Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 18:13:42 (6600)

2002-03-25 18:13:42# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, DrH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Í upphafi vil ég taka fram að ég er ekki á móti skilgreindu gæðakerfi í sauðfjárrækt. Í núverandi tillögum eru atriði sem eru sjálfsögð, eins og kynbótaskýrsluhald, lyfjaskráning og einnig landnot. Hins vegar hef ég miklar efasemdir um þá útfærslu sem valin hefur verið og mun hér fara yfir það sem ég tel athugavert.

Aldrei hef ég orðið vör við aðra eins vakningu meðal bænda og undanfarnar vikur vegna andúðar þeirra á þessum samningi eftir að útfærsla hans var gerð kunn. Þegar talað er um hve margir samþykktu þennan samning þá gef ég ekki mikið fyrir það. Því miður hefur komið í ljós að þegar samningurinn var kynntur var hann að margra mati kynntur á röngum forsendum. Þá töluðu forustumenn bænda um að það væri krafa viðsemjenda að fyrirhuguð gæðastýring næði fram að ganga. Þegar eftir því hefur verið leitað kemur fram að þetta er ekki rétt. Nú hafa forustumenn bænda komið fram og viðurkennt að þetta hafi komið frá þeim. Þeir hafa viðurkennt krógann.

Sauðfjársamningurinn í heild sinni er flókinn. Í samanburði við mjólkursamninginn er þetta ekki skilvirkt fyrirkomulag. Við höfum séð skilvirkni í samningum við kúabændur en því miður er erfitt að sjá hana í sauðfjársamningnum. Hættan er sú að svo mikil stýring valdi því að kerfið brotni innan frá. Sú mismunun sem gert er ráð fyrir í grunngreiðslu til bænda, eftir því hvort menn fara í skilgreindan feril eða ekki, orkar tvímælis. Einnig þarf að líta á hver staðan er í dag. Fyrirsjáanleg er aukning á útflutningsskyldu strax í haust og mikil óvissa er um hvernig staðið verði að útflutningi og lítil tengsl eru við markaðinn.

[18:15]

Þann 5. mars sl. var utandagskrárumræða í þinginu um afkomu sauðfjárbænda. Það er staðreynd að afkomu sauðfjárbænda hefur hrakað ár frá ári. Meðaltekjur sauðfjárbónda með 300 fjár eru um 1 millj. 50 þús. kr. á ári. Afkoma sauðfjárbúa sýnir að hún nægir ekki til að greiða eigendum laun í samræmi við vinnuframlag og þau launakjör sem verðlagsnefnd gerir ráð fyrir. Verð til bóndans hefur minnkað um 6% meðan verð út úr verslunum hefur hækkað um 17%. Sauðfjárbúum með virku greiðslumarki hefur fækkað um 208 á árunum 1995--2000, en þrátt fyrir það jókst framleiðsla á kindakjöti um rúmlega 1.600 tonn og birgðir eru enn að aukast. Framleiðsla hefur aukist þrátt fyrir að innanlandsmarkaður hafi dregist saman.

Þegar útflutningur bregst leggst útflutningsgjald á það kjöt sem ekki selst á innanlandsmarkaði sem er afar óhagstætt fyrir greinina. Allt útlit er því fyrir að útflutningsskyldan verði nálægt 30% næsta haust og bændur eru að fá mjög lágt skilaverð á útfluttu kjöti eða um 130--160 kr. fyrir kg sem nægir ekki fyrir breytilegum kostnaði.

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt og ritað um gæðastýringu undanfarnar vikur. Það er óhætt að segja að öll sauðfjárframleiðsla í dag sé gæðastýrð undir lögboðnu eftirliti ýmissa aðila og þá má nefna dýralækna, heilbrigðiseftirlitið, forðagæslu og búfjáreftirlit. Bæði heima og í sláturhúsi er heilbrigðiseftirlit og það eru tekin heysýni og jarðvegssýni. Langflestir bændur halda kynbótabókhald og þar er hægt að bæta í lyfjanotkun án mikillar fyrirhafnar. Með því móti væri komið til móts við neytendur því að með þessu kerfi eins og það er í dag er hægt að rekja hvern skrokk til framleiðandans á auðveldan hátt. Allt annað í þessu gæðastýringarkerfi er mjög gagnslítið og hefur ekkert með vöruna að gera, þ.e. hvað varðar gæði vörunnar til neytenda. Því er fráleitt að tala fjálglega um að þessi gæðastýring sé fyrir neytendur. Þessi gæðastýring, eins og hún er útfærð, er ekki markaðsvæn þar sem hún nær aðeins að sláturhúsvegg og nær þannig ekki til neytenda.

