Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 11:45:35 (6688)

2002-03-26 11:45:35# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[11:45]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. gerði athugasemd við þá skilgreiningu sem kom fram í ræðu minni þar sem ég sagði, svo ég vitni til hennar:

,,Með sjálfbærri þróun leitum við hins vegar leiða til að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða grunngæði jarðar eða möguleika komandi kynslóða á að njóta sams konar eða meiri velferðar.``

Ég stend við þessa skilgreiningu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt markmið í sambandi bæði við orkuauðlindir og fiskstofna okkar að hámarka efnahagslegan ávinning og félagslegan ávinning. Við erum að nýta orkulindirnar til þess að geta leyst ýmisleg félagsleg mál hér innan lands, skapa tekjur fyrir samfélagið. Við erum að skapa tekjur fyrir samfélagið til þess m.a. að geta tekið á með fátækustu ríkjum heims. Að sjálfsögðu fellur þetta undir sjálfbæra þróun.

Það væri ekki markmiðið með nýtingu þessara auðlinda að fá sem minnst út úr þeim. Markmiðið er að fá sem mest út úr þeim. Ég veit að þarna greinir okkur á vegna þess að flokkur vinstri grænna er andvígur nýtingu ákveðinna auðlinda. Það er allt í lagi með það. Það er skoðun út af fyrir sig. Þeir telja að þær auðlindir geti betur þjónað í öðrum tilgangi. Það er skoðun út af fyrir sig. En það hefur ekkert með sjálfbæra þróun að gera. Þá stefnu að leggjast t.d. á móti virkjunarframkvæmdum er ekki hægt að reka undir kjörorði sjálfbærrar þróunar.