Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:12:42 (6632)

2002-03-25 21:12:42# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:12]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessa umræðu um gæðastýringuna. Mikið hefur verið rætt um stöðu bænda hvað varðar gæðastýringuna. Ég get tekið undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni um að þar sem ég þekki til fjárbúskapar er þetta meira og minna inni í framleiðsluferlinu hjá bændum eins og það er í dag. Það vill svo til að ég er nýkominn úr Norður-Þingeyjarsýslu og hef rætt við bændur um þessi mál þar. Í raun segjast þeir þurfa að reiða fram upplýsingar sem þeir hafa haft og skráð og í mörg ár. Ég ætla ekki að fara í þá umræðu. Ég held að þetta sé tiltölulega auðvelt mál að fara í, margar góðar ábendingar og ég er viss um að hv. landbn. mun þar skila góðu starfi.

Þar sem ég ólst upp í þorpi með heimaflabúskap virðist mér í dag sem neytanda sem vandinn sé á leiðinni frá sláturhúsvegg og inn í búð. Í raun getum við í þessu sambandi aðeins valið um eina afurð miðað við nútímakröfu. Hangikjötsframleiðslan byggir að verulegu leyti á staðbundinni framleiðslu þar sem þú gengur að því hvaðan þú ert að kaupa hangikjötið, hvort það er Hólsfjalla, skagfirskt eða eyfirskt, KEA eða hvað það er. Þetta er mjög framleiðsluaukandi og miklu meira spennandi, að velja í kjötborðinu á þennan hátt. Þess vegna tel ég að það sé fyrst og fremst í markaðsstarfi frá sláturhúsvegg og inn í búðirnar sem á vantar.

Rætt hefur verið um að verðið hefur hækkað gríðarlega miðað við hækkunina til bænda. Hér hefur verið talað um 6--7% hækkun til bænda á meðan kjötið hækkar í útsölu á neytendamarkaði um 17%. Það er náttúrlega óviðunandi þegar við stöndum frammi fyrir því að framreiðslan í kjötborðinu hefur heldur versnað ef eitthvað er.

[21:15]

Auðvitað hefur sá vandræðagangur sem hefur verið uppi í öllu afurðastöðvadæminu úti um allt land áhrif núna og er e.t.v. stærsti orsakavaldurinn í því að við erum að selja miklu minna kjöt en áður hefur verið. Það er bara þannig og af því að ég tala um heimaflabúskap, þá er mér ekki sama hvort ég fæ lambhrútslæri eða gimbrarlæri til steikingar, tek það sem dæmi. Ef afurðastöðvarnar og síðan söluaðilar eru innstilltir á að fara yfir í slíkt í meiri mæli, þá liggur þar hin eiginlega gæðastýring. Ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af bændunum. Þetta er ferlið frá sláturhúsvegg og inn í búðirnar. Þetta er eins og í öðru, hvort sem við erum að tala um konfekt eða lambakjöt. Þetta þarf að framreiða á réttan hátt til að það verði spennandi. Það er spenna í sambandi við það að kaupa og smakka mismunandi framleitt reykt lambalæri. Það er eiginlega eina afurðin sem ég get komið auga á sem fylgir þessu gæðastýringarferli. Framleiðendur eru margir, það eru spennandi merkingar, fólk veit hvaðan kjötið kemur og gerir samanburð í fjölskylduboðum, hver var með Húsavíkurreykt hangikjöt og hver var með SS-hangikjöt eða hver var með KEA-hangikjöt. Þetta ræðir fólk um, ber saman og kaupir afurðir sem vel er af látið. Þarna eru stærstu gæðastýringarmálin sem þarf að vinna að og þarna verður til örvun á sölunni á innanlandsmarkaði eins og menn hafa rætt mikið um. Þarna eigum við að einbeita okkur því að eins og hefur komið fram í ræðum manna er gæðastýringin hvað varðar framleiðendurna sjálfa í mínum huga tiltölulega einfalt mál vegna þess að ég hef nákvæmlega sömu reynslu og hv. þm. Jón Bjarnason. Annaðhvort hafa menn þetta í hjartanu og innbyggt í heilabúið hvernig búið virkar eða þá, eins og ég þekki mjög vel til, að menn hafa hvert einasta atriði skráð.

Ég árétta að ég tel að hv. landbn. eigi í miklum meira mæli að fara í ferlið frá sláturhúsvegg og inn í búðirnar, framkalla samkeppni um gæði, samkeppni um hvernig menn vinna vöruna o.s.frv. Það er í mínum huga ekkert vafamál að stór hluti þjóðarinnar sem er alinn upp við gott lambakjöt mundi kunna vel að meta það að geta valið og fengið merkt að þetta og þetta læri í borðinu sé gimbrarlæri en ekki lambhrútslæri. Þannig er ég alinn upp við neyslu á lambakjöti. Mér er ekki sama hvort ég fæ lambhrútshrygg eða gimbrarhrygg.

Heima hjá okkur var ævinlega sá háttur hafður á að gimbrar voru teknar til neyslu, til steikingar, til ferskrar neyslu, en lambhrútar frekar teknir í reykingu, saltað kjöt o.s.frv. Við eigum að byggja á þessu og við eigum að framkalla fjölbreytileika innan greinarinnar, innan framleiðslunnar til þess að freista þess að fólk kaupi meira og ef það hefur þetta val, eins og með hangikjötið, er ekkert vafamál að það selst meira og þarna framkalla menn hina eiginlegu gæðastýringu vegna þess að í framhaldi af því fer að verða eftirsótt að fá læri til reykingar frá vissum svæðum og helst náttúrlega frá vissum búum. Þetta gerist af sjálfu sér þegar vinnsluferlið og söluferlið er komið inn í það far.

Þetta vildi ég draga fram, virðulegi forseti. Ég held að þetta sé meginmálið og ég held að bændur standi tiltölulega vel. Ég geri mér grein fyrir því að sumir mikla fyrir sér skriffinnsku sem ég tel reyndar að langmestu leyti óþarfa og það eigi að fara yfir þau mál í hv. landbn. En aðalfókusinn er að einbeita sér að þessu ferli frá sláturhúsvegg og inn í kjötborð.