Umhverfisstofnun

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:16:55 (6554)

2002-03-25 15:16:55# 127. lþ. 104.1 fundur 427#B Umhverfisstofnun# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef hv. þm. dauðsér eftir að hafa samþykkt að leggja niður Náttúruverndarráð en með þeim hætti er hægt að nýta fé skattborgaranna miklu betur fyrir náttúruverndarmál í landinu og það sáu allir þingmenn. Þess vegna var það mál samþykkt.

Hvað varðar stofnanir sem gætu heyrt undir þessa nýju stofnun, þá erum við ekki með nein áform um að setja frekari stofnanir undir hana. Við viljum hins vegar skoða aðrar stofnanir og erum að gera það. Við erum t.d. að skoða byggingarmálaþáttinn og áætlum að færa hann frá Skipulagsstofnun yfir til Brunamálastofnunar og þá yrði það Byggingar- og brunamálastofnun. Þetta er til skoðunar.

Við viljum líka skoða Veðurstofuna og t.d. Náttúrufræðistofnun Íslands. Þetta eru allt mál sem við erum að skoða til framtíðar og ekki er hægt að segja á þessari stundu hvernig því lyktar.

Varðandi rannsóknarstofuna, þá er hún í óvissu vegna þess að þessi nýja umhverfisstofnun er stjórnsýslustofnun og við teljum ekki eðlilegt að hafa rannsóknarþáttinn þar undir þannig að við munum halda þessari nýju stofnun þar utan við. Til greina kemur að setja hana í framtíðinni undir matvælastofu sem ég vona að við náum að stofna annað hvort á þessu kjörtímabili eða því næsta.