðir eru nefndar í skýrslu auðlindanefndar og við höfum reyndar heyrt flutta lærða fyrirlestra um þær aðferðir, m.a. af hagfræðingum Þjóðhagsstofnunar sem hafa verið að kynna sér þessi mál sérstaklega og hafa flutt opinberlega fjölmörg erindi um þær.

Þær aðferðir sem getið er um, a.m.k. í skýrslu auðlindanefndar, eru annars vegar skilyrt verðmætamat, ,,contingent valuation`` á ensku, og hins vegar nokkuð sem kallað er ánægjuverð eða ,,hedonic prices``. Þessar aðferðir eru skilgreindar, ekki reyndar í hörgul, í skýrslu auðlindanefndar en þær eru nefndar og þeirra er getið sem ákjósanlegra aðferða til að meta verðgildi lands. Ekki er að sjá í niðurstöðum auðlindanefndarinnar okkar ágætu að bornar séu einhverjar brigður á þær aðferðir. Auðvitað er vitað að þær eru ekki öruggar um eitt eða neitt, en þó er vitað að þær eru bestu fáanlegu aðferðir til að meta verðgildi lands.

Það er eðlilegt að við fáum svör frá hæstv. iðnrh. um það hvers vegna sú ákvörðun virðist hafa verið tekin að verðgildi lands sé ekki skoðað í tengslum við þessar framkvæmdir. Hvers vegna er sú ákvörðun tekin þegar hún stríðir algerlega gegn áliti auðlindanefndar, meirihlutaáliti auðlindanefndar? Við verðum að fá svör við því, herra forseti, við krefjumst málefnalegrar umræðu um atriði á borð við þetta. Það þýðir ekki að mæta okkur með þegjandi þögninni með þetta atriði eins og önnur. Þessu verðum við að fá svarað. Meðgjöf af þessu tagi er meðgjöf sem við erum að taka úr vösum barnanna okkar og komandi kynslóða.

[18:00]

Ég fullyrði, herra forseti, að börnin okkar eiga eftir að hugsa okkur þegjandi þörfina ef við heimilum þetta án þess svo mikið sem að ræða um mögulegt afgjald fyrir auðlind þjóðarinnar í fallvötnuum uppi á hálendinu. Við ætlum ekki að ræða það. Það er skömm að því, herra forseti, að koma svona fram gagnvart náttúru landsins sem við höfum að láni frá börnunum okkar. Sannleikurinn er auðvitað sá að við höfum ekki fengið jörðina í arf eins og frægt máltæki getur um. Við höfum hana að láni frá börnunum okkar. Við erum ekki herrar jarðarinnar og verðum aldrei, herra forseti. Það væri óskandi að hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar færi að átta sig á því.

En af því ég var að fjalla hér, herra forseti, um atriði hagfræðinnar við að leggja mat á verðgildi lands vil ég ítreka það sem ég sagði í fyrstu ræðu minni við 1. umr. þessa máls. Það hefur farið fram könnun eða mat á hluta landsins norðan Vatnajökuls út frá þessum atriðum hagfræðinnar. Þar getur að líta í síðasta tölublaði Glettings, þess ágæta austfirska rits, en þar er bent á það að kona að nafni Nele Lienhoop, sem stundar nám í hagfræði við háskólann í Aberdeen í Skotlandi, hafi beitt aðferðum skilyrts verðmætamats á náttúruverðmæti þess svæðis sem tapast mundi við Hálslón. Í grein í þessu blaði kemur fram, herra forseti, að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að verðgildi þess lands sem fer undir vatn við Hálslón sé tæpar 400 millj. kr.

Herra forseti. Það hefur sem sagt farið fram skilyrt verðmætamat á því landsvæði sem fer undir Hálslón. Samkvæmt því mati hagfræðinnar og hagfræðingsins er verðgildi þessa lands 400 millj. kr. Ég ætla ekki að leggja mat á þessa upphæð en hún er nægilega há til að sannfæra mig um að hér sé um verulega verðmætt land að ræða út frá stöðlum og skilgreiningum hagfræðinnar. Af því að menn eru að tala um þjóðhagslega arðsemi, þjóðhagslegan hagnað, fyrst allt skal vegið á þeirri mælistiku, hvers vegna má þá ekki vega verðgildi landsins á þeirri mælistiku líka, þegar það er hægt? Hvaða börn erum við að binda fyrir augun og ætla ekki að meta verðgildi landsins? Ef við ætlum að meta hinn þjóðhagslega arð, herra forseti, yrði hann enginn ef við mundum meta verðgildi landsins. Það er auðvitað þess vegna sem ríkisstjórnin vill ekki meta verðgildi landsins, af því hagnaðurinn yrði þá enginn.

Það er ekki sá sómi að þessu, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli hafa tiltækustu tæki og vísbendingar um verðmæti landsins og ætli ekkert að gera með þau, ekkert að gera með þessar upplýsingar, lætur þetta sem vind um eyru þjóta.

