Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 10:37:57 (6682)

2002-03-26 10:37:57# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[10:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt hef ég lagt fram skýrslu sem er yfirlit um utanríkismál sem liggur hér á borðum hv. þm. Í síðustu tveimur yfirlitsræðum gerði ég að umtalsefni tvo meginstrauma sem mest hafa haft áhrif á utanríkismál Íslands undanfarin ár. Þetta eru samrunaþróunin í Evrópu annars vegar og hnattvæðingin svonefnda hins vegar. Að þessu sinni vil ég ræða sýn á almenna þjóðfélagsþróun sem nefnd hefur verið sjálfbær þróun. Ég er þó að sjálfsögðu reiðubúinn að ræða hvaðeina í efni skýrslunnar hér á eftir.

Ég geri þessa sýn að umtalsefni því hún hefur verulega þýðingu fyrir okkur Íslendinga. Við byggjum afkomu okkar að stórum hluta á náttúru landsins, hvort sem eru fiskveiðar, orkuvinnsla, landbúnaður eða ferðaþjónusta. Með hugviti, þekkingu og atorkusemi höfum við fært náttúruna okkur í nyt og byggt hér nútímasamfélag á borð við það besta sem finnst í Evrópu. Náttúran er okkar vinnustaður og þar þarf sjálfbær þróun að vera í öndvegi.

Við getum gert ýmislegt heima fyrir til að vinna að sjálfbærri þróun en staðreyndin er sú að við getum ekki náð því markmiði ein. Við búum í heimi hnattvæðingar og erum stöðugt háð utanaðkomandi straumum og áhrifum. Ég þarf vart að minna á þær afleiðingar sem mundu verða af geislamengun í hafinu. Markaðir okkar fyrir fisk mundu hverfa á svipstundu. Það skiptir okkur líka verulegu máli hvaða augum heimsbyggðin lítur lífríki jarðar og nýtingu þess. Þetta höfum við fengið að reyna í hvalveiðimálunum og því miður er ýmis dæmi að finna um svipaðan áróður gegn fiskveiðum. Alþjóðlegir straumar og stefnur í umhverfismálum hafa veruleg áhrif á stöðu okkar í samfélagi þjóðanna og möguleika okkar að nýta okkar dýrmætu auðlindir. Það er afar brýnt að við tökum virkan þátt í þeirri skoðanamyndun og stefnumörkun sem fram fer um þessi mál á alþjóðavettvangi.

Það fer vel á því að fjalla nú um sjálfbæra þróun þegar í bígerð er leiðtogafundur í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá því að samfélag þjóðanna ákvað í Rio de Janeiro að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Við væntum þess öll að leiðtogafundurinn í Jóhannesarborg endurveki þann samhug og kraft sem einkenndi Ríó-ráðstefnuna, og að hann marki mikilvægt skref í hnattrænni samvinnu um sjálfbæra þróun, einkum varðandi þróunarríkin.

Þegar hugtakið sjálfbær þróun kom fyrst á dagskrá þótti mörgum það vera ónákvæmt og óljóst og efuðust um gagnsemi þess. Reynslan hefur hins vegar sýnt að sú hugsun sem í hugtakinu felst hefur náð fótfestu bæði í alþjóðlegri samvinnu og í stefnumörkun flestra ef ekki allra ríkja. Gagnsemi hugtaksins hefur einmitt verið sú að í því felst framtíðarsýn sem er nægilega sveigjanleg til að aðlagast nýjum aðstæðum á tímum örra breytinga.

Sjálfbær þróun þýðir einfaldlega að við búum í sátt og samlyndi við umhverfi okkar og samfélag og skilum betra búi til afkomendanna. Hugtakið á rætur að rekja til umhverfisverndarvakningarinnar í lok síðustu aldar. En tilkoma þess var jafnframt ákveðin viðbrögð við henni. Vakningin hafði ekki skilað fullnægjandi árangri, ekki síst vegna þess að umhverfisvernd og hagvexti var oft stillt upp sem ósættanlegum andstæðum. Með sjálfbærri þróun leitum við hins vegar leiða til að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða grunngæði jarðar eða möguleika komandi kynslóða á að njóta sams konar eða meiri velferðar.

