Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 17:32:51 (6589)

2002-03-25 17:32:51# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[17:32]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kom inn á einkaframkvæmd og ræddi aðeins um hana. Það er náttúrlega engin spurning að ég er alls ekki á móti þeirri aðferð þar sem hún á við. En spurningin er hvort menn vilji fá framkvæmdirnar eða mannvirkin strax og greiða þá mismun í vöxtum, sem getur verið allverulegur.

En af því að hæstv. ráðherra talaði um íþróttamiðstöð í Grafarvogi þá hafa þeir valið þá leið að fara einkafjármögnunarleiðina með einkaframkvæmdina. En það er annað íþróttahús, kannski ekki alveg eins stórt og í Reykjavík, sem er að rísa í Kópavogi, og þar borga menn það út úr rekstri þess sveitarfélags. Þetta er því allt spurning um hvernig menn reka sveitarfélög sín og hvað er í tekjuafgang. Ef þau geta byggt þá eiga þau að gera það en greinilega hefur Reykjavík ekki átt fyrir þessu og þurft að fara þessa leið.