Hv. þm. Framsfl. eru náttúrlega fjarri góðu gamni í þessum umræðum og þykjast trúlega ekki hafa neitt að læra af ræðu minni, ég læt það svo sem ekki á mig fá, en hv. þm. Framsfl. hefðu auðvitað mjög mikið gagn af því að lesa grein Nele Lienhoop í Glettingi til að kynna sér það sem þegar hefur verið gert varðandi mat á verðgildi landsins.

Ég ítreka, herra fosreti, að hún var bara að meta gildi lands sem færi undir Hálslón. Þá á algjörlega eftir að meta gildi lands sem færi undir önnur lón, skurði eða landið sem færi um Haugsvæðin, þar sem þarf að ganga frá öllum þeim milljónum rúmmetra af jarðvegi sem kæmi út úr öllum þeim tugum kílómetra af göngum sem þyrfti að grafa ef af þessari virkjun yrði.

Hér erum við að tala um lítið landsvæði, 57 ferkílómetra, miðað við allt það land sem verður fyrir áhrifum af framkvæmdunum. Þetta landsvæði, sem er lítið í þessu tilliti, 57 ferkílómetrar, yrði að verðgildi 400 millj. kr. á þessari mælistiku hagfræðinnar um skilyrt verðmætamat. En það ætlar ríkisstjórnin ekki að líta á.

Það er líka rétt að geta þess, herra forseti, að ákveðin greiningaraðferð hefur verið notuð og er notuð hjá siðuðum þjóðum, nágrannaþjóðum okkar, þegar framkvæmdir af þessu tagi eru vegnar og metnar. Sú greiningaraðferð heitir kostnaðar- og ábatagreining fyrir verkefnið. Kostnaðar- og ábatagreining fyrir þau verkefni sem Alþingi ætlar hér að heimila hæstv. iðnrh. að gefa heimild til hefur ekki farið fram.

Herra forseti. Við sitjum uppi með það að hæstv. umhvrh. mat það svo í úrskurði sínum að arðsemi og þjóðhagslegur ávinningur af verkefninu skyldi ekki heyra til mati á umhverfisáhrifum heldur skyldi hann metinn af leyfisveitendum og hún nefnir í úrskurði sínum alþingismenn í því sambandi. Nú er ljóst að slíkt mat hefur ekki farið fram og á ekki að fara fram. Með því að hæstv. umhvrh. skildi á milli umhverfismats annars vegar og arðsemis- eða hagkvæmnimats hins vegar þýðir bara að umhverfismatinu var snúið við, falleinkunn Skipulagsstofnunar snúið upp í einhverja meðgjöf sem hleypti málinu í gegn út frá umhverfissjónarmiðunum. Arðsemismatið á ekki að fara fram, ekki kostnaðar- og ábatagreining og ekki skilyrt verðmætamat, engum tækjum hagfræðinnar sem taka umhverfiskostnaðinn inn í á að beita á þetta verkefni. Það er alveg ljóst.

Herra forseti. Eitt af því sem við þurfum auðvitað að skoða og horfa til langs tíma með er orkunýting og orkusparnaður. Það er ekki eins og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi ekki gert sér grein fyrir því. Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er boðað átak til orkusparnaðar. Ríkisstjórnin boðaði þetta í framkvæmdaáætlun sinni um sjálfbæra þróun til aldamóta. Hún kom þeirri áætlun frá sér og samþykkti ef ég man rétt 1997. Mér þykir rétt, herra forseti, að benda á að á umhverfisþingi sem var haldið í janúar 2001 lagði umhvrh. fram ný og endurnýjuð drög að áframhaldandi stefnumörkun fyrir sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Það leiðinlega gerist hins vegar að hugmyndir um orkusparnaðaráætlun, sem voru í fyrri samþykkt ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun, virðast týnast í nýjum drögum um sjálfbæra. Í nýju drögunum sem fólk getur kynnt sér á heimasíðu umhvrn. er ekkert fjallað um orkusparnaðinn sem þó var inni í eldri áætlun.

Herra forseti. Þetta er enn eitt atriðið sem lýsir vel stefnu ríkjandi ríkisstjórnar, orkugræðgistefnu. Já, herra forseti, það er ágætt að hæstv. forseti skuli reyna að leggja á minnið orð og hugtök sem má nota um hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Það eru að vísu kannski ekki uppáhaldshugtökin, ekki hin jákvæðustu og ekki hin fáguðustu. Ég mundi ekki vilja láta segja það um mig að ég keyrði fram orkugræðgistefnu. En hæstv. ríkisstjórn virðist gera það því orkusparnaðurinn sem var í áætluninni um sjálfbæra þróun til ársins 2000 er ekki lengur þar. Það er eðlilegt að í þessu sambandi sé það gagnrýnt.