Sjálfbær þróun er þannig ekki blind umhverfisstefna, heldur stefna sem setur manneskjuna og velferð hennar í öndvegi. Hugtakið leggur áherslu á að verndun hins náttúrulega umhverfis sé forsenda áframhaldandi efnahagsþróunar og velferðar mannkyns, en jafnframt að blómlegt efnahagslíf og félagsleg velferð séu forsendur þess að umhverfið verði verndað og auðlindir náttúrunnar nýttar á ábyrgan hátt til frambúðar. Því þarf ávallt að skoða framkvæmdir og ákvarðanir í efnahagsmálum, félagsmálum og umhverfismálum í samhengi.

Við Íslendingar höfum skipað okkur í flokk þeirra ríkja sem vilja vera í fremstu röð í að byggja upp sjálfbæra framtíð, enda byggjum við velferð okkar að verulegu leyti á gæðum íslenskrar náttúru. Ekkert annað ríki getur státað af því að þiggja um 70% af orku sinni frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Við ætlum okkur enn betur í að draga úr notkun mengandi orkugjafa eins og bensíni og olíu. Íslenskir aðilar hafa í samvinnu við erlend fyrirtæki skipað sér í hóp brautryðjenda í notkun vetnis sem eldsneytis í bifreiðar og skip.

Með nýtingu íslenskra orkugjafa höfum við byggt upp stóriðju sem á sér fáa líka, þó víða væri leitað. Mengun frá íslenskri stóriðju er um átta til nífalt minni en í mörgum öðrum löndum. Þetta viðurkenndu ríki heims þegar þau samþykktu íslensku ákvörðunina með samkomulaginu sem þau gerðu í Marakess sl. haust um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar. Þjóðir heims sáu það og skildu að stefnumörkun í loftslagsmálum verður að miða að sjálfbærri þróun og að fráleitt sé að leggja stein í götu þess að orkufrekur iðnaður sé staðsettur þar sem endurnýjanlega orkugjafa er að finna. Væri almennt hægt að reka stóriðju í heiminum eins og hún er stunduð hér á landi, með endurnýjanlegri orku og hreinni framleiðslutækni, væri stigið risaskref í átt til þess að draga úr skaðlegum loftslagsbreytingum.

Sjávarútvegsstefna okkar hefur einnig vakið athygli víða um heim. Á hana hefur margsinnis verið bent sem eina af þeim fáu í heiminum sem stuðli að sjálfbærri nýtingu fiskstofna um leið og fyllstu arðsemissjónarmiða sé gætt. Reynsla margra annarra ríkja hefur annaðhvort verið á þann veg að þau hafa látið stundarhagsmuni ráða og þannig ofveitt stofna sína, eða hafa fylgt einfaldri friðunarstefnu sem hefur dregið allan þrótt úr sjávarútvegi. Sjálfbær sjávarútvegsstefna leitast við að hámarka allt í senn: efnahagslegan ábata, atvinnuöryggi og viðgang fiskstofna.

[10:45]

Þekking okkar og reynsla í orku- og sjávarútvegsmálum hefur jafnan verið rómuð í mati OECD á stefnumörkun og framkvæmdum í umhverfismálum. Á vettvangi OECD hafa iðnríkin einmitt unnið að því að finna leiðir til að virkja markaðinn og atvinnulífið í þágu sjálfbærrar þróunar. Í því efni hefur verið litið til kvótaviðskipta sem hagkvæmrar og árangursríkrar aðferðar við að draga úr mengun og stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu.

