Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:53:48 (6570)

2002-03-25 15:53:48# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:53]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin, en vil spyrja að einu í tengslum við 65 millj. kr., varðandi einkaframkvæmdina: Verður þetta styrkur til framkvæmda sem nú þegar er lokið eða er þetta eingöngu ætlað fyrir sveitarfélagið Hafnarfjörð í fjögur ár, að 65 millj. verði 260 millj.? Ég veit ekki um neitt annað sveitarfélag, frekar en hæstv. ráðherra, sem farið hefur í grunnskólabyggingar með þessari aðferð.

Síðan er annað sem mér finnst mjög skrýtið, af því að ef einhver ætlar að byggja slíkt húsnæði er ekki hægt annað en að færa þetta í eignaleigusamning, samanber skilyrðin sem sett eru hér í frv. Með leyfi forseta er rétt að lesa hér upp fimmta skilyrðið fyrir slíkum eignaleigusamningi:

,,Ef hin leigða eign er sérhæfð þannig að aðeins leigutakinn geti notað hana án meiri háttar breytinga.``

Það er þannig þegar einhver fær sér leigt húsnæði að það einmitt gert sérstaklega fyrir hann, eða hvað? Ég get ekki séð annað en að það sé ekki hægt að komast hjá því að allir samningar verði túlkaðir sem eignaleigusamningar.

Ég spyr: Eru þessar 65 millj. fyrir framkvæmdir sem eiga sér stað á árunum 2002, 2003, 2004 og 2005 en ekki aftur í tímann?

Hins vegar finnst mér, varðandi eignaleigusamning og hins vegar leigusamning, að það sé ekki nokkur leið, samkvæmt þeim fimm atriðum sem hérna eru, önnur en að túlka það svo að um eignaleigusamning sé að ræða.