Aldrei var haft samband við sláturleyfishafa í þessu ferli og markaðurinn hefur ekki kallað á þetta bákn. Neytendur treysta þeim gæðum sem koma frá viðurkenndum sláturleyfishöfum og kjötvinnslum. Gæðastýring í framleiðslu sem ekki nær til markaðarins og neytenda er engin gæðastýring heldur tilraun til ráðstjórnar í tilbúnu kerfi með ströngu eftirliti embættismanna og löggjöf. Hvaða tilgangi þjónar að draga bændur í dilka, þá verri og þá betri? Hvaða réttlæti er það að færa bótalaust ríflega fimmtung beingreiðslna frá þeim sem ekki vilja fara inn í gæðastýringuna, þ.e. að þeirra mati verri bændur, til þeirra sem forræðishyggjan telur betri? Þannig er leynt og ljóst reynt að koma sumum bændum með ráðstjórn og ofstjórn frá búum sínum. Nú þegar höfum við lög um búfjárhald og forðagæslu sem eiga að tryggja góða meðferð búfjár.

Lög um landgræðslu og meðferð lands í byggð og á afréttum eru nú til meðferðar í landbn. Það eru heildarlög sem ná yfir þetta allt saman en ekki sérlög sem snúa aðeins að einni grein í landbúnaði. Eins og staðan er í dag er eftirlitið í höndum dýralækna búfjáreftirlits. Síðan er eftirlit sem fer fram í sláturhúsi. Það er einnig í höndum dýralækna sem heilbrigðisskoða fyrir og eftir slátrun. Svo er heilbrigðiseftirlit og innra eftirlit í vinnslu, meðferð og sölu vörunnar. Þetta eru heildarlög um búfjáreftirlit og landgræðslu sem ná yfir alla þá þætti sem lúta búskap og umgengni við landið en snúa ekki aðeins að sauðfjárbændum. Af hverju þarf að vera með sérlög um sauðfjárrækt en ekki t.d. um framleiðslu í garðyrkju? Þessir þættir hafa að mestu leyti verið í góðu lagi og gott samstarf hefur verið milli bænda og þessara aðila. Hefði ekki verið nær fyrir samtök bænda og sláturleyfishafa að vinna að því að þjóna markaðnum betur, t.d. með því að neytendur gætu keypt dilkakjöt eftir kjötmati í verslunum, og tryggja þannig að fjármunir ríkisins nái til niðurgreiðslna til neytenda í lægra verði sem síðan skili sér til bóndans í meiri innanlandssölu þegar hann framleiðir þá vöru sem markaðurinn sækist eftir? Ef hann framleiðir ekki góða vöru þá á að verðfella hana. Eftirlitið á að vera þar en ekki hjá embættismönnum sem líta eftir gæðahandbók sem bóndinn á að skrifa til þóknunar þeim, kanna málningu útihúsa, athuga hvort féð hafi nógu marga fermetra í fjárhúsi o.s.frv.

Sauðfjárbændur muna erfiðar aðgerðir ríkisins til að mæta þörfum innanlandsmarkaðar undanfarin 20 ár. Eftir 1980 var farið í sársaukafullar aðgerðir í tíu ár til að minnka framleiðslu með setningu búmarks, síðar fullvirðisréttar með tvenns konar skilaverði, annars vegar innanlandsverði og hins vegar útflutningsverði árið 1990 þegar útflutningsbæturnar voru afnumdar og beingreiðslur voru teknar upp. Útflutningsbætur voru aflagðar 1990 þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var landbrh. Þá var ákveðið að beingreiðslur ættu aðeins að ná yfir það kjöt sem færi á innanlandsmarkað og bannað var að flytja út niðurgreitt kjöt. Þetta er í fullu gildi enn og þar af leiðandi hefur ríkið verið að kaupa upp áunnið greiðslumark til að framleiðslan aðlagi sig að innanlandsmarkaði. Nú er heldur betur snúið við frá þessu af samningamönnum bænda. Það á að greiða jöfnunar- og álagsgreiðslur á allt dilkakjöt með afar litlum frávikum sem þýðir að nú á að greiða niður útflutninginn og þar með að örva framleiðsluna eins og fram kemur í köflunum 3,1 og 3,2 í samningnum.

Eðlilegast er að beingreiðslur séu greiddar út á greiðslumark lögbýla þannig að framleiðandi viti á hvaða grunni hann getur byggt og skapað sér aukinn starfsvettvang. Samningur við sauðfjárbændur var eðlilega aðeins við þá bændur sem höfðu greiðslumark og fjármunir til samningsins hljóta að eiga að ná eingöngu til þeirra nema menn vilji ganga að sauðfjárræktinni sem búgrein dauðri hér á landi og koma í veg fyrir að greiðslumark í sauðfjárrækt verði metið til verðs.