Það er skýlaus skoðun þorra Íslendinga að nýta beri allar lifandi auðlindir hafsins með sjálfbærum hætti, þar með talið hvali. Af Íslands hálfu hefur verið lögð áhersla á þátttöku í alþjóðlegu samstarfi í hvalveiðimálum á vettvangi þeirra alþjóðastofnana sem fjalla um þau mál. Við tökum virkan þátt í vaxandi starfsemi Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins, NAMMCO. Í fyrra gerðumst við aftur aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu, en með fyrirvara við núllkvóta ráðsins vegna hvalveiða í atvinnuskyni. Við töldum tímabært að ganga í ráðið að nýju í ljósi þess að merki eru um að stuðningur sé að aukast innan þess við sjálfbærar hvalveiðar og vildum við taka þátt í þeirri umræðu og hafa áhrif á ákvarðanir ráðsins.

Á ársfundi ráðsins í fyrra ákvað það að hafna fyrirvara Íslands og þar með aðild okkar. Við lítum svo á að þessi ákvörðun sé ógild þar sem ráðið hafi ekki verið bært til að taka hana. Ákvörðunin er því að engu hafandi og hefur engin áhrif á stöðu Íslands sem aðila að ráðinu. Sú staða er nú uppi að sum aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins viðurkenna aðild Íslands að ráðinu en önnur ekki. Í ljósi þess höfum við átt tvíhliða viðræður við fjölda aðildarríkja í því skyni að ná sem víðtækastri sátt um aðild okkar að ráðinu fyrir næsta ársfund þess í Shimonoseki í maí.

Skilningur ríkja hefur aukist á því sjónarmiði Íslendinga að stjórna beri nýtingu sjávarauðlinda út frá víðtækara sjónarhorni en því sem beinist að einstökum stofnum. Síðastliðið haust gengust íslensk stjórnvöld fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar í samvinnu við Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO. Þar voru bæði vísindamenn og fulltrúar þátttökuríkja einróma um nauðsyn vistfræðilegrar nálgunar við stjórn á nýtingu lifandi auðlinda hafsins þar sem jafnt tillit er tekið til áhrifa fiskveiða á vistkerfið og áhrifa vistkerfisins á fiskveiðar. Þetta er nákvæmlega það sjónarmið sem íslenskir vísindamenn og stjórnvöld hafa haldið fram í umræðunni um hvalveiðar. Nýting hvala er eðlilegur hluti af sjálfbærri sjávarútvegsstefnu, því hvalir eru hluti af vistkerfinu.

Auðvitað hefur ekki alltaf verið sátt hér á landi um einstakar framkvæmdir. En þjóðin hefur verið einróma um að okkur beri að nýta náttúruauðlindir okkar á ábyrgan hátt og að íslenskt atvinnulíf standist kröfur sjálfbærrar þróunar. Um þessar mundir er verið að leggja síðustu hönd á nýja og endurbætta stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Það er einnig ánægjulegt að sjá hversu sveitarfélög og almenningur hafa tekið virkan þátt í að stuðla að sjálfbærri þróun hér á landi. Nær 40 sveitarfélög vinna nú að Staðardagskrá 21 til að stuðla að sjálfbærri þróun í sínum heimbyggðum. Þá hafa 28 sveitarstjórnir samþykkt svokallaða Ólafsvíkuryfirlýsingu. Með henni skuldbinda þær sig til að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við gerð skipulagsáætlana, sem og við aðra ákvarðanatöku um málefni sveitarfélaganna og að virkja íbúa, félagasamtök og aðila atvinnulífsins til öflugrar þátttöku í verkefnum sem tengjast Staðardagskrá 21.

Undanfarinn áratug höfum við Íslendingar tekið virkan þátt í alþjóðlegri samvinnu um sjálfbæra þróun, hvort sem er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í Norðurlandasamstarfi, innan OECD eða samstarfi Evrópuríkja.

