Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 23:11:07 (6670)

2002-03-25 23:11:07# 127. lþ. 104.7 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[23:11]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allgóð pólitísk samstaða hefur ríkt um að hafa mál með þeim hætti sem hér hefur verið greint frá og er litið á það sem byggðaaðgerð meðal annars. Ég er mjög stolt af því fyrirkomulagi sem við höfum tekið hér upp og höfum í raun á síðustu árum stóraukið þá upphæð á fjárlögum sem fer til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði.

Einn misskilningur a.m.k. kom fram í ræðu hv. þm. fyrir utan það að ég var ósammála honum í öllum aðalatriðum, að með frv., ef að lögum verður, verður heimarafmagn niðurgreitt. Það er ákveðin breyting sem þar verður á.

Ég held að það sé hvorki jákvætt fyrir umheiminn allan, ef við horfum nú stórt, né Ísland að við séum að nota mikið kol til upphitunar.

Hvað varðar einangrun húsa, þá hefur verið orkusparnaðarátak í gangi sem hefur verið framkvæmt af þó nokkrum aðilum. Iðnrn. tekur þátt í því, Orkustofnun og orkufyrirtækin. Auk þess er hægt að fá lán til þess að bæta einangrun húsa. En það hefur ekki verið hugleitt að borga fólki fyrir að búa á ákveðnum stöðum.