Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 16:16:08 (6574)

2002-03-25 16:16:08# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[16:16]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem gefur í raun tilefni til býsna margþættrar umræðu um fjármál sveitarfélaga og tekjustofna þeirra. Hér er þó fyrst og fremst verið að takast á við það stóra verkefni sveitarfélaga að einsetja grunnskólann, þ.e. þeirra sveitarfélaga sem eru með 2.000 íbúa og yfir. En sannarlega gefur málið tilefni til víðtækari umræðu vegna þess að auðvitað er það svo, herra forseti, að ekki síst nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga hafa menn rætt og munu ræða býsna mikið um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.

Ekki er langt síðan birtur var listi yfir stöðu sveitarfélaganna og í ljós kom að býsna mörg þeirra eiga í vanda, fjárhagsvanda. Tekjur hafa ekki dugað fyrir þeim skuldbindingum og ákvörðunum sem teknar hafa verið um framkvæmdir eða þjónustu í viðkomandi sveitarfélagi. Mörg sveitarfélaganna búa svo auk þess við þann vanda, herra forseti, að íbúum er að fækka þannig að enn erfiðara verður að standa við skuldbindingar þar sem sífellt færri standa undir tekjunum. Og það er alveg ljóst að í meðalstóru sveitarfélögunum, þar sem er að fækka, á sveitarstjórnin ekki auðvelt með að bregðast við þegar tekjur dragast saman með því að draga jafnframt saman þjónustu. Vandinn er sá að það er búið að fjárfesta og efna til þjónustunnar. Í allt of mörgum tilfellum er staðan einfaldlega þannig að sveitarfélagið situr uppi með fjárhagslegar skuldbindingar sínar og rekstrarlegar skuldbindingar sínar gagnvart íbúunum og má sig hvergi hreyfa, en fjárhagsstaðan versnar sífellt.

Herra forseti. Þetta er auðvitað stór vandi sem hefur nokkrum sinnum verið tekinn til umfjöllunar hér í þinginu, þó ekki markvisst, en kannski einna helst í tengslum við umfjöllun um orkumál svo merkilegt sem það má nú teljast.

Eins og ég sagði þá er hér fyrst og fremst verið að fjalla um mál sem snýr að einsetningu grunnskólans í sveitarfélögum sem eru með yfir 2.000 íbúa. Það er alveg ljóst, herra forseti, að þegar farið var af stað árið 1995 með breytingu á grunnskólalögum, farið var af stað í að einsetja grunnskólana vissu menn þegar að þeir voru með býsna stórt verkefni í höndunum. Menn töldu á þeim tíma að um væri að ræða verkefni sem kostaði svona u.þ.b. 13 milljarða. Nú er komið í ljós að verkefnið mun að líkindum kosta u.þ.b. 21 milljarð kr.

Á tímabilinu hefur verið farið í að gefa sveitarfélögunum færi á að fresta framkvæmdum og hér er verið að auka fjármuni til styrktar þessum verkefnum. En mig langar til þess að spyrja hæstv. félmrh. hvort honum finnist ekki ástæða til þess að horfa aðeins á þetta bil, þetta fjárhagsbil sem er á milli þeirra áætlana sem menn höfðu þegar ráðist var í verkefnið upphaflega, upp á rétt um 13 milljarða, og þeirrar staðreyndar sem menn horfa framan í núna, þ.e. 21 milljarð. Þetta bil er býsna stórt, herra forseti, og er ugglaust hluti af fjárhagsvanda margra sveitarfélaga. Væri ekki eðlilegt í ljósi þess að fara í betri skoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og því hvernig skipt er á milli ríkis og sveitarfélaga?