Það má líka gagnrýna að ekki hefur miðað nægilega vel hjá hæstv. umhvrh. í að fullmóta þau drög sem lögð voru fram í janúar 2001 og ég hef nú lagt fram, herra forseti, á sérstöku þingskjali fyrirspurn til hæstv. umhvrh. um hvenær við megum eiga von á að fá þessa stefnumörkun og hvernig aðkomu frjálsra félagasamtaka og almennings að henni hafi verið háttað. Það er alveg ljóst að við getum ekki búið við að fá tveggja ára gat í stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun, sérstaklega ekki þegar ríkisstjórnin er búin að lofa og prísa áætlun um sjálfbær Norðurlönd og þykist aðili að henni. Þá er ekki hægt annað en við búum til okkar eigin stefnu í þeim málum.

En í drögunum eru ekki neinar hugmyndir um átak til orusparnaðar sem fjallað var um í eldri stefnumörkun. Það er líka ljóst á þessum drögum að hagsmunir og sjónarmið orkuvinnslufyrirtækja eru það sem á að vera leiðarljós ríkisstjórnarinnar í umhverfismálunum á nýrri öld, en ekki sjónarmið náttúruverndar. Þetta er auðvitað einkennandi fyrir alla meðferð og umfjöllun þess máls sem við nú ræðum, virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Þá er ekki hægt, herra forseti, annað en að fara nokkrum orðum um platmatið, þ.e. framhaldsmatið sem hæstv. umhvrh. efndi til þegar ljóst var að Skipulagsstofnun gaf þessum virkjanahugmyndum falleinkunn út frá umhverfissjónarmiðum. Hæstv. umhvrh. tók þetta allt inn á sitt borð og á eigin forræði bjó ráðherrann til framhaldsmat. Ég hef gagnrýnt það og tel það ekki samrýmast lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Ég tel það ekki geta samrýmst þeim lögum að ráðherrann skuli hafa fjallað efnislega um umhverfisþætti þessa máls eftir að 122 aðilar höfðu kært úrskurð Skipulagsstofnunar til ráðherra. Ég tel öll efni hafa staðið til þess að umhvrh. hefði, sérstaklega í ljósi viðbótargagna sem bárust inn á hennar borð, átt að vísa málinu aftur inn í hinn lögboðna feril, umhverfismat.

Sannleikurinn er sá, herra forseti, að þegar málið var í vinnslu --- nú er ég að segja frá því sem umhvn. hefur fengið vitneskju um í ferli málsins --- var alveg ljóst að Landsvirkjun var vel kunnugt um það þegar hún lagði endanlega fram sín gögn vegna matsskýrslu á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar að hún hafði ekki nægilega mikið af gögnum. Hún var ekki með gögn um mótvægisaðgerðir vegna áfoks og rofs. Það var alveg ljóst, herra forseti, að Landsvirkjun tók sénsinn og þrýsti á Skipulagsstofnun með að auglýsa matsskýrsluna án þess að Landsvirkjun væri búin að leggja fram þau gögn sem Skipulagsstofnun gerði kröfu um. Það var þess vegna eðlileg niðurstaða hjá Skipulagsstofnun að gera það að máli í úrskurði sínum að ekki hefðu legið fyrir nægileg gögn til þess að meta til hlítar umhverfisáhrif mótvægisaðgerðanna. Skipulagsstofnun hefur staðið við þessi orð sín. Í bréfi til umhvrn. sem skrifað var á þeim tíma sem málið var á borðum umhvrh. í þessu framhaldsmatsferli hefur komið í ljós svo óyggjandi sé að Landsvirkjun vissi allan tímann að hún mætti búast við að málinu yrði hafnað á þeirri forsendu að ekki lægju næg gögn fyrir.

Hvað gerist þegar niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú sem hún er, falleinkunnin? Þá drífur Landsvirkjun sinn vaska her í að útbúa gögnin. Það er hönnuð gífurleg mótvægisaðgerð gegn foki og rofi, mótvægisaðgerð sem að mínu mati og margra annarra hefði auðvitað þurft að lúta sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum. Þessi viðbótargögn ásamt með fjölda annarra gagna auglýsir hæstv. umhvrh. með einhverjum tilbúnum fresti sem hæstv. umhvrh. sjálf ákvað hversu langur skyldi vera. Á þennan hátt framlengdi umhvrh. matsferilinn sem hefði að sjálfsögðu átt að fara aftur til þeirra stofnana sem venjulega véla með þessi mál og Landsvirkjun hefði auðvitað átt að búa til nýja skýrslu þegar í ljós var komið og opinbert orðið að ekki höfðu verið lögð fram öll þau gögn sem Skipulagsstofnun hafði gert ráð fyrir að yrðu þarna lögð fram.

