Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:56:54 (6572)

2002-03-25 15:56:54# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Okkur er sagt að megintilgangur þessa frv. sé að tryggja að unnt verði að ljúka átaki til einsetningar grunnskólans. Okkur er jafnframt sagt að frv. muni ekki hafa í för með sér útgjöld eða aukin útgjöld ríkissjóðs, hér sé fyrst og fremst um að ræða millifærslur á fjármunum, enda kemur fram að í frv. sé lagt til að hluta af árlegu framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Lánasjóðs sveitarfélaga á árunum 2002--2005 verði varið til að styrkja stofnframkvæmdir við grunnskólabyggingar. En samkvæmt frv. skal verja til þess verkefnis 600 millj. kr. á árabilinu 2002--2005.

Það sem ég staðnæmdist við í þessu frv. er tilvísun til einkaframkvæmda. Í 1. gr. frv. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ráðstöfunarfé skv. 1. mgr. skal varið til að greiða allt að 20% af viðmiðunarkostnaði við grunnskólabyggingar í sveitarfélögum með 2.000 íbúa og yfir, í samræmi við viðmið og reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eins og þær eru hverju sinni. Þar af skal að jafnaði verja 65 millj. kr. á ári til stofnframkvæmda við grunnskóla sem fjármagnaðar eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd, enda sé um að ræða framkvæmdir sem falla undir ákvæði 1. mgr. og uppfylla að öðru leyti skilyrði til úthlutunar samkvæmt þessari grein.``

Síðan segir í athugasemdum með frv. að gert sé ráð fyrir að sömu skilyrði gildi um ráðstöfun þeirra fjármuna sem fjallað er um í frv., þ.e. að þeim verði varið til að styrkja stofnframkvæmdir við grunnskólabyggingar í sveitarfélögum með yfir 2.000 íbúa, eins og kemur reyndar fram í tilvitnaðri lagagrein. En síðan kemur enn fremur fram, í grg. með frv., að Jöfnunarsjóðinn hafi skort lagaheimild til að styrkja einkaframkvæmdina. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Tilefni ákvæðis 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. frv. er að sveitarfélög hafa í auknum mæli ákveðið að fara leið einkaframkvæmdar við fjármögnun opinberra framkvæmda, þar á meðal til skólabygginga, en Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur ekki talið sig hafa skýra lagaheimild til að styrkja stofnframkvæmdir sem fjármagnaðar eru á þennan hátt. Byggist sú afstaða einkum á því að samningar um einkaframkvæmd gera oft og tíðum ekki ráð fyrir að viðkomandi sveitarfélag eignist skólabyggingarnar að samningstíma liðnum, en einnig hefur verið bent á að kostnaður við slíka samninga fellur á viðkomandi sveitarfélag á löngum tíma. Ættu því hugsanlega önnur sjónarmið að gilda um styrkveitingar til þessara sveitarfélaga. Þar sem einkaframkvæmdarleiðin leysir engu að síður þau vandamál sem sveitarfélög standa frammi fyrir varðandi einsetningu grunnskólans þykir þó eðlilegt að sveitarfélög sem velja þessa leið njóti styrkja úr Jöfnunarsjóði vegna stofnframlaga grunnskóla, eins og önnur sveitarfélög.``

Tilvitnun lýkur hér í athugasemdir með frv.

[16:00]

Með öðrum orðum hefur þótt skorta lagaheimild til að veita fé til einkaframkvæmdar. En í athugasemdunum segir að eðlilegt þyki að sveitarfélög sem kjósa að fjármagna skólabyggingar með samningum um einkaframkvæmd sitji við sama borð og önnur sveitarfélög varðandi styrkveitingar.

