Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:29:20 (6654)

2002-03-25 22:29:20# 127. lþ. 104.5 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:29]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að talað var um að hér yrðu fundir bæði í kvöld og annað kvöld. Hins vegar var það ekki skilgreint nánar og í dag var á flögri hér að það yrði ekki verið lengur að en til tíu sem maður hefði kannski talið viðunandi miðað við að fundur eigi að vera aftur annað kvöld.

Af því að ég t.d. þarf að mæta á fund hérna strax í fyrramálið klukkan átta þá finnst mér að alveg sé kominn tími til þess að fara að gefa þessu líf.

Hitt er svo annað mál að ég mótmæli því að svona sé staðið að málum. Fyrir liggur að hér hefur verið dreift hverju málinu á fætur öðru sem eru að koma núna loksins og fyrir liggja yfirlýsingar frá ráðherrum um að þeir ætli sér að fá þessi mál í gegn á þessu þingi. Hér er verið að reyna að baksa við að koma málum í gegnum 1. umr. sem eru að koma fram núna hópum saman. Það er alveg augljóst að ekki nema hluti af þessum málum á möguleika á því að fá afgreiðslu á þeim stutta tíma sem er eftir fram á vorið.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast þessi vinnubrögð. Þess vegna finnst mér full ástæða til þess að gagnrýna það að menn standi síðan langt fram á nótt við að ræða mál sem eiga enga möguleika til að komast áfram. Ég er ekki þar með að segja að það mál sem verið er að ræða einmitt núna komist ekki áfram. En það er a.m.k. auðséð að ýmis af þeim málum sem hér hefur verið dreift og yfirlýsingar ráðherra fylgja með munu ekki verða afgreidd með lokaafgreiðslu hér á þingi í vor.

Ég held að ríkisstjórnin ætti að velta því svolítið fyrir sér að forgangsraða og velja einhver af þeim málum úr sem á að gera tilraun til að koma áfram þannig að menn sjái einhvern tilgang í því að standa hér og halda ræður og séu ekki að hræra hér í einhverjum vonlausum potti af málum sem ekki verður hægt að afgreiða á þessu þingi.