Ég gagnrýni það, herra forseti, að umhvrh. skyldi hafa tekið málið inn á sitt borð með þessum hætti. Mér finnst stórfurðulegt að mat umhverfisráðherrans skyldi vera á þennan hátt. Ég hef sömuleiðis gagnrýnt að hæstv. ráðherrann skuli byggja það á áliti eins lögfræðings, Eiríks Tómassonar, sem veitti umhvrn. leiðsögn í þessu máli. Ég hefði talið fullt efni til að þarna kæmu að fleiri lögfræðingar og aðrir aðilar að málinu. Það voru skiptar skoðanir um hvort þetta væri heimilt. Ég hefði talið ástæðu til að þetta mál hefði verið skoðað til hlítar.

Ég hef haldið því fram áður, herra forseti, og kemur engum á óvart, að úrskurður hæstv. umhvrh. væri pólitískur úrskurður en ekki málefnalegur. Ég tel, herra forseti, að hann gangi gegn markmiðum alþjóðasamninga og tilskipana þeirra sem lög um mat á umhverfisáhrifum byggja á, það hef ég röstutt í löngu máli og ætla ekki að endurtaka þann rökstuðning.

[18:15]

Þegar við skoðum í heildina þau áhrif sem þessi virkjun getur haft á náttúru Íslands þá eru þau auðvitað geigvænleg. Það kemur fram í umsögn minni til iðnn. að aðilar eins og Náttúruvernd ríkisins og Landvernd og SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, hafa allir bent á þá gífurlegu umhverfisröskun sem af mun hljótast og vara við því að af þessum framkvæmdum verði nú látið verða.

Árni Bragason, forstöðumaður Náttúruverndar ríkisins, kom á fund umhvrn., herra forseti, og í máli hans kom fram ákveðin gagnrýni á að iðnrh. skuli ekki hafa sett inn í frv. að framkvæmdaraðila væri skylt að fara eftir þeim niðurstöðum sem hæstv. umhvrh. komst þó að í sínum úrskurði. Það er einmitt eitt sem ég hef gagnrýnt hér, herra forseti, og verður ekkert of oft sagt, að það er auðvitað með ólíkindum hversu opið þetta frv. er. Það er ekki skilyrt á einn eða neinn hátt. Framkvæmdaraðila virðist ekki vera gert skylt að fara eftir niðurstöðum eða skilyrðum umhvrh. Það er ekki skrýtið þó Náttúruvernd ríkisins gagnrýni það.

Þá má sömuleiðis nefna að Náttúruvernd ríkisins gagnrýnir ummæli í greinargerð Orkustofnunar sem fyrr er getið um að erfitt sé að meta Kárahnjúkavirkjun inn í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Náttúruvernd ríkisins telur fullkomlega eðlilegt að Kárahnjúkavirkjun verði metin með öðrum virkjanakostum í rammaáætluninni og ég lýsi því yfir, herra forseti, að ég er hjartanlega sammála því áliti Náttúruverndar ríkisins.

Það kemur líka fram í áliti Náttúruverndar ríkisins að hún varar við öllum hugmyndum um sambúð friðlanda og virkjana á svæðinu norðan Vatnajökuls. Ég held að Náttúruvernd ríkisins sé nú þegar búin að segja það sem segja þarf um málamiðlunarhugmynd Samfylkingarinnar um virkjanaþjóðgarð. Hann er greinilega ekki að skapi Náttúruverndar ríkisins. Svo mikið er hægt að lesa út úr umsögn Náttúruverndarinnar sem barst hv. iðnn.

Herra forseti. Þá ætla ég að fara nokkrum orðum um þátt Kröfluvirkjunar í þessu máli. Það er eðlilegt að það sé gagnrýnt að stækkunin á Kröfluvirkjun skuli vera hnýtt inn í þetta frv. Gagnrýnisraddirnar byggjast fyrst og fremst á því að stækkun sú hefur ekki farið í mat á umhverfisáhrifum. Það er auðvitað sagt í greininni eins og hún er orðuð, þ.e. 2. gr. frv. sem, með leyfi forseta, hljóðar svo:

,,Iðnaðarráðherra er heimilt að veita Landsvirkjun leyfi til að stækka Kröfluvirkjun í allt að 220 MW ásamt aðalorkuveitum, enda liggi fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.``

Þetta er alveg eðlilega orðað og reynt hefur verið að friðþægja okkur með því að auðvitað verði ekki veitt heimild fyrir virkjuninni nema að undangengnu mati á umhverfisáhrifum. En hvað eigum við að gera, herra forseti, ef þessi stækkunarhugmynd fær falleinkunn hjá Skipulagsstofnun? Eigum við þá bara að fá hæstv. umhvrh. til þess að snúa þeim úrskurði við eins og hún var fengin til að snúa við úrskurðinum um Kárahnjúkavirkjun?

