Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 23:47:59 (6677)

2002-03-25 23:47:59# 127. lþ. 104.7 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[23:47]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til þess að þakka fyrir mjög góðar undirtekir sem frv. hefur fengið og það skiptir miklu máli. Þess vegna trúi ég því að það eigi greiða leið í gegnum hv. Alþingi.

Það var þó nokkuð talað um fræðslu og orkusparnað af hálfu hv. þm. og eins og kom fram í máli mínu hefur verið átak í gangi eða vinna, ég veit ekki hvort á að kalla það átak, í sambandi við orkusparnað sem Orkustofnun og iðnrn. hafa komið að ásamt orkufyrirtækjunum og ég trúi því að það hafi skipt máli. Það er alltaf spurning hvort hægt sé að gera betur og ég tel mjög eðlilegt að það verði rætt í nefndinni. Og eins það hvort hugsanlegt sé að útvíkka frv. frekar eins og hv. þm. Hjálmar Árnason nefndi. Það er ýmislegt fleira í gangi eins og t.d. hugmyndir um framleiðslu rafmagns með vindmyllum o.s.frv., en það hefur nú sín takmörk þannig að við skulum bara sjá til hvað kemur út úr starfinu í nefndinni.

Ég tek mjög undir það að mikilvægt er að við nýtum orkuna vel og bruðlum ekki með þessa mikilvægu auðlind okkar. Auðvitað höfum við Íslendingar verið að gera það í nokkrum mæli.

Í sambandi við þennan fimm ára styrk, þá vil ég að hér komi fram að ég er treg til að breyta út frá þeirri reglu og tel að það yrði ansi flókið mál og að sjálfsögðu mundi það þurfa að eiga við um alla. Ég tel að það sé hæpið þó ekki sé meira sagt.

Í sambandi við dýrustu hitaveiturnar, þá er það mál sem var reyndar rætt í ríkisstjórn í tengslum við ákvörðun síðustu fjárlaga og þá upphæð sem veitt var til þessara niðurgreiðslna í ár. Niðurstaðan varð sú að í sjálfu væri sér ekki eðlilegt að ganga lengra hvað varðar niðurgreiðslur á rafmagni en svo að það gerði ekki dýrar hitaveitur ósamkeppnishæfar á þessum markaði. Ég held að við séum komin með þessa upphæð svo hátt að hægt sé að sætta sig mjög vel við það að hún sé u.þ.b. það sem hún er í dag. Fólk er að borga innan við 50% af raunverulegum kostnaði þess að hita upp með rafmagni og ég held að það megi kallast myndarlegur styrkur.

Að síðustu vil ég segja að frv. er ekki ákvörðunarefni um þá fjárveitingu sem Alþingi tekur ákvörðun um hverju sinni. Þetta er einungis um reglurnar sem unnið er eftir og ég tel að það sé til að bæta stjórnsýsluna að samþykkja frv. vegna þess að hér erum við að tala um háar upphæðir og óhætt er að segja að það sé a.m.k. hæpið að þetta fjármagn skuli allt vera veitt án þess að um það hafi gilt lög í landinu þó að sjálfsögðu hafi verið unnið samkvæmt reglum.