Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 17:02:59 (6578)

2002-03-25 17:02:59# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[17:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það hefur nú teygst meira úr þessari umræðu en ég bjóst við þegar hún hófst.

Ég verð að byrja á að lýsa því yfir að ég sneiði hjá því að svara spurningum sem ég tel að hefði átt að beina til hæstv. menntmhrh. (Gripið fram í: Hvar er hann?) Ég ber ábyrgð á þessu máli þannig að ég tel að það sé eðlilegt að þingmenn beini undir einhverjum öðrum dagskrárlið spurningum til hans um fagleg efni eins og einsetningu grunnskólans og þvílíkt. (Gripið fram í.) Það eru aðskilin ráðuneyti og ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald.

Ég vil taka það fram að Lánasjóður sveitarfélaga er mjög sterkur. Hann hefur peninga og þar af leiðir að það hnekkir ekki getu hans þó að framlög til hans séu skert sem þessu nemur sem í frv. felst.

Meginefni þessa frv. er að aðstoða sveitarfélögin við einsetninguna, þau þeirra sem ekki eru búin nú þegar að einsetja. Eins og menn vita stendur þessi aðstoð til boða sveitarfélögum með færri íbúa en 2.000, en nú er verið að jafna aðstöðu sveitarfélaganna þannig að þau sveitarfélög sem eru með fleiri en 2.000 íbúa njóti sömu fyrirgreiðslu til einsetningarinnar og minni sveitarfélögin. Þetta er annar þáttur frv.

Í öðru lagi er verið að búa til lagaheimild í þessu frv. til þess að aðstoða sveitarfélög líka sem hafa kosið, þ.e. sem hefur kosið, því ekki er nema um eitt að ræða, að gera rekstrarleigusamning um grunnskóla. Samband ísl. sveitarfélaga óskaði eftir því að sama yrði látið yfir öll sveitarfélög ganga. Ég tel að í óbreyttum lögum sé alls ekki heimild til þess að greiða Hafnarfirði vegna Áslandsskóla og Lækjarskóla, alls ekki, og ráðgjafarnefnd um Jöfnunarsjóð var á sama máli. En Samband ísl. sveitarfélaga, og raunar ráðgjafarnefndin, taldi eðlilegt að jafnræðis væri gætt þannig að Hafnarfjörður, þó að hann kysi að haga málum svo sem gert er þar, sæti við sama borð og önnur sveitarfélög sem annaðhvort hafa byggt sjálf eða gert eignaleigusamninga.

Það er misskilningur hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að Hafnarfjörður falli undir eitthvert af þessum fimm skilyrðum sem talin eru upp þarna. Svo er ekki. Ef ekkert þessara skilyrða er uppfyllt er um að ræða rekstrarleigusamning. Skilyrðin eiga nefnilega öll við eignaleigusamning, þ.e. ef eitthvert af þeim getur passað við kringumstæðurnar þá er um eignaleigusamning að ræða. En ekkert þessara skilyrða á við Hafnarfjörð. Ef ekkert þessara skilyrða er uppfyllt er um að ræða rekstrarleigusamning sem ekki er venjan að eignfæra í reikningsskilum sveitarfélaga. Leigugreiðslurnar eru því færðar til gjalda á viðkomandi lið í ársreikningi sveitarfélagsins, t.d. á fræðslumál ef um leigu og rekstur á skóla er að ræða.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að að óbreyttum lögum sé Lánasjóði sveitarfélaga óheimilt að greiða framlag til Hafnarfjarðar eins og þar er í pottinn búið vegna þess að þetta er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, en þarna væri svona óbeint verið að greiða sveitarfélaginu með öðrum hætti.

Mér kemur út af fyrir sig afstaða hv. þingmanna ekkert á óvart og ég hef áður heyrt hv. 13. þm. Reykv., Ögmund Jónasson, flytja þessa ræðu um skaðsemi einkaframkvæmda. Ég er enginn sérstakur einkaframkvæmdamaður. Ég get alveg viðurkennt það. En ég tel að einkaframkvæmd geti komið til greina, að hún sé réttlætanleg í ákveðnum tilvikum.

Ég nefni Reykjavíkurborg sem er nú stjórnað af fólki sem ég held að við styðjum sem höfum verið hér mest í umræðunni í dag. Ég undanskil hv. þm. Gunnar Birgisson (Gripið fram í: Hann styður það líka?) Ja, ég undanskil hv. þm. Ég held að hinir líti með velvild til stjórnenda Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg gerði rekstrarleigusamning um byggingu íþróttahallar í Grafarvogi. Eftir því sem ég veit best þá eignast Reykjavíkurborg ekki þessa höll að samningstíma liðnum. Reykjavíkurborg taldi skynsamlegt að gera þennan samning þrátt fyrir það, þó að hún eignaðist ekki mannvirkið. Væntanlega væri þetta mannvirki annars ekki risið uppi í Grafarvogi, þ.e. það er komin mynd á húsið. Það er ekki frágengið en það er komin mynd á húsið og það kemst fyrr í notkun en ef Reykjavíkurborg hefði ætlað að byggja það fyrir eigin reikning, þá efast ég um að búið væri að taka grunninn. Þetta getur verið réttlæting í sjálfu sér til þess að koma mannvirki í notkun.