Herra forseti. Það hefur skapast ákveðin hefð um veitingu virkjunarleyfa, um heimildarákvæði af þessu tagi til handa hæstv. iðnrh. Sú hefð hefur núna á seinustu árum, eftir að lög um mat á umhverfisáhrifum tóku gildi, verið sú að heimildanna er ekki leitað fyrr en mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram. Því er alveg ljóst að hér er verið að fara gegn hefðinni með 2. gr. í frv. Ég hefði talið alveg eðlilegt að hæstv. iðnrh. hefði beðið með heimild sína til að veita framkvæmdaleyfi við Kröflu þangað til ljóst hefði verið hvernig niðurstaða mats á umhverfisáhrifum hefði orðið.

En óðagotið er svo mikið, herra forseti, og það er svo mikil þörf á að búa til gulrótina fyrir stóriðjuframleiðendurna í útlöndum, það skiptir svo miklu máli fyrir hæstv. ráðherra að hafa það í hendi að hún hafi heimildina, að hún geti veifað heimild Alþingis, heimild sem Alþingi veitir henni til þess að virkja hvort heldur er Kárahnjúkana, Kröflu eða Bjarnarflag og allt heila galleríið að hún verður að fá það til þess að gulrótin sé nógu feit og nógu stór.

Herra forseti. En ég sé ekki að Alþingi hafi neina ástæðu til þess að fita þessa gulrót hæstv. ráðherra umfram efni. Rýr og mögur gulrót hefði mín vegna mátt dingla á þessari spýtu, en 220 MW stöð í Kröflu hefði ekki þurft að hanga á henni að svo komnu máli. (Gripið fram í.) Já, fara út úr fjórðungnum. Ég veit nú að hæstv. forseti, hv. 1. þm. Norðurl. e., er kannski uggandi yfir því að allt það afl sem fá má úr Kröflu skuli svo enda á Austfjörðum. (Gripið fram í: Ja, ég hygg að hann sé bara á móti því.) Já, það kann að vera að hv. þm. Jón Bjarnason hafi rétt fyrir sér, að hv. þm. Halldór Blöndal sé bara á móti því. En við komumst ekki að því í þessari ræðu. Það bíður ræðu hv. þm. og hæstv. forseta.

Herra forseti. Það er alveg ljóst og kemur fram í umsögn Náttúruverndar ríkisins, Landverndar og SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, að Kröfluvirkjun hefði átt að bíða umhverfismats og síðan hefði þá mátt samþykkja heimildarlög fyrir því ef það hefði verið vilji manna á þeim tíma.

Þeir aðilar sem ég nú nefndi hafa bent á að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum megi ekki gefa út leyfi fyrir framkvæmd fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Þess er einnig getið í umsögnum þessara aðila að um Kröfluvirkjun beri að fjalla á vettvangi rammaáætlunar um nýtingu vatnafls og jarðvarma og ég tek í einlægni undir það, herra forseti. Það er algjörlega ólíðandi að allir þessir virkjanakostir skuli eiga að hverfa undan umfjöllunarsviði verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar. Það sýnir enn einu sinni að hæstv. ríkisstjórn hefur aldrei verið nein alvara með vinnunni við rammaáætlun.

Í umsögn Náttúruverndarsamtaka Austurlands er gerð krafa um það, herra forseti, að mótvægisaðgerðirnar vegna áfoksins við Hálslón og Kárahnjúkavegur skuli sæta sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum, enda sé hér um að ræða viðamiklar framkvæmdir sem hafi ekki verið metnar á sama hátt og aðrir þættir sem tengjast framkvæmdum Kárahnjúkavirkjunar. Þetta er auðvitað réttmæt krafa, herra forseti, því vegur á borð við Kárahnjúkaveg, sem er uppbyggður vegur með ræsum og öllu tilheyrandi, á lögum samkvæmt að sæta mati. En núna er hann hlekkjaður við framkvæmd um Kárahnjúkavirkjun og þar með telur umhvrh. að ekki skuli setja þennan veg í sérstakt mat. Þetta er algerlega óásættanlegt.

Það er líka óásættanlegt, herra forseti, að vegurinn sem á að liggja austur á hraun sé látinn enda í ósnortnu víðerni hraunanna samkvæmt úrskurði umhvrh. og enginn veit hvernig á að ganga frá honum eða hvernig hann verður lagður eða hvernig hann kemur til með að líta út þegar á heildina er litið.

