Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:42:03 (6641)

2002-03-25 21:42:03# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá skilja leiðir með mér og hv. þm. Nú er hann kominn með gömlu kratastefnuna (JB: Nei.) um að ríkisstuðning skuli greiða út á hóla, ekki gera kröfu um vinnuframlag o.s.frv., (Gripið fram í: Bíddu, nú er misskilningur.) að peninginn skuli taka og færa á lögbýli þó að það sé engin vinnuskylda á bak við hann. Ég hef litið á það sem mjög mikilvægt hlutverk að samningurinn snúi að atvinnugreininni, að ríkisstuðningur sé ekki veittur til þess að gera ekki neitt. Þarna er hann meiri Evrópusinni en t.d. ég. Hann er orðinn fastur í því kerfi sem í Evrópu ríkir, að menn fái peninginn fyrir kannski að gera ekki neitt. Ég álít það mjög mikilvægt að á hverri búgrein hvíli kröfur. Svo lít ég á þennan pening sem niðurgreiðslur til neytenda hvort sem það er mjólkin eða sauðfjárframleiðslan. Ef menn fara að fá þennan pening fyrir að gera ekki neitt raskast samstaðan um málið og þingið vill ekki taka þátt í slíku. Þarna skilja því leiðir, hv. þm., og er ég sorgmæddur yfir því.