Ég er í hópi þeirra sem telja að það væri einhver markvissasta byggðastefna sem hægt væri að fara í að styrkja sveitarfélögin, stækka þau, færa þeim fleiri verkefni og þar með leggja grundvöll að fjölþættari starfsemi á forræði þeirra. Við vitum það frá þeim sveitarfélögum sem hafa verið með reynsluverkefni að þau telja að reynsluverkefnin, þ.e. fleiri verkefni, hafi fært þeim möguleika á að skipuleggja starfið með allt öðrum hætti, gefið þeim möguleika á að ráða betur menntað fólk og þar með fjölga menntuðu og hæfu starfsliði á sínum skrifstofum og í sinni stjórnsýslu sem allt skili sér síðan í betri þjónustu og á sumum sviðum ódýrari.

Auðvitað hljótum við að horfa til þessa, herra forseti. En einnig væri áhugavert að ræða við hæstv. félmrh. hver viðhorf hans séu til þeirra reynsluverkefna sem hafa verið í gangi og nú er verið að gera eða hafa verið gerðir samningar um framhald á, kannski fyrst og fremst í heilbrigðisþjónustunni og í málefnum fatlaðra, og hvort þessi verkefni gefi ekki tilefni til þess að menn fari í markvissar verkaskiptingarbreytingar á milli ríkis og sveitarfélaga þannig að sveitarfélögin taki við þessum verkefnum alfarið en ekki bara sem sérstökum verkefnum eða reynsluverkefnum.

Ég geri mér alveg grein fyrir því, og þá er ég aftur komin að því sem ég nefndi áðan, að mörg sveitarfélögin eru auðvitað allt of lítil og illa í stakk búin til að taka við þessum verkefnum. Þess vegna hlýtur það að vera liður í þessari viðleitni að stækka sveitarfélögin. Það hefur enda byggðanefnd Sambands sveitarfélaga verið að ræða og Samband sveitarfélaga hefur, samkvæmt þeim tillögum sem þar hafa legið fyrir og unnið er með, lýst sig tilbúið að leggjast á árina með ríkisvaldinu og löggjafanum til að breyta lagaumhverfinu þannig að sveitarfélögin verði stærri og öflugri. Þar hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að það hlyti að vera veigamikill þáttur í því að efla landsbyggðina, veigamikill þáttur í jákvæðri byggðastefnu.

Herra forseti. Þegar þetta frv. kom fyrst á borð okkar þingmanna fannst mér áhugavert að fá frekari upplýsingar um það sem hér að baki liggur. Ég var þess vegna búin að leggja inn fyrirspurn, og gerði það strax, til hæstv. menntmrh., fyrirspurn sem ekki hefur verið svarað enn. En kannski kann hæstv. félmrh. eitthvað af svörunum við henni. Ég hafði áhuga á því í fyrsta lagi, herra forseti, að fá að vita hvaða sveitarfélög hafa farið fram á frestun á einsetningu grunnskólans. Í fyrsta lagi þurfti auðvitað að fresta til ársins 2004. En ljóst er að það mun ekki duga öllum sveitarfélögum. Í öðru lagi fannst mér líka áhugavert að vita hvaða sveitarfélög hafa farið leið einkafjármögnunar til að uppfylla lagaskylduna um einsetningu grunnskólans.

Hluti af þessu frv. er nefnilega að það á að styrkja þau sveitarfélög sem hafa kosið að fara leið einkafjármögnunar við byggingu grunnskóla. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvernig eigi að framkvæma það. Eiga þessi sveitarfélög að fá styrki til að greiða leigu af þessu húsnæði eða hvernig eiga þessir peningar að nýtast sveitarfélögum sem hafa kosið að fjárfesta ekki sjálf, sem hafa kosið að verja fjármunum sínum ekki hér og nú til þessara verkefna heldur hafa kosið að leigja húsnæði undir þessa starfsemi? Einkafjármögnun er auðvitað ekkert annað en það að annar aðili á og rekur húseignina og grunnskólinn leigir síðan þetta húsnæði af viðkomandi. Hvernig sjá menn fyrir sér að þessi styrkur til sveitarfélaga sem hafa farið út í einkafjármögnun, skili sér? Hvernig á að verja honum? Mér fyndist áhugavert að heyra hvernig hefur verið rætt um það mál og hvernig hæstv. félmrh. sér það fyrir sér.