Ísland var á meðal þeirra ríkja sem fyrst var kosið til setu í nefnd Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Nú höfum við verið kjörin í annað sinn til setu í nefndinni, en henni hefur verið falið að undirbúa leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg.

Við tökum virkan þátt í störfum nefndarinnar og leggjum okkar af mörkum við að tryggja að leiðtogafundurinn verði árangursríkur. Í málflutningi okkar höfum við undirstrikað nauðsyn þess að fundurinn fjalli jafnt um hina félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu þætti sjálfbærrar þróunar. Þannig höfum við stutt að á fundinum verði lögð höfuðáhersla á útrýmingu fátæktar. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á notkun endurnýjanlegra orkugjafa til þess að draga úr mengun frá iðnaði og samgöngum og til að mæta orkuþörf í þróunarríkjunum. Loks höfum við unnið að því að fjallað verði sérstaklega um brýn málefni er varða umgengni við hafið.

Það er ekki að ástæðulausu að við höfum um árabil barist fyrir ábyrgri umgengni við hafið. Staðreyndin er einfaldlega sú að hafið er undirstaða lífs á jörðu og lífríki þess er undirstaða íslensks þjóðlífs. Við Íslendingar eigum að taka virkan þátt í þeim skoðanaskiptum sem nú eiga sér stað um málefni hafsins. Það er veigamikið fyrir okkar hagsmuni að sú umræða hafi sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi og að hún finni sér stað þar sem við getum tekið beinan og virkan þátt í mótun á straumum og stefnum.

Ísland hefur löngum haft umtalsverð áhrif á alþjóðlega samvinnu um málefni hafsins, hvort sem um hefur verið að ræða mengun eða nýtingu á lifandi auðlindum þess. Gott nýlegt dæmi um áhrif okkar á þessu sviði var Reykjavíkurráðstefnan um ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar. Því miður hefur gætt nokkurrar tilhneigingar til að heimsbyggðin bregðist við versnandi ástandi fiskstofna út frá sjónarmiði friðunarsinna. Af þessu höfum við haft slæma reynslu í hvalveiðimálunum. Með því að virkja fiskveiðiþjóðir heims í sameiginlegt átak til að stuðla að sjálfbærum sjávarútvegi sýnum við ábyrgð og framsýni. Þetta gerðum við með Reykjavíkurráðstefnunni, en án hennar hefðu sjávarútvegsríkin væntanlega ekki lagt mikið af mörkum til leiðtogafundarins í Jóhannesarborg. Með Reykjavíkuryfirlýsingunni hafa sjávarútvegsríki heims sammælst um að efla enn frekar sjálfbæran sjávarútveg og draga þannig verulega úr óábyrgum fiskveiðum. Íslenskum stjórnvöldum hefur verið falið að flytja leiðtogafundinum í Jóhannesarborg Reykjavíkuryfirlýsinguna.

Næstkomandi október tekur Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu og munum við gegna henni fram til haustsins 2004. Norðurskautsráðið er sérstakt að því leyti að það er eitt fárra svæðisbundinna samvinnuverkefna ríkja sem hefur það beinlínis að markmiði að vinna að sjálfbærri þróun. Ráðið á rætur að rekja til samvinnu um umhverfismál á norðurslóðum og hefur samstarf á því sviði verið grundvallarþáttur í starfi þess. Samvinna Norðurskautsríkja á sviðum félags-, efnahags- og menningarlegra þátta sjálfbærrar þróunar á sér hins vegar styttri sögu. Markmiðið er að þessir þættir verði efldir í formennskutíð Íslands, einkum að því er varðar samstarf um að bæta lífskjör og lífsskilyrði fólks á norðurslóðum. Við eigum að líta til tækifæra norðurslóða. Lykillinn að lausn margvíslegra vandamála þar er farsæl félagsleg og efnahagsleg þróun og jákvæð aðlögun að náttúrufari svæðisins.

