Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 11:12:35 (6685)

2002-03-26 11:12:35# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[11:12]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta svar og gleðst yfir því ef menn ætla, og standa við það, að fylgjast vel með því hvaða áhrif veiðarfærin hafa á botn hafsins. Það er það sem ég var helst að beina sjónum mínum að í þessu máli.

Ég bendi á að bæði bobbingar og hlerar hafa mikil áhrif á botninn þegar verið er að draga þessi veiðarfæri eftir botninum, og því stórvirkari sem þau eru og verða því meiri skaða kunna þau að valda á botni hafsins. Þetta þurfum við að hafa í huga. Við sjáum t.d. í fréttum frá Noregi hvað hefur gerst með kóralla þar.

Ég tek heils hugar undir það með hæstv. ráðherra að auðvitað verður trollið mjög mikilvægt veiðarfæri áfram, a.m.k. eins og ástandið er í dag hjá okkur, og ég er alls ekki að tala um að við ættum að banna notkun þess. Hins vegar verðum við að íhuga hvort sum svæði séu ekki hreinlega þeirrar gerðar að það sé óæskilegt að fara inn á þau með þessi stórvirku tæki. Við vitum að hlerar á togurum eru komnir jafnvel upp í nokkur tonn, hlerar sem fyrir ekki mörgum árum voru bara nokkur hundruð kíló að þyngd.

Hið sama má segja um snurvoðina. Í sumum tilvikum eru komnir bobbingar á hana, stórir járnboltar ef svo má að orði komast, sem fara eftir botninum og var það ekki ætlunin fyrst.

Þetta var það sem ég vildi vekja athygli á, herra forseti, í tengslum við ræðu hæstv. ráðherra og einnig að aldrei er nóg að gert í því að reyna að koma hinum fátæku í veröldinni til hjálpar.