Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:54:14 (6648)

2002-03-25 21:54:14# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:54]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég kem hingað vegna orða hæstv. ráðherra í lokaræðu og andsvari áðan um að draga ítrekað fram þá stöðu að í sauðfjárræktinni sé ekki skortur á dilkakjöti. Það er ekki skortur á dilkakjöti í sjálfu sér á innanlandsmarkaði. Það er frekar að við þurfum að vera þar með markaðssókn. Framleiðslustuðningur sem slíkur vegna innanlandsþarfa er þess vegna ekki nauðsynlegur. Framleiðslustuðningur í sauðfjárræktinni til að auka framleiðslu þar fer til þess að framleiða kjöt sem er selt á markaði erlendis. Á hálfvirði. Það er því mjög sérkennilegt að ríkisstuðningurinn skuli beinast að því að framleiða kjöt á erlendan markað á hálfvirði, og enn þá sérkennilegra verður það, herra forseti, þegar þessi framleiðsluréttur, eða beingreiðsluréttur, og þessi réttur á magntengdum álagsgreiðslum rennur til þess að framleiða vöru sem fer á niðursettu verði á erlendan markað. Fyrir mér eru þessar beingreiðslur á vissan hátt fyrst og fremst til að styrkja byggð og sauðfjárbúskap í landinu sem hluta af byggða- og búsetustefnu og auðlindanýtingarstefnu í landinu. Hins vegar á hann að vera til þess að skapa bændum ákveðinn tekjugrunn. Ég sé ekki að tekjugrunnur sem verður orðinn framseljanlegur og getur þess vegna verið seldur hæstbjóðanda sem ekki er víst að verði fátækur sauðfjárbóndi komi að gagni. Kannski eru það fyrst og fremst einhver fyrirtæki, afurðastöðvar eða þeir sem hafa aðgang að fjármagni, sem munu kaupa hann upp. Ég trúi ekki að það sé eitthvað sem einmitt sé stefnt að.

Ég vara við þeirri nálgun að beingreiðslur verði framseljanlegar og að við lendum þar í sama ferli og við höfum lent í með mjólkurframleiðsluna og sjávarútveginn, ekki síst þegar markaðir eru ekki einu sinni fyrir þessar vörur. Ég skora þá á hæstv. landbrh. að beita áhrifum sínum og koma í veg fyrir að við lendum í því að sauðfjárbændur verði leiguliðar með framleiðslurétt sem einhver annar eigi, og beingreiðslupólitíkin verði til þess að auka enn á grisjun byggðar og brottflutning fólks úr sveitum eins og gæti stefnt í.