Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 19:07:58 (6615)

2002-03-25 19:07:58# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[19:07]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikið frelsi sem þingmenn vilja eiga. Þeir geta komið hingað upp og skammað ráðherra alveg eins og þá lystir. Nú er ég ekki að skattyrðast við hv. þm. Ég flutti henni t.d. þær upplýsingar, sem hún hafði ekki hugmynd um, að 85% bændanna hefðu tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og 66% þeirra hefðu samþykkt hana. Ég mundi auðvitað benda hv. þm. á að um páskana gæti verið ágætt að fara í heimsókn á eitt gott bú í Norður-Þingeyjarsýslu, tvö eða þrjú, og ræða við þá menn sem vinna þar eftir kerfinu.

Hv. þm. þarf heldur ekki að brýna mig í að hitta bændur. Ég hélt þá fjölmennustu bændafundi á Íslandi á síðasta ári sem einn ráðherra hefur gert í 20 ár, hygg ég, allt frá því að Steingrímur Hermannsson var landbrh. Þeir sækja fundi hjá mér, ræða við mig og ég hlusta.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það er lítill andstöðuhópur sem nú reynir að hrekja samninginn af leið. Það er harður hópur. Ég virði þau sjónarmið. Þau náðu ekki fram. Hinir bændurnir felldu þau sjónarmið og samþykktu samninginn. Ég er sá lýðræðissinni að ég vil fara eftir meiri hluta í störfum mínum þegar heil stétt fær loksins að greiða atkvæði. Mig langaði ekki að vera í sporum hinna landbúnaðarráðherranna sem sviku menn í rauninni um að þeir fengju að greiða atkvæði um samninginn. Ég vildi ekki gera þennan samning öðruvísi en að bændurnir fengju að segja sitt álit því að ég virði störf þeirra og held upp á þetta fólk og vinn mjög mikið með því.

Mér kemur ekki á óvart þó að það sé kvíði í einhverjum hópi manna sem aldrei hafa haldið skýrslur, ekki verið í sauðfjárræktarfélagi o.s.frv., jafnvel ágætisfólk sem gerir það gott þó að það kvíði þessu verkefni. En aðalmálið er að blása því bjartsýni í brjóst, að það taki þátt í þessum námskeiðum og geri sér grein fyrir því að þetta er ekkert voðalega erfitt. Það eiga allir aðgang að þessu kerfi.