Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:37:01 (6659)

2002-03-25 22:37:01# 127. lþ. 104.5 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, PHB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:37]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég fór áðan í andsvar við hæstv. landbrh. til að spara þinginu þá umræðu sem hér á sér stað. Ég spurði hversu mörg býli ættu að fá þessa styrki. Nú hef ég fengið svar við því. Það eru 93 býli sem fá þessa styrki.

Herra forseti. Við erum að ræða um 220 milljónir á ári í tíu ár plús sitthvað fleira. Þetta verða því samtals 2.350 milljónir sem á að greiða á tíu árum. Þetta eru 25 milljónir á hvert af þessum 93 býlum, herra forseti. Ég legg nú bara til að ríkisstjórnin eða framkvæmdarvaldið kaupi þessi býli, kaupi reksturinn af þeim. Mennirnir geta haldið bæði bústofni og löndunum, en ríkið gæti keypt reksturinn á 25 milljónir. Ég hygg að enginn í þessum rekstri gæti selt hann á hærra verði en það. Þar með gætu menn lækkað verðið enn meira á þessum vörum frá útlöndum.

Eins og kom fram í andsvari mínu við hæstv. landbrh. er ég afskaplega mikið á móti þessari leið. Þetta er gamaldags leið. Menn eru þarna að reyna að lækka vísitöluna með beingreiðslum. Eins og ég gat um minnir þetta mann á söguna af Münchausen, að ASÍ og BSRB ætla að lækka vísitöluna sem þeir hafa sjálfir sett inn í kjarasamninga með því að láta sína félagsmenn borga skatta en ekki fullt verð í verslunum. Ef við tökum þetta á tíu árum eru þetta 33 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu, hvorki meira né minna, fyrir þessa lækkun á grænmeti.

Ég er eindregið á móti þessu. Ég lýsti yfir andstöðu við þetta í þingflokki mínum. Mér finnst þetta gamaldags lausn og mun greiða atkvæði gegn þessu. Það er sérstaklega athyglisvert að ASÍ og BSRB ætla að fara þessa leið til að lækka vísitöluna í landinu.