Norðurskautsráðið hefur átt gott samstarf við Norrænu ráðherranefndina og verður því fram haldið. Nýverið samþykkti Norræna ráðherranefndin tímamótaákvörðun um sjálfbæra þróun fyrir Norðurlönd. Stefnumörkunin miðar að því að hver atvinnugrein og öll stjórnsýslustig verði ábyrg fyrir því að tillit sé tekið til sjónarmiða sjálfbærrar þróunar. Þetta er einmitt lykilatriðið í því að sjálfbærri þróun verði náð, þ.e. að atvinnulífið, sveitarstjórnir og almenningur taki höndum saman með stjórnvöldum um að vinna hugmyndinni brautargengi.

Áframhaldandi samstarf Norðurskautsráðsins og Evrópusambandsins er einnig nauðsynlegt. Samstarf við Evrópusambandið er sérstaklega mikilvægt á sviði rannsókna, vísinda og tækniþekkingar sem eru afgerandi fyrir uppbyggingu mannlífs á norðurslóðum.

Með aukinni hnattvæðingu og atburðum síðasta árs hefur mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu í þágu sjálfbærrar þróunar farið vaxandi. Þetta á ekki síst við um aðstoð við þróunarríkin og uppbyggingu í fyrrum Sovétríkjum.

Áhersla hefur verið lögð á að efla þróunarsamstarf okkar til muna. Ríkisstjórnin ákvað á sínum tíma að þrefalda fjárveitingu til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á árabilinu 1998-2003. Einnig ákvað hún að taka þátt í átaki Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurfellingu skulda fátækustu ríkja heims. Skuldaviðjar sumra þessara ríkja eru svo gífurlegar að án niðurfellingar þeirra er borin von að þau geti nokkurn tímann séð sér farborða. Gert er ráð fyrir að Ísland gerist aðili að Alþjóðlega umhverfissjóðnum, GEF, sem veitir þróunarríkjunum viðbótarfjármagn vegna verkefna sem varða hnattræn umhverfismál.

Nýafstaðin er í Monterrey í Mexíkó mjög þýðingamikil ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um fjármögnun þróunar. Hún var tímamótaráðstefna sem markar framtíðarskref í alþjóðlegri samvinnu um fjármögnun þróunar, bæði í þróunarríkjunum og í fyrrum austantjaldslöndum. Niðurstöður hennar kalla á að við skoðum nánar framtíðaráherslur okkar í þessum málum.

Í tvíhliða þróunaraðstoð Íslands hefur verið unnið öflugt starf við að stuðla að varanlegum framförum í atvinnulífi, bættri stjórnsýslu, nýtingu og vernd auðlinda, heilsugæslu og menntamálum, ásamt því að bæta lýðræði, mannréttindi og hag kvenna. Allt eru þetta forsendur þess að treysta grundvöll sjálfbærrar þróunar í fátækustu ríkjum heims.

Áhersla á jafnréttismál og bættan hlut kvenna við uppbyggingu sjálfbærrar þróunar er sérstaklega mikilvæg. Reynslan hefur sýnt að ef þróunaraðstoð er beint til kvenna og réttur þeirra til menntunar og ákvarðana í samfélaginu færður til jafns á við karla eru meiri líkur á árangri og framförum. Raunin er sú að kynjamisrétti takmarkar aðgang kvenna að náttúruauðlindum og fjármagni og útilokar eignarrétt þeirra á landi. Almennt er viðurkennt að kynjamisrétti hamlar sjálfbærri þróun.

Konur eru um það bil 70% þeirra 1,3 milljarða manna sem býr við sára fátækt. Þessu þarf að breyta. Hér hefur UNIFEM, þróunarsjóður Sameinuðu þjóðanna fyrir konur, unnið mikilvægt starf við að styrkja konur og bæta stöðu þeirra. Við Íslendingar höfum átt gott samstarf við UNIFEM við uppbyggingarstarf í Kosovo þar sem íslenskir jafnréttissérfræðingar hafa undanfarin tvö ár starfað að málefnum kvenna og barna. Verið er að kanna möguleika á svipuðum samstarfsverkefnum utanrrn. og UNIFEM víðar, t.d. í hinu stríðshrjáða Afganistan.

