Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 18:31:06 (6603)

2002-03-25 18:31:06# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt eftir ræðu hv. þm. Drífu Hjartardóttur, formanns landbn., að fá upplýst um örfá atriði.

Nú virðist það verða æ algengara að stjórnarflokkarnir takist á í þingsölum og hér var ekki hægt að heyra betur en formaður landbn. legðist mjög harkalega gegn ýmsu í frv. ráðherrans, taldi t.d. nauðsynlegt að fresta gildistöku hluta sem hæstv. ráðherra hefur þó lagt áherslu á að verði afgreiddir á vordögum. Því er nauðsynlegt að fá upplýst hvernig afgreiðslu þessa máls var háttað í þingflokki Sjálfstfl. Voru þar margir þingmenn flokksins með fyrirvara, kannski eins og við fengum að heyra þegar rætt var um byggðaáætlun frá hæstv. iðnrh.? Þá kom í ljós að sumir þingmenn Sjálfstfl. höfðu fullkominn fyrirvara á frumvarpinu. Það er því eðlilegt að velta því upp í þessu samhengi hvort hugsanlega sé svo komið að formaður landbn. hafi fullkominn fyrirvara á þessu stjfrv. Margar spurningar hljóta að koma upp um það hvernig störfum í landbn. verður háttað ef formaður landbn. ætlar að beita formannsvaldi sínu til að tryggja þá frestun sem hv. þm. ræddi áðan. Það er a.m.k. nauðsynlegt fyrir okkur sem hér sitjum og fylgjumst með stöðugt vaxandi illdeilum milli stjórnarflokkanna að fá að vita hvort hér sé komin enn ein deilan sem við sjáum ekki fyrir endann á.