Úthald hafrannsóknaskipa

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:24:38 (6559)

2002-03-25 15:24:38# 127. lþ. 104.1 fundur 428#B úthald hafrannsóknaskipa# (óundirbúin fsp.), GAK
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:24]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þóttist vita það fyrir fram að ráðherrann hefði áhuga á þeim málum og mundi vilja takast á við þau. Hins vegar komu ekki mjög skýr svör um hvort t.d. á þessu ári væri hægt að auka úthald rannsóknaskipanna umfram það sem ráðgert hefur verið. Ég tel það lélega nýtingu að halda skipinu aðeins úti í 220--240 daga.

Ég vil einnig spyrja í sambandi við lög sem við samþykktum fyrr á þessu þingi um að ákveðinn hluti aflaverðmætis skyldi renna til Hafrannsóknastofnunar, svokölluð 5%-regla, hvort ekki væru farnir að koma nokkrir fjármunir þar úr og hvort ekki mætti m.a. horfa til þeirra fjármuna til að fara í þau verðugu verkefni sem ég hef drepið á og ráðherrann hefur einnig minnst á að væri eðlilegt að takast á við. Einnig er þekkt fyrirbæri í þinginu sem heitir aukafjárlög.