Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:11:35 (6631)

2002-03-25 21:11:35# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ósköp var þetta þunn ræða hjá hæstv. landbrh. Í henni kom fátt eitt fram og lítið af því sem ég gagnrýndi eiginlega hvað mest, þ.e. að þessi búvörusamningur væri framleiðsluhvetjandi og slæmur fyrir bændur vegna þess að þeir bændur, sem kannski meta má einhver 20%, munu ekki treysta sér til að fara í alla þessa skriffinnsku og á þessi námskeið en hafa þó mann fram af manni framleitt afbragðs lambakjöt. Þeir kunna að setja á, kunna að sinna sauðburði á vorin, þeir kunna að sækja lömbin á haustin og fylgja þeim í slátrun. En þeir treysta sér kannski ekki í að fara í próf og fylla út allar þessar skýrslur eða geta það ekki. Þeir kunna að framleiða gott lambakjöt en þeim skal refsað. Þeir skulu gerðir enn fátækari.