Herra forseti. Það er skammarlegt að svona margar framkvæmdir sem ættu hver um sig að lúta sérstöku mati skuli vera spyrtar saman og hengdar á þessa einu spýtu, Kárahnjúkavirkjun sem er eðli málsins samkvæmt ekkert annað en landshlutaáætlun. Landshlutaáætlun af þessu tagi ætti að lúta sérstöku mati á umhverfisáhrifum. Ef við værum svo heppin að vera komin með lög um umhverfismat skipulagsáætlana þá hefði auðvitað ekki verið hægt að fara þá leið sem nú er verið að fara með Kárahnjúkavirkjun. Það hefði orðið að meta Kárahnjúkavirkjun sem landshlutaáætlun sem hefði áhrif á gífurlega stóru landsvæði og hún hefði aldrei farið í mat sem einstök framkvæmd, aldrei. En í þessu tilliti er ríkisstjórnin að svindla og fara fjallabaksleið að málunum. Ríkisstjórnin gerir það sama og hún gerir varðandi raforkulögin. Hún svindlar þessu máli fram hjá raforkulögunum sem við komum til með að samþykkja núna alveg á næstunni, en bara áður en þau verða samþykkt. Áður en það umhverfi verður orðið að ómögulegt verði að það verði arðbært að virkja fyrir stóriðju þá skulum við gefa svona rosalega mikið með Kárahnjúkavirkjun og þessu stóra, stóra Noral-verkefni til þess eins að það þurfi ekki að stoppa á einhverjum formsatriðum sem væntanleg lög koma til með að setja því. Nákvæmlega hið sama á við um umhverfismat skipulagsáætlana. Ef við værum komin með það lagaumhverfi sem þær setja okkur mundi þessi áætlun vera metin á allt annan hátt en hér er verið að gera. Á þetta benda Náttúruverndarsamtök Austurlands og hafa sannarlega rétt fyrir sér í þeim efnum.

Herra forseti. Ég gæti líka haft hérna nokkur orð um álit Landverndar sem barst iðnn. Í því áliti var tekið undir með Náttúruvernd ríkisins, SUNN og Náttúruverndarsamtökum Austurlands um þá umhverfisþætti sem ég hef rakið að framan og lúta að stækkun Kröfluvirkjunar. Að öðru leyti fjallar umsögn Landverndar um jarðminjar, áfok og endurheimt gróðurs, hönnun virkunarinnar, virkjunarleyfi og efnahagsmálin. Hún hefur að geyma þarfar áminningar til þingmanna sem undirstrika mitt álit, þ.e. það álit að með áformum um Kárahnjúkavirkjun og álver á Austurlandi séu stjórnvöld að tjalda til einnar nætur og séu að láta undir höfuð leggjast að líta til langs tíma.

Herra forseti. Á vegum Landverndar hefur farið fram mjög öflug rýni fjölmargra sérfræðinga í matsskýrslur Landsvirkjunar og Reyðaráls sumarið 2001 og það voru haldnar ótal málstofur í þeim efnum. Afraksturinn hefur reyndar verið gefinn út í skýrslu sem fylgdi umsögninni til þingnefndanna og niðurstaða þeirrar skoðunar, herra forseti, var sú að umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar væru umtalsverð og óafturkræf og lögð var áhersla á það í mati sérfræðinganna sem Landvernd fékk til þess að rýna í skýrsluna að niðurstaða Skipulagsstofnunar væri fullkomlega eðlileg og í samræmi við mat þeirra sérfræðinga, óháðra sérfræðinga sem komu að málinu eftir að matsskýrsla Landsvirkjunar var gefin út. Þeir óháðu sérfræðingar sem litu yfir skýrslu Landsvirkjunar á sínum tíma sumarið 2001 gáfu henni margir, allir sem Landvernd kallaði til, svipaða einkunn og jafnvel verri einkun en Skipulagsstofnun gaf, en sambærilega að því leytinu til að menn töldu að ekkert réttlætti það að fara út í þessar gífurlegu framkvæmdir og allra síst hinn meinti þjóðhagslegi ávinningur.

Í umsögnum frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands hefur verið getið um ákveðna hættu af áhrifum flóða í Jökulsá á Dal, m.a. vegna jökulhlaupa, sem tengjast hugmynd hæstv. umhvrh. sem kom fram í skilyrðum hennar þar sem hún breytir fyrirkomulagi á yfirfalli úr Hálslóni. Það sem um er að ræða hér, herra forseti, er að það er allsendis óljóst hvernig þetta breytta yfirfall verður vegna þess að sú hönnun og það mat sem á þá hönnun var lagt var bara gert hjá umhvrh. Það er ekki búið að skila nægilegri vinnu eða láta skoða það vísindalega nægilega vel til þess að vitum hvort sú breyting gengur upp, t.d. með tilliti til jökulhlaupa eða flóða í Jökulsá á Dal.

Herra forseti. Það er líka hægt að nefna það að samkvæmt skilyrðum umhvrh. er stöðu stíflunnar breytt og enn höfum við ekki fengið að sjá neinar yfirlitsteikningar, ekki neinar tölvuteikningar með þeirri breyttu útfærslu þannig að þær teikningar sem hafa verið aðgengilegar almenningi, þingmönnum og öllum þeim sem vilja kynna sér þessi mál, miða við allt aðra staðsetningu eða útfærslu stíflunnar en verður eftir að úrskurður umhvrh. var felldur. Þetta er m.a. einn af þeim þáttum sem ég hef gagnrýnt, þ.e. að hæstv. umhvrn. skuli geta tekið svona mál inn á sín borð og vélað um þau þar án þess að farið sé eftir forskrift laga um mat á umhverfisáhrifum.