Við getum miðlað miklu meiri þekkingu og reynslu til þróunarríkjanna. Í gegnum Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna hafa íslenskir sérfræðingar miðlað nemendum frá 38 löndum dýrmætri þekkingu um nýtingu jarðvarma til að mæta orkuþörf í þessum ríkjum. Áhugi á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa fer vaxandi. Áhyggjur vegna loftslagsbreytinga eiga hér hlut að máli en einnig sú staðreynd að í þróunarríkjunum og í ríkjum Austur-Evrópu eru ónýttir orkumöguleikar, ekki síst jarðvarmi. Hér er vaxandi tækifæri fyrir samvinnu íslenskra fyrirtækja og þróunarsamvinnu Íslands. Í þessu samhengi má nefna nýlega samninga í Ungverjalandi og Kína, auk vaxandi samstarfs við Rússland.

Í ljósi góðrar reynslu af Jarðhitaskólanum var Íslendingum falið að setja á stofn Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Starfsemi skólans hefur farið vaxandi ár frá ári og hafa nemendur frá 18 löndum útskrifast frá honum. Alþjóðlegri samvinnu um aðstoð við þróunarríkin á sviði sjálfbærra fiskveiða er stórlega ábótavant. Það er brýnt verkefni að alþjóðlegar fjármögnunarstofnanir á sviði þróunaraðstoðar veiti fjármagn og aðstoð á þessu sviði sem öðrum. Á næsta ári tökum við Íslendingar við sæti aðalfulltrúa í stjórn Alþjóðabankans fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Þá gefst tækifæri til að hvetja til aukinnar aðkomu bankans að uppbyggingu sjálfbærra fiskveiða í þróunarríkjunum.

Mikilvægt er að við Íslendingar komum meira að alþjóðasamvinnu um aðstoð á sviði sjávarútvegsmála, ekki aðeins vegna þess að við búum yfir mikilvægri þekkingu á þessu sviði heldur einnig vegna þess að það er í þágu okkar eigin sjávarútvegshagsmuna að þjóðir heims hraði nauðsynlegri þróun í átt til sjálfbærra fiskveiða. Alþjóðavæðingin er ekki einungis í viðskiptum, hún er líka í straumum og stefnum í umhverfismálum. Rányrkja og hnignun lifandi auðlinda hafsins hvar sem er í heiminum hefur áhrif á umræður og skoðanamyndun almennings hvar sem er. Það skiptir okkur máli sem fiskveiðiþjóð að alþjóðasamfélagið beri traust til fiskveiðiþjóða sem eru ábyrgar. Friðunarsinnum á borð við hvalfriðunarsinna mun einungis fjölga ef ekki tekst að koma böndum á óheftar veiðar sem skaða lífríki hafsins hvar sem er í heiminum.

Það er þýðingamikið að efla þátttöku atvinnulífsins í þróunaraðstoð. Það er atvinnulífið sem hefur á að skipa þeirri tækni og þekkingu sem þróunarríkjunum er nauðsynleg til uppbyggingar sjálfbærrar þróunar. Reynslan hefur einnig leitt í ljós að aðkoma atvinnufyrirtækja og einkarekstrar tryggir frekar framhald verkefna eftir að opinberri þróunaraðstoð lýkur.