Herra forseti. Það er því afar nauðsynlegt að binda greiðslur sauðfjársamningsins frá árinu 2000 til bænda með greiðslumark í sauðfé. Ef það verður ekki gert verða allar aðgerðir stjórnvalda síðustu 20 ár til að styrkja greinina í aðlögun sinni til að þjóna innanlandsmarkaði að engu gerðar.

Einn þáttur þessa sauðfjársamnings er sá að þeir sem seldu sinn beingreiðslurétt á ákveðnu árabili þegar möguleikar voru til þess en héldu áfram að framleiða kindakjöt geta nú farið í gæðastýringuna og, eins og samningurinn lítur út í dag, fengið þann ríkisstuðning aftur. Þetta finnst mörgum nokkuð skrýtið, þ.e. að þeir sem seldu sinn rétt og fengu fjármuni fyrir geta komið aftur undir vernd ríkisins með því að fara inn í gæðastýringuna. Réttlætið tekur á sig allskondna mynd í þessu tilviki.

Herra forseti. Framleiðsluaukning frá ársbyrjun 2000 er 1.000 tonn á ári þannig að allt stefnir í aukna útflutningsskyldu, líklega um 30% eins og ég gat um fyrr í ræðu minni. Með þessari opnun á samningnum má búast við að útflutningsskyldan aukist um 10% árlega þar til hún hrynur endanlega því að útflutningurinn nær aldrei nema broti af nauðsynlegu skilaverði til bænda. Útflutningur á Bandaríkjamarkað nam aðeins 42 tonnum á síðasta ári og skilaverð til bænda um 150 kr. á kg á síðasta ári sem eru 30% af því verði sem bóndinn verður að fá til að geta lifað af þessari búgrein. Held ég að flestum sem hlustuðu á fréttir í gær hafi alveg ofboðið þegar þeir heyrðu að útflutningsaðilar standa ekki einu sinni við að merkja vöruna þannig að það verður að brenna hana í Evrópu. Það er mikil skömm að því hvernig farið er með þessar góðu afurðir og svona á alls ekki að líða.

Ég vil koma að nokkrum atriðum sem mér finnst ástæða til að horfa á í sambandi við útfærsluna. Í fyrsta lagi á ekki að genga inn í beingreiðslur til bænda. Í öðru lagi á gefa sölu með greiðslumark frjálsa þegar í stað svo bændur geti stækkað bú sín og eignast greiðslumarkið sem fjárfestingu til margra ára sem kemur þeim þá til góða við búlok ef ekki er hróflað við verðmynduninni af ríkinu á næstu árum. Í þriðja lagi ber að fresta ,,Nytjalandi`` til ársins 2004 eða þar til það er tilbúið og útfært þannig að menn viti að hverju þeir eiga að ganga.

Herra forseti. Ég tel því úr því sem komið er að æskilegt væri að gefa sér aðeins meiri tíma í útfærsluna, fresta ákvæðum gæðastýringarinnar um eitt ár því samningurinn í heild er til endurskoðunar árið 2003 og að leitað verði leiða að fá breytingar á honum á þeim tíma, einkum hvað varðar form álagsgreiðslna og gæðastýringar og þá væri einnig komin betur í ljós útfærslan á landnotaþættinum.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að vitna í landsfundarályktun Sjálfstfl. frá síðasta landsfundi, en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Landsfundurinn styður gæðastýringu í landbúnaði sem hefur það að markmiði að bæta framleiðsluna og afkomu bænda. Landsfundur mótmælir hins vegar þeirri stefnu, sem fram kemur í nýgerðum sauðfjársamningi, að skilyrða hluta stuðnings við sauðfjárrækt með þátttöku í opinberum gæðastýringarverkefnum. Skylduverkefni, sem ekki standa undir sér, spilla hag framleiðenda. Hætt er við að núverandi áform komi harðast við þá bændur sem standa höllustum fæti. Er því ástæða til að endurskoða þessi ákvæði til þess að koma í veg fyrir að bændum verði mismunað.``

Herra forseti. Hv. landbn. hefur fengið ótal bréf undanfarnar vikur frá bændum sem hafa komið saman á fundum og viljað mótmæla þessum gjörningi. Ég tel að við eigum að ljá eyra þeim bændum sem eru uggandi um sinn hag. Staða sauðfjárbænda er afar bágborin og það er mjög illt til þess að vita að þeir treysta sér ekki inn í gæðastýringuna jafnvel vegna þess að þeir eru kannski komnir á þann aldur að þeir treysta sér ekki í svona mikla skriffinnsku. Við verðum að gefa þeim meiri aðlögunartíma í þessu sambandi. Að lokum þetta: Mér finnst að ekki eigi að hrófla við beingreiðslunum eins og ég sagði áðan.