Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 11:49:46 (6690)

2002-03-26 11:49:46# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[11:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er afskaplega einfalt hvað ég á við með orðum mínum. Ef við ákveðum að veiða 200.000 tonn af þorski er ég þeirrar skoðunar að það beri að gera sem mest verðmæti úr þessum þorski og nýta þau í þágu velmegunar þjóðarinnar. Og ef við ákveðum að virkja ákveðið vatnsfall, t.d. vatnsföllin austan og norðan Vatnajökuls, beri að gera úr því sem mest verðmæti fyrir hönd þjóðarinnar. Ég tel að hægt sé að virkja þessi vatnsföll með hugtakið sjálfbæra þróun í huga. Þetta höfum við sannað með málflutningi okkar á alþjóðlegum vettvangi þar sem við höfum t.d. fengið sérstöðu Íslands viðurkennda í þessu tilviki. Ég tel það algjörlega falla undir sjálfbæra þróun að nýta þessar miklu auðlindir norðan og austan Vatnajökuls.

Ég fellst ekki á þá skilgreiningu að aðeins megi nýta þessar auðlindir í þágu útivistar. Auðvitað verða þessar auðlindir nýttar í þágu útivistar svo lengi sem landið byggist. Og það fer prýðilega saman. Allar líkur eru á því að hægt verði að nýta þessar auðlindir miklu betur í þágu útivistar einmitt vegna þessara framkvæmda. Eða liggur það ekki t.d. alveg ljóst fyrir að allar þær vegaframkvæmdir sem hafa átt sér stað á þessu svæði vegna hugsanlegra virkjunarframkvæmda hafa einmitt stuðlað að miklu meiri útivist á þessu svæði en menn hafa nokkru sinni áður vanist?