Umhverfisstofnun

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:11:15 (6551)

2002-03-25 15:11:15# 127. lþ. 104.1 fundur 427#B Umhverfisstofnun# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Umhvrh. kynnti á blaðamannafundi sl. föstudag væntanlega stofnun umhverfisstofnunar sem hún kallaði öflugt stjórntæki í umhverfismálum og sem hún sagði að skapaði hvorki meira né minna en nýja vídd í málaflokkinn. Þegar fréttir af þessum blaðamannafundi eru skoðaðar kemur í ljós að margt fleira hangir á spýtunni annað en að sameina stofnanir á borð við Náttúruvernd ríkisins, Hollustuvernd ríkisins, embætti veiðistjóra, hreindýraráð og dýraverndunarráð. Þannig kemur það fram í máli ráðherrans í fréttum að þessu fylgi ákveðin óvissa varðandi störf á rannsóknarstofu Hollustuverndar og það kemur líka fram að þá sé möguleiki að slík störf geti sameinast einhverju sem hæstv. ráðherra kallar matvælastofu. Sömuleiðis segir ráðherrann að komið geti til að fleiri stofnanir sem tengjast umhverfismálum verði sameinaðar umhverfisstofnun síðar meir. Þetta er sem sagt ekkert smámál, herra forseti.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hvað er hæstv. ráðherra að kokka og hversu heilleg mynd er komin á þau áform? Það lítur út fyrir að hér sjáist í hornið á risastórum áformum sem umbylta stjórnkerfi málaflokksins, og þá tel ég þingmenn, starfsmenn viðkomandi stofnana og þjóðina eiga rétt á að fá að vita meira um það sem býr að baki. Hvar eru þessi áform stödd? Hver er afstaða forstöðumanna stofnananna eða starfsmanna þeirra? T.d. vakti það athygli að forstöðumenn stofnananna voru ekki með hæstv. ráðherra á téðum blaðamannafundi. Að lokum: Kann að vera að þetta sé einhver hluti af krossferð hæstv. umhvrh. til að þagga niður í óþekkum stofnunum sem innan málaflokksins starfa? Hver minnist ekki slagsmála hæstv. ráðherra við Náttúruverndarráð eða skammanna sem Náttúruvernd ríkisins þurfti að þola fyrir hálfum mánuði úr þessum ræðustól vegna samdráttar í landvörslu?

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að spyrja ráðherrann: Er ekki tilefni til að vinna þetta mál á heildstæðan hátt og kynna það fyrir þingmönnum og kannski hv. umhvn. sem sýslar með málaflokkinn áður en einhverju ferli verður komið af stað sem enginn veit hvar ætlað er að endi?