Ég ætla að leyfa mér að spyrja hvort það sé að öllu leyti eðlilegt, hvort ekki sé hægt að gera þá kröfu til þeirra sem ráðstafa opinberum fjármunum að farið sé með þá af ýtrustu ráðdeild. Mín skoðun er sú --- og ég styð hana fjölda dæma erlendis frá og hérlendis --- að peningum er ekki skynsamlega ráðstafað með einkaframkvæmdinni. Við höfum dæmin um Sóltúnssamninginn á sínum tíma sem reynist skattborgaranum miklu dýrari en fjármögnum stofnana sem reknar eru á öðrum grunni en einkaframkvæmd eða með arðsemissjónarmiðum. Ástæðan fyrir því að einkaframkvæmdin er dýrari er í fyrsta lagi að fjármagnið reynist dýrara þegar einkaaðili tekur það en það er þegar ríki eða sveitarfélög fá peninginn í sínar hendur, fá lánsfjármagnið. Síðan er náttúrlega hin meginástæðan, að í einkaframkvæmd eða í hlutafélögum krefjast eigendur að sjálfsögðu arðs af fjármagni sínu. Og það veldur því að þetta fyrirkomulag er miklu kostnaðarsamara.

Í úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði á sínum tíma á Sóltúnssamningnum var það sagt berum orðum að eðlilegt væri að reikna með að þetta væri dýrara form sökum þess að eigendur færu fram á arðsemi af fjárfestingu sinni. Við höfum fjölmörg önnur dæmi hér í einkaframkvæmdinni. Ég man ekki hvaða stofnanir eru t.d. sambýlingar Íbúðalánasjóðs --- þó líklega Lánasjóður íslenskra námsmanna og Fasteignamat ríkisins --- Íbúðalánasjóður eða Húsnæðisstofnun ríkisins átti sitt húsnæði á sínum tíma. Það var selt og síðan gerðist stofnunin leigjandi hjá einkafyrirtæki og eftir því sem mér sýnist af því að hafa skoðað það mál er það miklu óhagkvæmara og dýrara fyrirkomulag heldur en ef stofnunin hefði einfaldlega átt húsnæði sitt áfram.

Hér sjáum við Landssímahúsið út um glugga Alþingishússins. Landssíminn átti þetta hús þar til nýlega en borgar núna 1% af söluandvirðinu í mánuði hverjum til nýrra eigenda sem að sjálfsögðu réðust í þessi kaup til að hafa af því góðan arð.

Herra forseti. Ég vil spyrja hvort það sé að öllu leyti eðlilegt að þeir sitji við sama borð sem fara þessa leið og hinir sem sýna meiri skynsemi og ráðdeildarsemi með peninga.

Nú má segja sem svo að það sé komið undir hverju sveitarfélagi fyrir sig hvaða pólitísku leið það velur að fara en er það ekki ríkisvaldsins og löggjafans að setja einhverjar skynsamlegar leikreglur hvað þetta snertir?

Mér finnst nokkuð óhugnanlegt að skoða mörg þeirra frv. sem eru að líta dagsins ljós, og er verið að dreifa á borð þingmanna þessa dagana, þar sem verið er að opna á þessa einkavæðingar- og einkaframkvæmdarhugsun. Hér hefur þegar farið fram 1. umr. um lagafrv. sem heimilar sveitarfélögum að gera vatnsveitur að hlutafélögum, að gera Gvendarbrunnana að hlutafélagi, sem allir sjá að er fyrsta skrefið til að einkavæða veiturnar. Við þekkjum önnur frv., frumvarp um orkuveitur er annað dæmi þar sem opnað er á einkavæðingu.

Síðan kemur sú réttlætiskrafa, sem ríkisstjórnin er að setja fram, að ekki megi mismuna sveitarfélögum eftir því hvaða leið þau fara í fjárfestingum og hvort þau velja þessa einkavæðingarleið, þessa dýrari leið, í fjármögnun á almannaþjónustunni. Mér þætti vænt um, herra forseti, að hæstv. félmrh. skýrði þetta ögn fyrir okkur og hvaða sjónarmið hann hefur hvað þetta snertir. Ég hef grun um að hann sé ekki alltaf ýkja hrifinn af einkavæðingunni. Þegar litið er til pólitískrar sögu hans og ferils hefur hann ekki beint verið talsmaður þeirra sjónarmiða. En ég vil heyra álit hans á þeim atriðum sem ég hef vakið máls á.