Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 11:51:54 (6691)

2002-03-26 11:51:54# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[11:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt sem er algjörlega nauðsynlegt ef menn vilja vera einarðir og sjálfum sér samkvæmir í sambandi við umhverfismál. Það er að horfast í augu við þá staðreynd að það er ekki alltaf bæði hægt að borða kökuna og geyma hana. Umhverfisvernd og það að ætla að reyna að sætta allar andstæður sem mætast í hugtökum um sjálfbæra þróun og umhverfisvernd versus kröfur um hagvöxt og sífellt aukin lífsgæði --- ég tala nú ekki um á Vesturlöndum --- brotlendir alveg voðalega ef menn fást ekki til að horfast í augu við það og viðurkenna að það er ekki alltaf í þessum efnum bæði hægt að borða kökuna og geyma hana. Það er ekki bæði hægt að virkja og vernda.

Rauðhólarnir hérna í næsta nágrenni við okkur eru ágætt dæmi um það. Þetta þótti óskaplega þægilegt byggingarefni, gott í grunna. Það var þægilegt að skreppa upp í Rauðhólana og moka því upp og keyra það hingað til Reykjavíkur. Svo rann það upp fyrir mönnum að Rauðhólarnir væru stórkostleg náttúruverðmæti, gervigígar við bæjarþröskuld Reykjavíkur. Og þá voru uppi framsýnir menn sem sögðu: ,,Heyrðu, þetta gengur ekki. Við getum ekki bæði mokað Rauðhólunum í burtu og steypt þeim ofan í húsgrunna og varðveitt þá.`` Menn stóðu því frammi fyrir vali. Stundum gerist það. En sú umhverfisvernd er einskis virði sem alltaf er ýtt til hliðar þegar menn standa frammi fyrir svona vali, standa frammi fyrir staðreyndum um að ekki er alltaf hægt bæði að geyma kökuna og borða hana.

Sem betur fer tóku menn réttan kost og hættu að moka burtu Rauðhólunum og friðlýstu það sem eftir var og því var bjargað sem bjargað varð í þeim efnum. En það er kannski nauðsynlegt stundum fyrir menn að taka svona einföld skólabókardæmi um að þetta er ekki alltaf svona einfalt. Það er ekki alltaf hægt að gera hvort tveggja. Menn geta haft ýmsar hugmyndir uppi um virkjanaþjóðgarða og hvað það nú er, en að lokum standa menn frammi fyrir því að upp að vissu marki snýst þetta um forgangsröðun, um val. Það er óhjákvæmilegt. Það er ekki alltaf þannig. Heimurinn er ekki svo einfaldur og þægilegur við okkur að það sé sífellt bæði hægt að geyma kökuna og borða hana.