Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 11:10:31 (6684)

2002-03-26 11:10:31# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[11:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Við tökum að sjálfsögðu þátt í því á alþjóðavettvangi að ræða atriði eins og veiðarfæri. Það er þekkt að það er mikil andstaða í heiminum við notkun rekneta sem ekki eru notuð hér á landi. Það er líka þekkt að víða er mikil andstaða gegn því að nota botnvörpu en botnvarpa er hins vegar afskaplega þýðingarmikið veiðarfæri hér á landi og er undirstaða fiskvinnslu og -veiða á mjög mörgum stöðum. Mikil þróun hefur verið í gerð þessa veiðarfæris. Möskvastærð hefur stækkað. Síðan hafa verið þróaðar aðferðir til að smáfiskur sleppi betur út úr þessu stórvirka veiðarfæri. Það er sjálfsagt að taka þátt í þessari umræðu eins og við höfum gert en hins vegar vil ég minna á að botnvarpan er okkur afskaplega mikilvægt veiðarfæri og það er vandséð að eitthvert annað veiðarfæri geti komið í hennar stað. Að mínu mati ber að þróa það veiðarfæri með tilliti til sjálfbærrar þróunar og að hún valdi sem minnstri röskun á hafsbotninum. Hins vegar hafa íslenskir vísindamenn ekki tekið undir það, í sama mæli og maður hefði kannski ætlað, að röskun á botninum valdi mikilli röskun á stöðu fiskstofnanna. Það er þó alveg ljóst að röskun á botninum hlýtur að valda einhverri röskun á lífríkinu í heild sinni.