Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 18:35:33 (6607)

2002-03-25 18:35:33# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[18:35]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. var að tala um gæðahandbókina en mér sýnist ekki vanþörf á að setja gæðastuðla á vinnubrögðin í landbrn., að þau fylgi einhverjum gæðastuðlum. Það er gott að geta sagt öðrum til en verst ef menn geta ekki unnið sjálfir með eðlilegum hætti.

Það sem ég vildi spyrja hv. þm. Drífu Hjartardóttur, sem jafnframt er formaður landbn., varðar það sem hæstv. landbrh. segir í grein í Morgunblaðinu 7. mars sl. þar sem hann víkur að þessum hluta fjármagns ríkisins til sauðfjárræktarinnar sem átti að vera bundinn við gæðastýringuna. Ég hef heyrt að fjármagnið sem er tengt gæðastýringunni hefði ekki komið inn í samninginn nema lofað hefði verið að farið yrði út í þessa gæðastýringu og að þetta hafi verið notað eins og svipa á bændur hvað það varðar enda segir hæstv. ráðherra í þessari grein sinni, með leyfi forseta:

,,Þessir fjármunir hefðu ekki komið frá ríkinu nema fyrir þetta gæðastýrða framleiðsluferli og því sjálfsagt að þeir renni til þátttakenda í því.``

Nú heyrist mér á hv. þm. að þetta hafi ekki verið gert að skilyrði af hálfu ríkisins þegar samningurinn var gerður, og ég vil inna hv. þm. eftir því hvað hún veit um það. Var það sett sem skilyrði af hálfu ríkisins þegar þessir fjármunir voru settir inn í samninginn að þeir rynnu til gæðastýringarinnar og magntengdir eins og þeir birtast okkur núna?