Umhverfisstofnun

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:19:26 (6556)

2002-03-25 15:19:26# 127. lþ. 104.1 fundur 427#B Umhverfisstofnun# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Þessi málflutningur sýnir þá stefnu Vinstri grænna að vera á móti öllu, líka að vera á móti því að stofna nýja umhverfisstofnun sem forstöðumennirnir eru jákvæðir gagnvart, meginhluti starfsmanna er jákvæður gagnvart. Ég hélt líka fund með umhverfisverndarsamtökum og Neytendasamtökunum og ég fann ekki betur en menn væru tiltölulega sáttir þar. Einn fulltrúi sagði meira að segja: Þetta var löngu tímabært. Ég skil ekkert í að fulltrúi Vinstri grænna sé að agnúast út í þetta. Ég er sannfærð um að þegar fulltrúi Vinstri grænna hefur áttað sig betur á málinu og skoðað það og kannski heyrt í forstöðumönnum og starfsmönnum þessara stofnana, ég skal ekki segja, þá hljóti viðkomandi að sjá að hérna er um sóknarfæri í umhverfismálum að ræða. En síðan er staðið hér upp og allt rifið niður.

Þetta er fráleitur málflutningur. Þeir sem koma að þessu máli eru jákvæðir og sjá sóknarfæri í því. Forstöðumenn viðkomandi stofnana, í staðinn fyrir að vera sjálfhverfir og líta í eigin nafla, styðja þetta mál af því að þeir sjá sóknarfærin. Það finnst mér mjög virðingarvert. Þeir vilja allt gera fyrir þennan málaflokk og það vil ég líka.