Hér var minnst á Íbúðalánasjóð og að Íbúðalánasjóður skuli vera kominn í leiguhúsnæði. Þegar Íbúðalánasjóður færði sig og seldi eign á Suðurlandsbraut sem hann átti þá var ég fullvissaður um að vextirnir af söluandvirðinu gerðu betur en að standa undir leigunni sem greidd er í Borgartúninu. Nú þori ég ekki að fullyrða hver reynslan er af þessu. En þetta var mér tjáð á þeirri tíð. Reyndar hefur Íbúðalánasjóður verið að þrengja að sér þarna í þessu húsnæði og leigja út frá sér.

Hér kom fram í umræðunni að illa grundaðir útreikningar hefðu legið til grundvallar þegar grunnskólinn var færður frá ríki til sveitarfélaga. Þetta er ekki rétt nema þá að þeir hafi verið illa grundaðir af ríkisins hálfu, því samkvæmt útreikningum hagdeildar Sambands ísl. sveitarfélaga fengu sveitarfélögin fyrstu þrjú árin meira frá ríkinu en kostaði að reka grunnskólann. Hins vegar skekktist dæmið þegar kjarasamningar voru gerðir við kennara, þ.e. þeir urðu hærri og dýrari fyrir sveitarfélögin en gert var ráð fyrir í samningum ríkis og sveitarfélaga, þ.e. samningamenn sem að yfirfærslunni stóðu gerðu sér ekki grein fyrir því að kjarasamningur kennara yrði svo kostnaðarsamur fyrir sveitarfélögin sem raun ber vitni.

Það er reyndar íhugunarefni að kjarasamningar sveitarfélaganna eru yfirleitt verulega rýmilegri en samningar ríkisins. Í sumum tilfellum munar verulegum fjárhæðum. Til dæmis má taka samninga Akureyrarbæjar af því að hér var verið að tala um reynslusveitarfélagaverkefnið. Samningar þeir sem ríkið hefur gert við ófaglærða starfsmenn og gefa í kringum 100 þús. eru upp á 120 þús. eða þar yfir hjá Akureyrarbæ, þ.e. samningar Akureyrarbæjar við Alþýðusamband Norðurlands.

Um reynslusveitarfélagaverkefnið er óhætt að segja að reynslusveitarfélögin hafa undantekningarlítið staðið sig vel við framkvæmdina. Hins vegar hafa reynslusveitarfélagaverkefnin í sumum tilfellum orðið dýrari en þar sem ríkið er með verkefnin.

Líka er rétt að hafa í huga að sveitarfélögin hafa byggt skólahúsnæði langt fram úr þeim normum sem menntmrn. viðurkennir. Samningarnir voru upphaflega þannig að ríkið legði 400 millj. á ári til þess að greiða fyrir einsetningu grunnskólans í sveitarfélögum þar sem íbúar væru fleiri en 2.000 og upphæðin mátti nema allt að 20% af normkostnaði.

Nú hefur reynslan orðið sú að þessi upphæð hefur ekki dugað nema fyrir kannski 12--14% af raunkostnaði bygginganna, enda var þar um fasta upphæð að ræða sem að vísu hefur tekið verðlagsbreytingum. En sveitarfélögin hafa byggt verulega fram úr þeim normum sem menntmrn. viðurkennir.

[17:15]

Það er eðlilegt að sveitarfélögin ráði sjálf hvernig þau borga starfsmönnum sínum og það er þeirra val hvaða samninga þau gera við þá. Það er gott ef þau hafa efni á að gera vel við sitt fólk en það er ekki hægt að senda ríkinu reikninginn fyrir það.

Hitt er annað mál, og það stendur út af í samskiptum ríkis og sveitarfélaga út af grunnskólanum, að sveitarfélögin telja sig hafa orðið fyrir auknum kostnaði vegna breyttrar námskrár, vegna fjölgunar skóladaga og þess háttar atriða sem sveitarfélögunum var gert með reglugerðum og lögum héðan frá Alþingi að uppfylla án þess að þau atriði hafi verið gerð upp við þau.

Rétt er að hafa í huga að fjárhagsstaða sveitarfélaganna sem heildar fer batnandi, þ.e. hallarekstur þeirra er að minnka. Hallarekstur sveitarfélaganna árið 2000 var yfir 3 milljarðar en 2001 var hallareksturinn kominn niður í 1 milljarð í heildina. (GÁS: En skuldaaukningin?) Skuldirnar jukust um yfir 3 milljarða árið 2000 en þó ekki nema um 1 milljarð árið 2001, sem er náttúrlega veruleg bót. Hafa ber í huga að þetta eru heildarupphæðir, samanlagðar skuldir og það hallaði náttúrlega verulega á sum sveitarfélögin.

Herra forseti. Ég er ekki nærri búinn með spurningarnar en ég er næstum að verða búinn með tímann. Það stendur yfir athugun á verkaskiptingunni. Það er verið að endurskoða Jöfnunarsjóð og endurskoða undanþágur frá fasteignaskatti. Það er alveg fjarri lagi að þetta sé einhver endasprettur ríkisstjórnarinnar, eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hélt hérna fram. Ég tel að ekki verði hægt að færa þetta í reikninga Hafnarfjarðarbæjar sem eignfærða fjárfestingu, mér finnst það fjarri lagi. (Forseti hringir.)

Verið er að reyna að leysa þau mál sem út af standa milli ríkis og sveitarfélaga. Við gáfum út yfirlýsingu um það á sínum tíma og það er unnið eftir henni.