Merkingar á lambakjöti til útflutnings

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:28:52 (6562)

2002-03-25 15:28:52# 127. lþ. 104.1 fundur 429#B merkingar á lambakjöti til útflutnings# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. að ég lít það grafalvarlegum augum ef íslensk fyrirtæki sem eiga að þekkja leikreglurnar bregðast í markaðssetningu og fara ekki að þeim kröfum og skilyrðum sem þeim ber. Það er harmur út af fyrir sig en um leið reynsla. Yfirlýsingar koma núna frá sláturleyfishöfum og útflytjendum sem hafa lent í þessu. Það eru ekki allir sem betur fer. Ég sé að Sláturfélag Suðurlands hefur staðist þetta próf. En þeir lýsa því yfir að þeir muni að reglunum fara og taka sig á. Því vil ég trúa. Þeirra er þetta verkefni fyrir hönd bændanna og þeir mega auðvitað ekki bregðast í því. Ekki er nóg að hafa góða vöru í höndunum. Menn verða að hafa vilja til þess að markaðssetja og merkja hana og gera hana þannig úr garði að það standist þær ströngu reglur sem gilda um útflutning. Yfirdýralæknisembættið hefur átt fundi með þeim mönnum og farið yfir stöðuna.

Segja má að bændurnir og afurðastöðvafyrirkomulagið hafi orðið fyrir miklu áfalli. Þetta Goðaslys hefur haft sínar afleiðingar og menn verða auðvitað að læra af því.

Ég trúi því að menn þurfi að beita oddi sínum fast og halda stöðu sinni bæði á innlendum markaði og sinna af kostgæfni þeim mörkuðum sem bæði finnast í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar er mjög hátt verð á íslensku dilkakjöti. Það er því mjög nauðsynlegt nú að taka harkalega í hnakkadrambið á aðilum sem svona hafa brugðist og gera þeim grein fyrir að það er skömm að því að fara ekki að reglunum. Það verða þeir að gera.