Ég veit að Skipulagsstofnun hefði aldrei hleypt í gegn útfærslu sem ekki var kynnt í þrívíðum teikningum á risastórri jarðvegsstíflu sem er 190 m há og ég man ekki hversu margar milljónir rúmmetra af jarðvegi eiga að fara í hana.

Náttúruverndarsamtök Austurlands vekja líka athygli á því að ekki hafi verið gefnar neinar skýringar á misvísandi upplýsingum um virkjað rennsli í fyrri áfanga Kárahnjúkavirkjunar. Í athugasemdum með frv. sem hér er um fjallað á bls. 8 kemur fram að í fyrri áfanga verði virkjað 120 rúmmetra rennsli á sekúndu. En í matsskýrslu Landsvirkjunar á bls. 4 og reyndar víðar í skýrslunni er gert ráð fyrir að í fyrri áfanga verði virkjað 90 rúmmetra rennsli á sekúndu. Landvernd tekur reyndar undir þetta í umsögn sinni. Því er nú algjört tilefni til að spyrja hæstv. iðnrh., sem ég treysti að sé í húsinu, herra forseti, hverju sæti. Af hverju eru svona misvísandi tölur í þessu frv. um hið virkjaða rennsli?

[18:30]

Þetta er ekki eina dæmið um misvísandi tölur. Á ótal stöðum er ónákvæmt sagt frá og sums staðar eru hreinlega villur. Þannig get ég tekið sem dæmi að á bls. 22 í greinargerðinni er sagt að stefnt sé að því að fyrri áfangi álversins með 260 þús. tonna framleiðslugetu á ári taki til starfa á árinu 2008 en það vita allir sem hafa kynnt sér þessi gögn að auðvitað er átt við 2006. Ég gæti tínt til fleiri dæmi um það hversu hroðvirknislega málið allt er unnið þar sem númer á fylgiskjölum eru vitlaus, t.d. á bls. 12, og vitlaus ártöl, jafnvel vitlausar gígavattstundir. Svo er óþolandi hversu misvísandi fjallað er um stærð álversins. Á bls. 3, í byrjun greinargerðarinnar, er sagt um álverið að það eigi að vera 240--280 þús. tonn í fyrri áfanga en 360--420 þús. tonn í seinni áfanga. Ég veit ekki betur en Reyðarál hafi lofað því að þessum ruglingi yrði eytt um leið og matsskýrslan á álverinu var kynnt. Þeir lofuðu þeim sem voru að fylgjast með og vildu fylgjast með málinu að þessar misvísandi tölur yrðu ekki notaðar, það yrði ævinlega talað um 280 og 420 þús. tonn. En, herra forseti, á þessu hefur orðið virkilegur misbrestur og hæstv. ráðherra eða hennar menn í ráðuneytinu hafa fallið í þá gryfju að rugla fólk í ríminu með misvísandi tölum í frv. á fleiri en einum stað. Ég get sannarlega tekið undir þá gagnrýni sem ég var að gera grein fyrir og hefur komið fram hér frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands og Landvernd hvað varðar þessa misvísun.

Þá, herra forseti, er ég komin að máli sem mér er afar kært og ég hef reynt að fjalla hér um á viti borinn hátt, a.m.k. af einhverju því litla viti sem mér er unnt eftir að hafa kynnt mér málið nokkuð vel. Það varðar sjálfbærni Kárahnjúkavirkjunar. Ég hef haldið því fram í ræðum mínum hér, herra forseti, og ég ætla að ítreka það enn einu sinni að Kárahnjúkavirkjun er ekki sjálfbær.

Nú treysti ég því, herra forseti, að hæstv. ráðherra sé í húsinu og vildi gjarnan að hv. þm. Hjálmar Árnason, ef hann væri í húsinu líka ...

(Forseti (HBl): Hvorugur þessara hv. þm. er í húsinu.)

Herra forseti. Það veldur mér sárum vonbrigðum að heyra að hæstv. ráðherra skuli hafa yfirgefið okkur því (Gripið fram í: ... sækja ...) að ég var að tala í trausti þess að hæstv. ráðherra væri hér til að taka niður þær spurningar sem ég hef ítrekað lagt fyrir hana. Það er auðvitað eðlilegt að við krefjumst þess að hæstv. ráðherra sé til staðar til þess að málefnaleg umræða getið farið fram við hæstv. ráðherra um þetta viðamikla mál.

(Forseti (HBl): Ég skal gera ráðstafanir til þess að hæstv. iðnrh., Valgerði Sverrisdóttur, og formanni iðnn., hv. þm. Hjálmari Árnasyni, sé gert viðvart um að þeirra sé óskað í salinn.)

Já, ég þakka, hæstv. forseti.

Ég ætla svo sem ekki að láta þetta stoppa mig í ræðunni, er komin að þeim kafla þar sem mig langaði til að fjalla um sjálfbærni Kárahnjúkavirkjunar sem ég tel ekki vera til staðar.

