Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:39:39 (6660)

2002-03-25 22:39:39# 127. lþ. 104.5 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hér talaði hv. þm. um gamaldags lausnir. Þetta er talsmaður þess að íslenska ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, gangist í ábyrgð fyrir stærstu fjárframkvæmd Íslandssögunnar í virkjunum á Austurlandi, gegn ráðleggingum frá markaðssinnum og hægrisinnuðum hagfræðingum undanfarnar vikurnar.

Síðan er málflutningur hv. þm. nokkuð villandi þegar hann talar í upphæðum um 25 milljónir en hirðir ekki um að geta þess á hve löngu tímabili þær greiðslur koma til sögunnar.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal gefur lítið fyrir vilja verkalýðshreyfingarinnar til að koma að þessum málum á ábyrgan hátt. Innan þeirra veggja eru menn þess mjög meðvitaðir hvert samhengi hlutanna er, að neytandinn er framleiðandi og framleiðandinn er neytandi. Menn vilja gera hvort tveggja í senn, stuðla að lækkuðu verði á þessum afurðum en jafnframt tryggja og treysta stöðu þeirra sem framleiða þessa vöru.

Mér finnst þetta bera vott um ábyrga afstöðu. Það kann að vera gamaldags en er jafnframt góðra gjalda vert í nútímanum. Hún kemur vonandi til með að gilda í framtíðinni líka því að þetta er ábyrg afstaða.