[11:00]

Haustið 2000 var undirritað samkomulag utanrrn., Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um samstarf sem hefur það markmið að samtvinna þróunaraðstoð og íslenska markaðssókn í þróunar- og nýþróuðum ríkjum. Verkefninu, sem kallast Viðskiptaþróun, er ætlað að hvetja íslenskt atvinnulíf til virkari þátttöku í efnahagslífi þeirra þróunarlanda sem Ísland veitir tvíhliða aðstoð. Því er einnig ætlað að stuðla að auknum viðskiptatengslum íslenskra fyrirtækja við þróunarlönd og nýþróuð ríki Austur- og Mið-Evrópu og Suðaustur-Asíu. Í því augnamiði er haft samstarf við Alþjóðabankann sem hefur um nokkurt skeið lagt áherslu á að virkja betur lítil og meðalstór fyrirtæki í verkefnum bankans. Áhugi er á því að skoða enn frekara samstarf við íslensk fyrirtæki og frjáls félagasamtök um þróunarverkefni og nýta í því sambandi möguleika á að tengjast lána- og fjármögnunarstarfsemi Norræna þróunarsjóðsins (NDF) og Norræna fjárfestingarbankans (NIB).

Stundum hefur verið sagt að alþjóðaviðskipti séu einn af mikilvægustu drifkröftum þróunar. Sannleikskorn er að sjálfsögðu í þessari fullyrðingu en hún segir ekkert um gæði þróunar. Markaðurinn er oft blindur gagnvart afleiðingum sínum. Því verða stjórnvöld að sjá til þess að alþjóðaviðskiptakerfið stuðli að sjálfbærri þróun en grafi ekki undan henni.

Þessari skoðun hefur vaxið fylgi innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og hefur Ísland stutt hana. Á aðildarríkjafundinum í Doha sl. haust náðist samkomulag um að hefja nýjar samningaviðræður um alþjóðaviðskipti í því skyni að draga enn frekar úr viðskiptahömlum og fella fleiri svið viðskipta undir alþjóðlegar reglur. Þar á meðal var ákveðið að semja sérstaklega um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi en það hefur verið baráttumál okkar Íslendinga um langt skeið. Vinna að þessu máli verður meðal forgangsverkefna utanríkisþjónustunnar þar sem afnám ríkisstyrkja er ekki aðeins mikilvægt fyrir viðskiptahagsmuni okkar heldur styrkir stöðu okkar í alþjóðlegri umræðu um sjávarútvegsmál og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins.

Við studdum einnig þá ákvörðun að hefja samningaviðræður um tvö málefni er varða viðskipti og umhverfismál. Í fyrsta lagi verður samið um reglur um þjóðréttarlega stöðu alþjóðlegra umhverfissamninga gagnvart reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til að koma í veg fyrir að mótsögn skapist milli þessara regluverka. Þetta er mikilvægt til að tryggja að hvorki umhverfissamningar né regluverk Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar gangi gegn markmiðum um sjálfbæra þróun og ábyrga nýtingu náttúruauðlinda. Í öðru lagi verður samið um afnám tolla á umhverfisvænar vörur og þjónustu.

Doha-samkomulagið fól í sér ýmis mikilvæg ákvæði um aðstoð við þróunarríkin til að laga sig að alþjóðlega viðskiptaumhverfinu svo þau geti nýtt sér frelsi í viðskiptum til að bæta velferð þegna sinna. Það er lykilatriði fyrir þróunarríkin að þau gerist aðilar að alþjóðaviðskiptakerfinu og að þau verði hvött til þess, m.a. með tæknilegri ráðgjöf og bættum markaðsaðgangi. Þannig hefur ríkisstjórn Íslands veitt þróunarríkjum sömu kjör hvað varðar markaðsaðgang á Íslandi og EES-ríkin njóta.

Með þessum ákvörðunum stígur Alþjóðaviðskiptastofnunin tímamótaskref í þá átt að vinna að því að alþjóðaviðskiptakerfið hlúi að sjálfbærri þróun í heiminum en það markmið setti samfélag þjóðanna sér í Rio de Janeiro fyrir réttum tíu árum. Þetta er þróun sem ber að fagna.