Herra forseti. Eins og ég sagði þá er þetta mál angi af öðru og miklu stærra máli sem væri full ástæða til þess að ræða nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, máli sem snýr að verkefnum sveitarfélaganna, stöðu þeirra og möguleikum til þess að takast á við verkefnin. Það væri líka eðlilegt, herra forseti, að við ræddum svolítið sýn okkar á það hvernig eða hvaða hlutverki við viljum láta sveitarfélögin gegna í næstu framtíð. Ég vænti þess að hæstv. félmrh., annaðhvort hér á eftir eða í lokaræðu sinni við þessa umræðu, komi inn á reynsluna af reynslusveitarfélögunum og hvernig hann sér fyrir sér að það þróist í næstu framtíð.

Hvað varðar síðan grunnskólann þá er alveg ljóst að orðið hefur bylting í skólum landsins í kjölfar þess að sveitarfélögin tóku grunnskólann yfir. Ekki einasta hafa velflest sveitarfélög sem þurftu að takast á við það verkefni lagt út í vandaðar byggingar sem uppfylla allar helstu kröfur nútímaskólahalds heldur hefur líka verið gengið til þess tímabæra verks að semja þannig við kennara að þeir segja, alla vega sumir hverjir, að nú séu loksins kannski forsendur fyrir því að menn velji sér, bæði karlar og konur, kennslu sem fullt starf. Við sjáum að mjög víða eru menn að brydda upp á metnaðarfullum nýjungum í skólastarfi. Nú nýverið fór í gang markviss umræða um það, loksins, hvernig hægt væri að stytta tímann til stúdentsprófs úr þessum hefðbundnu 14 árum sem hafa verið og niður í kannski 13 ár þannig að íslenskir skólanemar lykju framhaldsskólaprófum að jafnaði við 19 ára aldur en ekki um tvítugt eins og að jafnaði hefur verið reiknað með.

Sú breyting sem menn hafa helst verið að horfa til byggir á því að grunnskólinn takist á við enn frekari breytingar í starfsemi sinni. Það er út af fyrir sig eðlilegt að menn horfi til grunnskólans. Hann hefur sýnt sig að vera mjög sveigjanlegur og geta tekist á við breytingar. Í þessu tilfelli er verið að tala um að grunnskólinn taki við yngri nemendum, hvort sem það nám fari fram á leikskólum eða innan vébanda grunnskólans. En alla vega er talað um að skipulagt grunnskólanám hefjist fyrr og sömuleiðis að breyta námi í elstu bekkjum grunnskólans til þess að gera það einfaldara að stytta nám í framhaldsskóla. Allt eru þetta verkefni sem menn hljóta að ræða og eru að ræða í skólaumræðunni, bæði í skólunum og í stjórnkerfinu.

Herra forseti. Það væri ekki síst áhugavert að fá þessa spurningu sem ég hafði varpað fram til hæstv. menntmrh. um sveitarfélögin inn í þessa umræðu, sömuleiðis bilið á milli 21 milljarðs og 13 milljarða. Þarna er um að ræða heila 8 milljarða, þ.e. sem skeikar frá upprunalegum áætlunum og að því sem menn sjá fyrir í dag hvað átak til einsetningar muni kosta. Finnst hæstv. félmrh. ekki ástæða til þess að skoða enn frekari breytta tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að mæta í raun þessum halla sem klárlega er þarna miðað við það sem menn lögðu af stað með og reiknað var með í upphafi verksins.

Síðan er það leigustyrkurinn, herra forseti, til þeirra sveitarfélaga sem hafa sett verkefnið í einkaframkvæmd. Fróðlegt væri að heyra hæstv. ráðherra reifa það mál enn frekar.