Nú eru mál með vexti þannig, herra forseti, að Sameinuðu þjóðirnar skipuðu fyrir nokkuð mörgum árum stóra og mikla nefnd sem kalla má alþjóðlega nefnd um stíflur. Á enskri tungu kallaðist þessi nefnd World Commission on Dams. Hún skilaði af sér árið 2000 minnir mig, frekar en árið 2001, risastórri skýrslu sem fjallar um stíflur, bæði stíflur sem gerðar eru í áveitutilgangi og líka stíflur sem gerðar eru í þeim tilgangi að virkja fallvötn til orkuframleiðslu. Sannleikurinn er sá, herra forseti, að árið 2000 höfðu yfir 45 þús. stórar stíflur verið byggðar í heiminum og þær hafa gerbreytt stjórnun á vatnsauðlindum og orkugjöfum jarðarinnar. En á sama tíma og þessar risastóru stíflur hafa verið reistar er svo langt í frá að menn hafi verið á einu máli um ágæti þeirra, og hafa samfélagsleg áhrif þessara stóru stíflna oft og tíðum valdið miklum deilum og átökum. Það er algjört forgangsmál til framtíðar að unnt verði að skilgreina hlutverk stíflna hvað varðar eftirspurn á vatni og orku, og þetta lýsir afar vel hversu mikilvægt það er að leiða jafnflókin álitamál til lykta svo þær standi þjóðfélögum ekki fyrir þrifum.

Skýrsla alþjóðanefndarinnar um stíflur, sem er til á bókasafni Alþingis, herra forseti, er afrakstur þess sem kalla má ,,hnattrænt átak`` sem á sér enga hliðstæðu. Þetta átak var hugsað sem tæki til að leiða saman stjórnvöld, fulltrúa einkageirans og frjáls félagasamtök. Skýrsla þessi kemur fram með fyrstu heildstæðu, sjálfstæðu úttektina á áhrifum stíflna og hún lýsir nýju skipulagi, nýjum hugmyndum í þróun vatns- og orkugjafa. Hún kemur fram með aðgerðaáætlun með sjö forgangsmálum og skilyrðum sem nýta má í stefnumótun til framtíðar en nefndin hafnar í skýrslunni viðteknum hugmyndum um ágæti risastíflna.

Og, herra forseti, ég hvet hv. alþm. til að kynna sér efni skýrslunnar sem reiðir fram beinharðar, heildstæðar, hlutlægar upplýsingar sem hafa ber til hliðsjónar fyrir þjóðir heims þegar þær standa frammi fyrir spurningum á borð við: Hvers vegna hyggjum við á byggingu stíflna? Hvernig á byggingu þeirra að vera háttað? Hvers konar áhrif koma þessar byggingar, þessar stíflur, til með að hafa á samfélag manna, plantna og dýra, hvort sem það er til góðs eða ills?

(Forseti (HBl): Hv. þm., formaður iðnn., er upptekinn af persónulegum ástæðum en hæstv. iðnrh. er í beinni útsendingu.) (Gripið fram í: Í sjónvarpinu.)

Herra forseti. Það er auðvitað ekki hægt að sætta sig alveg við það að þingmönnum sé ekki sýnd meiri virðing en svo þegar um hjartans mál fólks er að ræða og það gerir allt sem hægt er til að undirbúa sig vel og eiga hér góðan málefnalegan orðastað við þá sem með völdin fara. Það er ekki hægt, herra forseti, að koma svona fram við okkur. Hæstv. forseti veit ósköp vel að ég sagðist mundu sakna hæstv. ráðherra úr salnum í gær þegar hún átti leið norður til Akureyrar, og hæstv. forseti sýndi mér mikla tillitssemi og frestaði umræðunni þar til hæstv. ráðherra væri komin í salinn. Eins og allt fór í gær komst ég ekki að með ræðu mína. Hæstv. ráðherra hefur þess vegna ekki heyrt nema brot af henni, smábyrjun, og mér þykir mjög miður að hæstv. ráðherra skuli ekki sýna mér meiri tillitssemi en svo að hún skuli hverfa úr salnum þegar hún veit að ég hafði óskað eftir því sérstaklega í gær að hún yrði hér til að hlýða á mál mitt og svara fyrirspurnum.

(Forseti (HBl): Er það ósk hv. þm. að fresta ræðu sinni?)

Já, herra forseti, ég held að ég þiggi það. Það er úr mér allur máttur. Mér finnst erfitt að tala um þetta mál eins og ég sagði áðan, herra forseti, vegna yfirlýsinga hæstv. ráðherra. Ég er að reyna að skoða það í því nýja ljósi og þess vegna hefði ég talið enn meiri ástæðu fyrir hæstv. ráðherra að vera hér til staðar og svara þá þeim spurningum sem ég hef fyrir hana lagt.

(Forseti (HBl): Hv. þm. gerir hlé á ræðu sinni og er umræðu frestað.)