Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:09:29 (6630)

2002-03-25 21:09:29# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:09]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að væna hv. þm. um að hann hafi ekki vit á sauðfé. Sjálfsagt hefur hann gott vit á sauðfé. Ég veit að hann er virtur smali í mínu kjördæmi og bændur kunna að meta hann í smalamennsku. Hann er fótfrár og hleypur sem hestur. Ég er viss um að hann væri líka góður að koma lambi á spena að vori og mundi stunda þau störf af þeirri samviskusemi (PHB: Ég hef gert það.) --- og hefur gert það kallar hann fram í --- sem hann hefur stundað í kringum peningana og þingið. Hann hefur verið sjálfum sér samkvæmur og ég ætla ekki að standa í deilum við hann um það.

Auðvitað er það hárrétt, sem hv. þm. segir. Það kann að vera að einhverjir kvíði því að fara á námskeið og kvíði skýrsluhaldi. Ég hafði sjálfur áhyggjur af þessum þætti af því að það er kannski innan við helmingur bændanna sem eru í þessu bókhaldi. Það varð að blása til samstöðu um málið og reyna að fá alla með. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þessa atvinnugrein að menn séu samhentir og taki þátt í ræktunar- og uppbyggingarstarfinu sem gæti fylgt þessum samningi. Ég deili þeim áhyggjum með hv. þm. eins og fleiri að auðvitað eru einhverjir á móti þessum samningum af þessum ástæðum. Það er enginn vafi í mínum huga um að her manna hefur barist gegn honum frá því að hann var samþykktur, áður en hann var samþykktur, eftir að hann var samþykktur, eftir að hann fór að virka og hefur jafnvel gefið út heilar bækur gegn honum. Það er því ekki að undra að hann mæti einhverjum mótbyr. En nú er hann á lokastigi og þess vegna er mikilvægt að blása til samstöðunnar. Landbn. mun fara rækilega yfir samninginn og skila honum inn í þingið í vor.