Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:44:25 (6643)

2002-03-25 21:44:25# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:44]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Alltaf gerist það undir lok umræðunnar að einhver rís óþreyttur úr rúmi sínu sem ekki hefur fylgst með umræðunni og fer að taka þátt í henni þó að það sé búið að margsvara málinu allan daginn. ,,Kynnt á röngum forsendum``, fullyrðir hv. þm. Hann svaf sjálfur heima í rúmi meðan fundirnir fóru fram og lét sig ekkert varða um málið. Aldrei man ég eftir að hann hafi sótt einn einasta fund um þetta. Þetta er auðvitað mikill áróður að mér finnst. Það er allt í lagi að menn beri þann sem hér stendur þungum sökum. En ég er klár á því að bændurnir, Landssamband sauðfjárbænda, Bændasamtökin, búnaðarþing og þeir sem fjölluðu um þetta höfðu ekkert fals í huga og kynntu samninginn eins og hann var. Það er enginn vafi í mínum huga.

Hins vegar þarf kannski eftir þá áróðursherferð sem farið hefur fram að kynna hann enn betur og fara yfir málið. Þannig er það svo þegar maður heldur stóra fundi og kemur saman með mönnum að þá átta þeir sig á því að ágreiningurinn er kannski um allt önnur atriði en eru í samningnum sjálfum því að sitt sýnist hverjum og menn vilja leggja áherslu á ýmis önnur atriði.