Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 17:24:44 (6583)

2002-03-25 17:24:44# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[17:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Húsnæðisstofnun, sem nú heitir Íbúðalánasjóður, er látin selja eigið húsnæði og gerast leiguliði. Nú upplýsir hæstv. félmrh. okkur um að vextir af söluandvirðinu rísi undir leigukostnaðinum, þ.e. sú hafi verið hugsunin. Fróðlegt væri að fá úttekt á því hvort svo sé í raun og hvort svo muni verða um alla framtíð, hvort menn séu búnir að finna upp eins konar eilífðarvél.

Einkaframkvæmd er jafnvitlaus í Reykjavík og í Hafnarfirði. Munurinn er sá að Hafnfirðingar hafa gengið öllu lengra og farið með einkaframkvæmdina inn í grunnskólana. En hún er jafnvitlaus að því leyti að hún er fjárhagslega óskynsamleg fyrir borg og bæ. Það má vel vera að einhver tiltekin íþróttahöll hefði ekki risið ef hún hefði ekki verið fjármögnuð með einkaframkvæmd. Á sama hátt má vel vera að það leysi vandamál sveitarfélaga sem standa frammi fyrir einsetningu grunnskóla að nýta sér einkaframkvæmdina, eins og segir í grg. með þessu frv., til skamms tíma. En þegar til lengri tíma er litið er þetta miklu kostnaðarsamara, miklu þyngri byrðar sem lagðar eru á skattborgarann og notandann. Þannig er þetta til lengri tíma litið.

Ástæðan fyrir því að íþróttahallirnar rísa og skólarnir eru kannski reistir á hraðar en ella hefði verið er sú að menn ávísa reikningnum inn í framtíðina. Það finnst mér ekki vera sérlega ábyrg stefna.