Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:44:46 (6663)

2002-03-25 22:44:46# 127. lþ. 104.5 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:44]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Enn var rætt um Kárahnjúkavirkjun og styrki til hennar. Ég hef reyndar sagt það áður að þetta er svo arðbær framkvæmd, Kárahnjúkavirkjun, að hún þarf enga ríkisábyrgð á lánum. Hún fengi lán ein sér að mínu viti.

Hv. þm., sem er formaður BSRB sagði að íslenskir launamenn gerðu sér grein fyrir að það þyrfti að styrkja þessa atvinnugrein. Hvaða launamenn eru það? Eru það ekki forustumenn launamanna? Eru það ekki sjálfskipaðir forustumenn launamanna, sem fá félagsgjöld sem skatta frá sínum félagsmönnum, BSRB sérstaklega? Opinberir starfsmenn verða að greiða til BSRB hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki samkvæmt lögum. Er þetta ekki vandamálið, að hv. þm. talar í nafni fjölda opinberra starfsmanna og segir að þeir hafi gert sér grein fyrir því að styðja þurfi þessa atvinnugrein?

Ég minni á að hann er að leggja álögur á þessa sömu félagsmenn sína. Það er nefnilega þannig að opinberir starfsmenn greiða skatta og við erum hér að ræða um, eins og ég gat um, 33 þús. kr. skatt á hverja fjögurra manna fjölskyldu, líka opinberra starfsmanna, á næstu tíu árum. Eftir það heldur dæmið síðan væntanlega áfram. Þetta eru 33 þús. kr. sem hann er að leggja á félagsmenn sína að meðaltali, á hverja fjögurra manna fjölskyldu, um ókomna framtíð á tíu ára fresti.