Meginsjónarmið sjálfbærrar þróunar hafa náð fótfestu um allan heim. Ríki Evrópu hafa verið hvað framsæknust við að stuðla að þessari þróun, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Það er með þessum ríkjum sem Ísland á fyrst og fremst samleið að því er varðar stefnumörkun í þágu sjálfbærrar þróunar.

Með aðild okkar að EES-samningnum gerðumst við þátttakendur í öflugu umhverfisstarfi Evrópu. Þetta samstarf hefur fært okkur virka umhverfislöggjöf en henni var um margt ábótavant fyrir gerð samningsins. Umhverfislöggjöf og verkefni Evrópusambandsins hafa einnig haft verulega þýðingu í þeirri baráttu að vernda hafið fyrir mengun frá þéttbýli og iðnaði í Evrópu. Ísland á allt undir því að matarkista hafsins verði sem hreinust. Það er því mikilvægt að við tökum virkan þátt, bæði í framkvæmd og þróun umhverfislöggjafar Evrópu. Þetta á ekki síst við um sveitarfélögin sem eru ábyrg fyrir því að framkvæma stóran hluta þessarar löggjafar. Áhersla hefur verið lögð á að efla samstarf við sveitarfélögin og aðkomu þeirra að Evrópusamstarfinu.

EES-samningurinn hefur enn fremur fært okkur aðgang að öflugu vísinda- og rannsóknarsamstarfi ESB en mikið af því snýr að umhverfisvernd og auðlindanýtingu. Við greiðum til sérstaks þróunarsjóðs sem styrkir fátækari ríki sambandsins, þar á meðal á sviði umhverfismála. Með því tökum við þátt í að bæta umhverfi Evrópu en einnig skapast með þessu tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að taka þátt í sérhæfðum verkefnum sem styrkt eru af þessum sjóði.

Nú hefur Evrópusambandið gengið skrefinu lengra, sjálfbær þróun er eitt helsta markmið og inntak Maastricht- og Amsterdam-sáttmálanna. Aðildarríki Evrópusambandsins hafa einnig samþykkt sérstaka áætlun, svonefnda Cardiff-áætlun, um aðlögun allra verkefna og stefnumörkunar sambandsins að markmiðum sjálfbærrar þróunar.

Mikilvægt er að við vinnum áfram með Evrópusambandinu að brautargengi sjálfbærrar þróunar, bæði á Evrópska efnahagssvæðinu og í alþjóðlegri samvinnu.

Herra forseti. Sjálfbær þróun er framtíðarsýn sem er í sífelldri mótun. Hún er verkefni sem aldrei verður lokið því nauðsyn krefur að við bregðumst sífellt við og leiðum nýjar breytingar. Við Íslendingar verðum að axla okkar ábyrgð og taka virkan þátt í framgöngu sjálfbærrar þróunar. Náttúruauðlindir okkar eru nú sem fyrr undirstaða þjóðarbúskaparins. Við berum ábyrgð á því að nýta þessar auðlindir skynsamlega. Þannig getum við búið hér áfram í velferð og tryggt börnum okkar og barnabörnum sömu möguleika og við höfum til að nýta þessar auðlindir.

Það er okkur lífsnauðsynlegt að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um málefni er varða umhverfismál og sjálfbæra þróun. Reynslan hefur kennt okkur að þar sem við höfum skilgreinda hagsmuni og þar sem við höfum beitt okkur höfum við jafnan náð árangri. Við skulum minnast okkar veigamikla hlutverks í gerð hafréttarsamningsins og í samningaviðræðunum um úthafsveiðisamninginn. Við höfum einnig átt verulegt frumkvæði í alþjóðlegri samvinnu um vernd hafsins eins og gerð Washington-áætlunarinnar um varnir gegn mengun sjávar frá landi og Stokkhólmssamningsins um þrávirk lífræn efni. Með góðan málstað og góð rök höfum við áhrif og komum á framfæri því sem okkur er hugleiknast. Með því starfi höfum við áhrif á okkar eigin framtíð í samstarfi við aðrar þjóðir.